Þurfti að breyta mataræðinu sem ofurfyrirsæta

Cindy Crawford.
Cindy Crawford. AFP

Ofurfyrirsætan Cindy Crawford verður 55 ára seinna í febrúar. Í marsútgáfu tímaritsins Red segist hún hafa þurft að hugsa vel um hvað hún borðaði til þess að passa í föt en nú hafi viðhorf til mataræðis breyst. „Ég kann ekki við orðið megrun en ég kýs að borða hollt,“ segir Crawford. 

„Ég var aldrei ein af þeim sem gátu borðað það sem þær vildu – jafnvel ég pirraði mig á því að Kate Moss gæti borðað hamborgara og franskar og reykt sígarettur,“ segir Crawford í viðtalinu við Red að því fram kemur á vef Daily Mail. 

„Þegar ég flutti til New York vissi ég að ég þyrfti að breyta því hvernig ég borðaði eða ég kæmist ekki í fötin. Ekki gleyma því að fötin voru mun stærri en sýniseintökin eru núna.“ 

Hún segir að hún hreyfi sig á allt annan hátt núna en þegar hún var ein frægasta fyrirsæta heims.

„Þegar ég var á þrítugsaldri tók ég erfiðar æfingar og datt svo í sófann. Svo eignaðist ég lítil börn og fattaði að æfingar gátu ekki gert mig þreytta lengur, þær þurftu að gefa mér orku í stað þess,“ sagði Crawford sem á börn sem eru 19 og 21 árs. „Nú er markmið mitt að meiða mig ekki. Svo ég teygi mun meira og geri pílates oftar. Mér finnst ég ekki þurfa að æfa af svona mikilli hörku lengur.“

Cindy Crawford á frumsýningu árið 2013.
Cindy Crawford á frumsýningu árið 2013. AFP
Cindy Crawford með blásið hár árið 1992.
Cindy Crawford með blásið hár árið 1992. Ljósmynd/Pepsi
mbl.is