Mikilvægi þess að geta villt á sér heimildir í ósanngjörnum heimi

Linda Björg Árnadóttir hönnuður.
Linda Björg Árnadóttir hönnuður. Ljósmynd/Saga Sig

„Oftast þegar við veljum hvernig við klæðum okkur og lítum út þá höfum við áhuga á því að tjá okkar einlægu sjálfsmynd og sérstöðu. Það á þó ekki alltaf við því við getum með klæðnaði blekkt aðra og þóttst vera önnur manneskja með allt aðra stöðu og jafnvel af öðru kyni en við raunverulega erum,“ segir Linda Björg Árnadóttir í nýjum pistli á Smartlandi: 

Sagan um Öskubusku er talin vera um 1600 ára gömul og eiga sér uppruna í Kína. Vinsældir sögunnar hafa verið og eru enn stórkostlegar. Þær gefa til kynna að það sé mikil eftirspurn eftir sögu þar sem að aðalpersónan, sem haldið er í ósanngjarnri stöðu af vondu fólki og á sér enga von um að geta bætt hana, eignast allt í einu undurfallegan kjól og skó, kemst á ballið með prinsinum og á svipstundu fær hún að fá tækifæri sem áður voru henni ekki aðgengileg. Prinsinn verður ástfanginn af henni og Öskubuska nær að komast út úr hinni vondu og vonlausu stöðu og betra sitt líf gífurlega.

Sagan um Mulan er ekki ósvipuð. Þar þykist stelpa með klæðnaði vera strákur og breytir með því örlögum sínum. Margar aðrar frægar sögur eru um svipað efni. Staða fólks er ósanngjörn og þau hafa ekki tækifæri til þess að breyta eða bæta líf sitt, en með því að þykjast vera annar þá fær viðkomandi ný tækifæri.

Í samfélagi þar sem öllum eru gefin jöfn tækifæri þá þarf ekki að beyta þessum brögðum.

En í heimi þar sem ríkir ekki jafnrétti, þá er mikilvægt að geta í ákveðnum aðstæðum, villt á sér heimildir til þess að fá tækifæri sem eru aðgengileg aðeins fyrir suma.

Við hljótum að vilja hafa frelsi til þess að vera við sjálf og þurfa ekki að líta út fyrir að vera einhver annar. En það sem hefur einkennt vestræna tískumenningu lengi, er að fólk reynir að klæða sig með þeim hætti að það gefur þau skilaboð til samfélagsins, að það hafi meira en það hefur í raun og veru.

Þessi menning hefur verið víkjandi í einhvern tíma, væntanlega sem afleiðing af auknu jafnrétti og nær ákveðnum lágpunkti með pönkinu þegar það verður í fyrsta skipti eftirsóknarvert í vestrænni menningu, að vera ljótur og í rifnum fötum.

Það má samt sjá víða í samfélaginu fólk raða í kring um sig stöðutáknum eins og fínum bíl, Louis Vuitton tösku eða einhverjum hönnunarhúsgögnum og vill með því gefa þau skilaboð að þau tilheyri ákveðnum samfélagshópi, oft öðrum en það raunverulega tilheyrir.

Hugsanlega er þetta eðlileg afleiðing á samkeppni um afkomu sem aldrei verður hægt að komast hjá en með auknum jöfnuði þá er hægt að lágmarka mikilvægi þess að geta villt á sér heimildir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál