Fékk nóg af London og kom heim til að hanna

Sigrún Björk Ólafsdóttir - Sigrún Design
Sigrún Björk Ólafsdóttir - Sigrún Design Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Björk Ólafsdóttir hannar tískufatnað og búninga undir nafninu Sigrún Design. Sigrún sýnir hönnun sína á tískuvikunni í London í tískumynd House of iKons. Sigrún hafði búið í London síðan árið 2002 þegar hún flutti heim í fyrra. Hún fór þó ekki í fatahönnunarnám fyrr en hún var búin að eignast börn og útskrifaðist árið 2019.  

„Ég var nú alltaf frekar mikið fyrir að búa til og klæðast furðulegum fötum sem krakki og unglingur en það hvarflaði eiginlega aldrei að mér að það væri hægt að vinna við að sauma og skapa. Ég byrjaði að læra að baka leður og bjó til mikið af höttum og veskjum og þess háttar,“ segir Sigrún. Hún fékk fyrsta tækifærið sitt þegar fatahönnuður sem var að sýna í London og París notaði aukahluti frá henni. Sigrún lærði að sauma hjá móður sinni. „Það má segja að ég hafi verið svolítið sein í þessu öllu þar sem ég byrjaði á að eignast börn og koma þeim til manns áður en ég fór að hlusta á mína innri rödd sem var orðin hás við að reyna að fá mig til að sinni sköpunarkraftinum sem brann inni í mér.“

Sýningin árið 2021
Sýningin árið 2021 Ljósmynd/Mariana MA

Blái krumminn vakti athygli

Sigrún ætlaði að einbeita sér að viðskiptahlið tískunnar og einstökum verkefnum þegar eigandi House of iKons, Savita Kaye, bað hana að hanna þrjú dress fyrir sýninguna sína í fyrra. „Myndir af henni í Bláa krummanum mínum fóru eins og eldur í sinu um tískuheiminn og enduðu meðal annars á forsíðu tímarita í Ameríku. Það var síðasta sýningin áður en Covid lokaði á sýningar með hefðbundnu sniði og í september 2020 var stafræn sýning þar sem skyggnst var bak við tjöldin hjá hönnuðum úti um allan heim og hlotnaðist mér sá heiður að vera boðið að opna sýninguna – sem ég og gerði,“ segir Sigrún. Hún tók aftur þátt í stafrænni sýningu núna um helgina með 17 hönnuðum. Hún fékk nágrannakonu sína, listakonuna Vilborgu Ástráðsdóttur, til þess að taka þátt í sýningunni með sér.

„Flíkurnar sem urðu fyrir valinu í myndinni eru herrakápan Íslenski hrúturinn sem er búin til úr efni sem er ofið úr brenninetlum en ber mikinn ullarkeim og mér þykir afar íslandsblár að lit. Næst varð svo krumminn fyrir valinu en hver einasti efnisbútur sem ég notaði í þennan kjól var fenginn frá Góða hirðinum – enda er krumminn okkar afar útsjónarsamur og hirðir allt sem hann getur. Síðast en ekki síst var svo drekinn minn; sæhestur sem er blanda af íslenska hestinum, víkingaskipi og drekahöfði, sem auðvitað á sér merkilega tengingu við landvættirnar okkar hér á Íslandi. Það er draumur minn að fara með þennan búning til hafs og mynda þar með skjöldum, víkingum og ægisvindum.“

Hönnun Sigrúnar á tískuvikunni í London.
Hönnun Sigrúnar á tískuvikunni í London. Ljósmynd/Mariana MA

Sigrún segist hanna bæði hefðbundin nútímaföt en skemmtilegast finnst henni að gefa sköpunarkraftinum lausan tauminn og hanna óhefðbundin föt og fær innblástur úr goðafræði, víkingaheimum og þjóðsögum. 

„Mér þykir alveg einstaklega gaman að vinna með efni sem er ekki beinlínis hefðbundið og nota allt sem mér dettur í hug sem ég finn í náttúrunni. Ég tók til dæmis ákvörðun um að ég skyldi sjá hvort mér tækist að búa til fallegan brúðarkjól úr kartöflupokum sem ég gerði og fór með á tískupallinn í London – ásamt herrakápu úr sama efni. Ég var bara nokkuð ánægð með árangurinn. Það er hins vegar þannig með mig að ég get ekki bara hannað venjulegan hefðbundinn svartan kjól. Allar flíkur sem ég geri segja sögu. Ég finn rosalega mikinn innblástur í fornsögum Norðurlandanna og þeim sögupersónum sem þar þekkjast. Ég elska forn tákn eins og rúnir og galdrastafi, steinristur og þess háttar því þar er um svo gríðarlega spennandi sögur að ræða sem enginn í raun og veru veit hverjar eru þótt fræðimenn hafi auðvitað ýmsar skoðanir, sem eru ávallt breytingum háðar. Íslensk náttúra er líka nokkuð sem ég fæ ekki nóg af. Litadýrð landsins er svo stórkostleg og dýralífið mun litskrúðugra en margir halda.“

Brúðarkjóll og kápa úr kartöflupokum.
Brúðarkjóll og kápa úr kartöflupokum. Ljósmynd/Mariana MA

Hvernig er að koma sér á framfæri í borg eins og London?

„Það er ofboðslega erfitt til að byrja með. Þú hverfur inn í mauraþúfu þar sem þér eru allir vegir færir ef þú tekur upp budduna og ert tilbúin til þess að borga fyrir hvert skref með sál þinni. Þetta snýst rosalega mikið um að mynda tengslanet, vera með jákvætt viðhorf og vera tilbúin til að gera það sem þarf til að kynnast fólki. Það er í raun bara þetta tvennt sem ræður öllu – peningar og hverja þú þekkir. Það sem hefur hjálpað mér er að ég hef alla tíð unnið fullt launastarf samhliða hönnuninni. Launaseðillinn hefur gert mér kleift að borga það sem þarf án þess að fara út í skuldir og læti. Ég setti mér það strax sem markmið að taka hvert skref eins og launaseðillinn leyfir og ef það þýðir að það taki mig tíu ár að komast á þann stað að geta hætt dagvinnunni þá bara er það svoleiðis. Það sem varð svo til þess að mér tókst að koma mér í þannig aðstöðu að BBC fjallaði um verkin mín, ASOS tók mig inn í „marketpleisið“ hjá sér og ótal tækifæri fóru að birtast var þegar ég var farin að vinna með fólki sem bar af á sínu sviði.“

Fékk nóg af London

Sigrún flutti til London árið 2002 og var alveg komin með nóg af borginni þegar hún flutti heim í sumar. Hún segist hafa eytt allt að þremur klukkutímum á dag í að komast til og frá vinnu, sem hún segir hreinlega mannskemmandi. 

„Það var svo ekki á það bætandi að fjórum sinnum á þessum árum lenti ég í hringiðu hryðjuverka þar sem ég vann þá í Westminster. Það var nóg komið þegar synir mínir bentu mér á að þeir hefðu í fjögur skipti þurft að óttast að ég hefði lent í árás. Þegar 7. júlí-árásirnar voru gerðar björguðu þrjár mínútur sennilega lífi mínu en fjölskylda mín vissi ekki hvort ég væri lífs eða liðin í um klukkutíma eftir árásirnar. Þau vissu að ég átti að vera í einni lestinni sem varð fyrir sprengjuárásinni. Það er ekkert skemmtilegt að vita að móðir manns hafi staðið grátandi fyrir framan sjónvarpið á meðan símakerfi Lundúna lá niðri.

Eldri hönnun Sigrúnar.
Eldri hönnun Sigrúnar. Ljósmynd/Mariana MA

Árið 2019 fékk ég nóg og ákvað að yfirgefa London sumarið 2020. Sökum vinnu gat ég ekki farið fyrr. Ég varð fimmtug í júní í fyrra og var löngu búin að ákveða að halda upp á afmælið mitt heima. Þegar Covid skall á var systir mín sem þá bjó í Portúgal í heimsókn ásamt yngri syni mínum sem bjó á Íslandi og við vöknuðum öll upp við þann vonda draum að útgöngubann var komið á í Bretlandi og þau voru föst heima hjá mér. Í 85 daga bjó systir mín í vinnustofunni minni og sonurinn svaf í sófanum. Ég kom heim með fyrstu vélinni sem lenti hinn 15. júní og svo var mér boðið að taka veiðihús úti í sveit á leigu þegar veiðitímabilinu lauk. Ég stökk á það tækifæri og hef ekki litið til baka síðan. Mér líður svo vel hér heima innan um íslensk fjöll og fólk. Hvað verður þegar heimurinn opnast aftur er ekki gott að segja en ég er ennþá í dagvinnu í London. Yfirmaðurinn minn er bara svo ljúfur að hann leyfir mér að vinna hvaðan sem er – á meðan ég er með net og síma.“

Íslenskar konur eru töff

Finnur þú mun á tísku á Íslandi og í London? 

„Almennt finnst mér íslenskar konur töff týpur. Íslendingar almennt eru töff týpur. Við erum pínulítið ótamin ennþá og mér finnst það fallegt. Ég sé oft stolt, styrk, forvitni og ævintýraþrá – forfeður landsins okkar í fólkinu. Sem betur fer er minna um svokallað „chav“-lið hér heima en úti og þá sérstaklega á stöðum eins og Liverpool og Manchester, til dæmis sérðu konur úti að versla í náttfötum með rúllur í hárinu. Þegar klukkan slær sex eru þessar sömu dömur mættar á pinnahælum í kjólum sem rétt hylja naflann. Það er ekki beint klassi né eru þessar dömur töff týpur.

Íslenskar konur eru oft mjög skapandi í hugsun og því er algengt að sjá þær mynda sinn eigin stíl sem er alveg ofboðslega skemmtilegt að sjá. Úti er auðvitað heilmikið um „fashionistas“ en oft er það áberandi að fólk er að reyna of mikið að vera eitthvað sem er því ekki eiginlegt. Skapandi hugsun er ekki öllum gefin. Það er líka mjög áberandi stéttskiptingarmunur í Bretlandi. Þú getur flokkað fólk í kassa eftir því hvernig það klæðist, hvaða merki það klæðist og þess háttar. Ég var ekki búin að vinna lengi í London þegar mér var kennt hvernig karlmenn eru til dæmis dæmdir eftir ermum og hnöppum á skyrtunum sem þeir klæðast. Þetta er nokkuð sem ég hef aldrei heyrt nokkurn Íslending nefna.“

 Hér fyrir neðan má sjá myndina sem Sigrún tekur þátt í. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál