Mikil grimmd í umfjöllun um líkama Winslet

Kate Winslet.
Kate Winslet. AFP

Óskarsverðlaunaleikkonan Kate Winslet hefur verið í sviðsljósinu síðan hún var 19 ára. Hún segir ótrúlegt að horfa til þess hvernig fjallað var um þyngd hennar í fjölmiðlum þegar hún var yngri. Neikvæðar fréttir um líkama hennar voru í fyrirrúmi. 

Eftir að Winslet sló í gegn í Titanic var meðal annars gert grín að líkama hennar og bent á að ef hún hefði verið grennri hefði Leonardo DiCaprio komist á flekann með henni. Í viðtali við Guardian segir Winslet að mikil grimmd hafi verið í umfjölluninni. 

„Þegar ég var á þrítugsaldri talaði fólk mikið um þyngd mína. Ég var oft beðin um að tala um líkama minn. En þá fékk ég stimpil á mig fyrir að vera ákveðin og hreinskilin. Nei, ég var bara að verja sjálfa mig.“

Nýlega skoðaði Winslet greinar sem voru skrifaðar um hana í lok síðustu aldar en hún er 45 ára í dag. 

„Það er eiginlega hlægilegt hversu hræðileg sú gagnrýni sem ég fékk á mig var og hreinlega hversu grimmir slúðurmiðlar voru við mig. Ég var enn að átta mig á hver ég væri eiginlega. Það var fjallað um stærð mína, hversu þung ég var, skrifað um á hvaða mögulegu megrunarkúrum ég væri,“ sagði Winslet sem sagði það hafa verið erfitt að lesa greinarnar og þær hefðu  vakið henni reiði. Að sama skapi áttaði sig hún á með lestrinum hversu langt við erum komin í umræðunni.

Kate Winslet og Leonardo DiCaprio í Titanic.
Kate Winslet og Leonardo DiCaprio í Titanic. Ljósmynd/Titanic
mbl.is