Hvenær ætlar Ísland að banna bjútí-filtera?

„#FilterDrop er herferð sem hefur verið mjög áberandi í Bretlandi síðustu mánuði en með herferðinni er vakin athygli á því að áhrifavaldar eru að nota „fegurðar-filtera“ á myndir þegar húð- og snyrtivörur eru auglýstar.

Snyrtifræðingurinn Sasha Pallari hóf herferðina og hafði það að markmiði að banna slíka filtera við gerð auglýsinga á samfélagsmiðlum,“ segir Kristín Samúelsdóttir í pistli um málið: 

Breski miðillinn BBC greindi frá því á dögunum að slíkir filterar væru nú bannaðir í Bretlandi og felst bannið í því að ekki er leyfilegt að auglýsa húð- og snyrtivörur með „fegurðar-filter“ sem kemur til með að breyta ásýnd vörunnar eða eiginleikum hennar á einhvern hátt.

Ég get ekki gagnrýnt að einstaklingar noti filtera á sínar persónulegu myndir svo lengi sem filterinn kemur ekki til með að breyta útliti þeirra á einhvern hátt. Allt er að sjálfsögðu gott í hófi en hins vegar hef ég ýmislegt að segja þegar viðkomandi notast við slíka filtera í formi auglýsinga á Instagram eða á samfélagsmiðlum almennt.

Sem lítill áhrifavaldur á Íslandi og starfandi í kringum samfélagsmiðla á einhvern hátt í nokkur ár hef ég tekið eftir að íslenskir áhrifavaldar eru duglegir við að nota slíka „fegurðar-filtera“ á Instagram við gerð auglýsinga á vörumerkjum.

Ég og aðrir áhrifavaldar leggjum mikinn metnað í miðlana okkar til að sýna áhorfendum rétta mynd af okkur sjálfum og sérstaklega þeim vörum sem við komum til með að auglýsa. Það er mikilvægt að neytendur fái alltaf rétta mynd af vörunni sem fjallað er um og réttar upplýsingar um hana.

Ég tek gjarnan myndir af húð- og snyrtivörum sem ég birti á Instagram í formi auglýsingar frá fyrirtækjum sem ég vinn með. Myndavélin sér ekki alltaf það sem augað sér og stundum þarfnast myndin skarpari lita, eða draga þarf úr litatónum sem myndavélin gæti hafa ýkt. Allt er það gert með sérstökum myndvinnsluforritum þar sem ég hef alla stjórn á því hvernig lokamyndin mun líta út. Ég næ því að hafa stjórn á því að vörunni sem auglýst er sé aldrei breytt á neinn hátt og muni ekki villa um fyrir neytendum. Með því að nota fyrirframskapaða filtera er því miður ekki hægt að hafa stjórn á því. Hér er ákveðin lína á milli þess að bæta eða breyta. Það er algengt að fyrirframskapaður filter sýni vöruna ekki í sínu rétta ljósi og jafnvel breyti henni á einhvern hátt, dragi úr ákveðnum litum eða jafnvel breyti þeim algjörlega, sem kemur til með að villa um fyrir neytendum. Viðkomandi er tilbúin að kaupa vöru eftir auglýsingu frá áhrifavaldi en varan er svo gjörólík í útliti en sú vara sem áhrifavaldurinn auglýsti, þetta getur reitt neytandann til reiði.

Það er löngu vitað að mikil glansmynd ríkir á Instagram, filterar eru mikið notaðir í daglegu amstri til að sýna betur andrúmsloftið bak við linsuna og er það í góðu lagi en fullkomnunaráráttan er orðin ansi mikil þegar áhrifavaldar geta ekki lengur sýnt vörur í sínu rétta ljósi í formi auglýsingar án filtera. Þetta er ekki sanngjarnt fyrir neytandann og ekki sanngjarnt fyrir vörumerkið.

Áhrifavaldur ber alltaf ábyrgð á auglýsingum sínum og að þær skili sér rétt til fylgjenda og neytenda.

Fjölmörg fyrirtæki vilja eingöngu vinna með ákveðnum nöfnum í von um að vekja athygli á vörumerkjum sínum sem er ekkert nema gott og blessað, en er fyrirtækjunum orðið minna sama um framsetningu auglýsingarinnar og meira annt um það hver kynnir hana á Instagram?

Með tímanum og áframhaldandi þróun á filternotkun af þessu tagi er ég hrædd um að trúverðugleiki hjá áhrifavöldum komi til með að snarminnka og einnig hjá vörumerkjum og þeim vörum sem þeir kynna. Er það virkilega það sem vörumerkin vilja? 

Það er vissulega mjög ósanngjarnt fyrir smáa áhrifavalda að missa af ákveðnum vörumerkjum til annarra áhrifavalda sem nota slíka fegurðar-filtera við gerð auglýsinga og skapa þar af leiðandi neikvæða ímynd á vöruna sjálfa til neytenda.

Ég hef ekki tölu á því hve marga áhrifavalda og hve oft ég sé þá auglýsa húð- og snyrtivörumerki með notkun sérstakra fegurðar-filtera. Viðkomandi sýnir krem, farða, varalit, maskara eða aðrar húð- og snyrtivörur til dæmis, hann notar filter sem býr til óaðfinnanlega húð sem er laus við allar fínar línur, án húðhola, er fullkomlega slétt og brún.

Varan sem viðkomandi auglýsir mun aldrei sýna neytendum þann rétta ávinning sem hún hefur og er áhrifavaldurinn þar af leiðandi farinn að blekkja neytendur, sem upplifa mikla neikvæðni og vonbrigði.

Notkun fegurðar-filtera við auglýsingar á húð- og snyrtivörum er ekki bara villandi fyrir neytendur heldur býr einnig til mjög neikvæða mynd af vörunni og vörumerkinu sjálfu.

Sjálfsöryggi fólks fer minnkandi og sífellt fleiri eru farin að bera saman sína húð við húð sem er langt frá því að vera raunveruleg.

Er ekki kominn tími til að feta í fótspor Breta og banna þessa filtera svo neytendur fái að sjá þær vörur sem auglýstar eru í sínu rétta ljósi?

View this post on Instagram

A post shared by Kristín Sam (@ksam.beauty)



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál