Versta fegrunarráð Íslandsvinkonu

Emilia Clarke.
Emilia Clarke. AFP

Game of Thrones-stjarnan Emilia Clarke er aðeins 34 ára en samt byrjuð að finna fyrir því að hún er að eldast í Hollywood. Hún lætur þó ekki segjast og fer síðan eigin leiðir þegar kemur að útlitinu.

„Ég var einu sinni með snyrtifræðing sem sagði mér að ég þyrfti fylliefni og ég rak hana á dyr. „Farðu út,“ sagði ég bókstaflega. Akkúrat þessi orð,“ sagði Emilia Clarke í viðtali við breska Elle þegar hún var spurð út í versta fegrunarráð sem hún hefði fengið. 

„Þá geturðu fengið andlit þitt aftur,“ var rökstuðningur snyrtifræðingsins en Clarke var aðeins 28 ára þegar þetta átti sér stað. 

Emilia Clarke.
Emilia Clarke. AFP

Clarke segist verða klárari með tímanum og eftir því sem hún upplifir meira. „Ég hef gert allt þetta og er stolt af því. Þú getur aðeins gert þetta af því þú ert á þeim aldri sem þú ert á. Tíminn er það eina sem leyfir þér að gera þetta. Svo ef andlitið á mér ber merki tímans sem ég hef gengið á þessari jörð tek ég því.“

Þrátt fyrir að Clarke sé á þeirri skoðun að það sé fallegt að eldast er ekki þar með sagt að hún hugsi ekki vel um húðina. Besta fegrunarráð sem hún hefur fengið er frá móður hennar sem kenndi henni að þrífa húðina og nota rakakrem. Skrítnasta ráð sem hún hefur fengið sem hún segir reyndar gott er að láta kaldar skeiðar liggja á augnlokunum. Á þetta ráð að minnka bauga. 

mbl.is