Í sama kjólnum og mamma hennar á afmælinu

Sjónvarpsstjarnan Holly Willoughby fagnaði fertugsafmælinu í sama kjól og mamma …
Sjónvarpsstjarnan Holly Willoughby fagnaði fertugsafmælinu í sama kjól og mamma hennar fagnaði fertugsafmæli sínu. Skjaskot/Instagram

Breska sjónvarpsstjarnan Holly Willoughby heiðraði mömmu sína þegar hún valdi kjól fyrir fertugsafmælið sitt. Stjarnan klæddist sama kjól í útsendingu og mamma hennar klæddist þegar hún fagnaði fertugsafmæli sínu. 

Willoughby var í dökkbláum afmæliskjól móður sinnar. Kjóllinn var með blómamynstri, axlirnar áberandi eins og eitt sinn var í tísku og eiginlega tvöfalt pils. Kjóllinn kom vel út þrátt fyrir að vera kominn til ára sinna. 

„Þessi mynd af mömmu minni var tekin á fertugsafmælinu hennar sem hún hélt í garðinum. Ég man svo vel eftir þessum degi. Það er skrítið að ná þeim aldri sem þú manst eftir mömmu þinni á,“ skrifaði sjónvarpsstjarnan um samsetta mynd af sér og mömmu sinni. Mamman átti að sjálfsögðu kjólinn enn þá. Tilfinningin var skrítin þegar hún renndi upp kjólnum. „Ég get ekki verið með mömmu né pabba í dag en mér líður eins og ég sé nær þeim í þessum kjól.“

mbl.is