Var í glæsilegum síðkjól í veislunni

Andrea Magnúsdóttir með Ísabellu Maríu dóttur sinni á fermingardaginn.
Andrea Magnúsdóttir með Ísabellu Maríu dóttur sinni á fermingardaginn. mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Andrea Magnúsdóttir fatahönnuður er fagurkeri fram í fingurgóma. Dóttir hennar, Ísabella María Ólafsdóttir, fermdist í ágúst í fyrra. Andrea og eiginmaður hennar Ólafur Ólason eiga tvö börn saman, þau Magnús Andra 22 ára og Ísabellu Maríu. 

Hvernig var að undirbúa fermingu?

„Undirbúningurinn var afar óvenjulegur í ljósi aðstæðna. Daginn sem hún átti að fermast í apríl gerðum við okkur glaðan dag hér heima, elduðum góðan mat og gáfum henni litla gjöf. Í ágúst áttum við dásamlega stund í Garðakirkju og eyddum svo deginum með ömmum hennar og öfum í garðinum hérna heima hjá okkur. Fengum Aldísi Pálsdóttur til að koma og taka ómetanlegar fjölskyldumyndir og áttum rólegan og fallegan dag. Við héldum svo veisluna í september í Sjálandi veislusal í Garðabæ. Þá loksins hittum við vini og ættingja. Við vorum með „bröns“ í hádeginu og það mættu allir.“

Það er gaman að eiga fallega fjölskyldumynd sem tekin er …
Það er gaman að eiga fallega fjölskyldumynd sem tekin er á fermingardaginn. mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Hvaða fatnaði mælirðu með fyrir fermingarmömmuna?

„Ég mæli með því að vera í fatnaði sem er þægilegur og áreynslulaus en samt auðvitað vera í þínu fínasta pússi. Ég var í glæsilegum, þægilegum síðkjól í veislunni.“

Hvað stendur upp úr tengt fermingunni?

„Dagurinn sem hún fermdist í kirkjunni og við eyddum hér heima með okkar nánustu og það að hafa veisluna ekki sama dag. Ég mundi velja að gera það þannig aftur þó að það væri ekki faraldur í gangi. Það er æðislegt að njóta bara á fermingardaginn og halda veisluna á öðrum degi og ná þannig að njóta hennar líka en vera ekki á hlaupum til að koma öllu fyrir á einum og sama deginum.“

Hvað borðar þú alltaf í morgunmat?

„Ég borða aldrei morgunmat en fæ mér alltaf góðan cappuccino-kaffi, eða jafnvel nokkra þannig.“

Ísabella María á fermingardaginn.
Ísabella María á fermingardaginn. mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Hver er uppáhaldsveitingastaðurinn?

„Ég vel oftast að fara á Sushi Social, Duck & Rose eða Grillmarkaðinn. En þar sem ég er mest í Hafnarfirði verð ég að segja Von & krydd.“

Hvað gerirðu til að dekra við þig?

„Hugsa vel um húðina alla daga alltaf, ég dekra eiginlega við hana á hverjum degi, en ef ég mætti velja dekur þá myndi ég fara í The Retreat í bláa lóninu. Enginn sími, náttúrufegurð, dekur og góður matur.“

Hver er uppáhaldsflíkin þín?

„Síðkjólar eru alltaf í uppáhaldi, það er ekki til glæsilegri en á sama tíma auðveldari og áreynslulausari flík.“

Hvað er í snyrtibuddunni?

„Hvað er ekki í henni! Mín snyrtibudda er stór, ég gerði hana sérstaklega til að koma öllu fyrir á einum stað en taskan hefur að geyma allt sem ég þarf og sennilega aðeins meira.“

Hver er uppáhaldsljósmyndarinn?

„Þetta er auðveldasta spurning sem ég hef fengið. Aldís Pálsdóttir ljósmyndari. Snillingur og vinkona mín. Hún er þvílíkur fagmaður; með fallegt auga fyrir smátriðum, nær alltaf því besta fram í fólki og er svo ofan á allt með svo æðislega nærveru að það líður öllum vel í kringum hana.“

Hver er skemmtilegasta veisla sem þú hefur haldið?

„Gamlárskvöld á hverju ári er skemmtilegasta partí ársins þar sem öll fjölskyldan dansar saman. Frá aldrinum þriggja ára til áttatíu og þriggja.“

Hvað gerir þú til að slaka á?

„Ég slaka alltaf best á heima hjá mér. Ég þarf ekkert sérstakt. Ég elska bara að vera heima. Sérstaklega þegar allir eru heima.“

Hvernig heldurðu þér í formi?

„Ég mætti taka mig á þar en ég er dugleg að fara út að ganga með Coco hundinn minn. Ég er ekki frá því að ég slaki á í þeim göngum líka.“

Hundurinn Coco fékk að taka þátt í fermingunni.
Hundurinn Coco fékk að taka þátt í fermingunni. mbl.is/Aldís Pálsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »