„Ég elska kögur, leður, blúndur og gegnsætt“

Það getur verið gott að eiga góðan yfirhafnað yfir vetrartímann …
Það getur verið gott að eiga góðan yfirhafnað yfir vetrartímann á Íslandi. mbl.is/Kristín Pétursdóttir

Kötlu Ásgeirsdóttur eða DJ Kötlu þekkja margir. Færri vita að hún er með BA-gráðu í trúarbragðafræðum og viðskiptastjóri Miðeindar þótt merkilegasta hlutverk hennar sé án efa að vera mamma Flóka.

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Ég keypti mér íbúð í sumar sem ég hef verið að dunda við að koma í stand meðfram öðrum verkefnum. Það gengur ágætlega. Ég málaði baðherbergið túrkísblátt á meðan sundlaugarnar voru lokaðar, svona til að díla við fráhvörfin. Svo er ég búin að koma upp ágætisaðstöðu fyrir plötur og spilara. Næst á dagskrá er að komast í bólusetningu svo ég geti farið til Svíþjóðar að pakka saman búslóðinni minni. Það er heldur fátæklegt í húsgagnadeild heimilisins um þessar mundir.

Vinnuvikan fer í að breiða út boðskap íslenskrar máltækni. Við erum með gríðarlega spennandi vörur í þróun hjá fyrirtækinu sem ég vinn fyrir. Meðal annars nýja íslenska radd-appið hana Emblu, vélþýðingarverkefni milli íslensku og annarra tungumála og málrýnitól sem getur leiðbeint um bæði stafsetningu og málfræði.

Annað sem hefur tekið tíma frá mér undanfarið er Pokémon Go. Við mæðginin vorum að opna aftur gamla aðganginn okkar þannig að ég hef verið að veiða grimmt af nýjum Pokémonum sem ekki voru til þegar hann var opinn síðast fyrir þremur árum. Ég er aðallega að gefa þeim nammi og hjúkra þeim þegar strákurinn minn er búinn að jaska þeim út í bardögum. Svo fæ ég mikið hrós hérna heima fyrir Pokémonana sem ég veiði á skrifstofunni, það eru víst mjög merkilegir Pokémonar úti á Granda.

Annars bíð ég bara spennt eftir lengri afgreiðslutíma skemmtistaða svo ég geti farið að spila eitthvað af viti aftur.“

Katla er mikið fyrir blúndur og gegnsætt.
Katla er mikið fyrir blúndur og gegnsætt. mbl.is/Kristín Pétursdóttir

Hvernig lýsir þú fatastílnum þínum?

„Ég elska kögur, leður, blúndur, gegnsætt, bómull, silki og góða ull. Ég er voða mikið í gallabuxum og lopapeysum yfir vetrartímann. Mér finnst pínu erfitt að orða stílinn minn en þegar ég var lítil langaði mig að verða kúreki og það eimir líklega aðeins eftir af þeirri hugmynd. Ég elska enn þá kögur og snjáðar gallabuxur. Það eru samt margar týpur að brjótast um í mér. Ég reyni að gefa þeim öllum færi á að tjá sig. Ég held mig ekki endilega við eina stefnu eða tímabil en pikka út það sem ég fíla úr hverju og einu. Pínu eins og með tónlistina. Ég elska sem dæmi 70's- og 80's-íþróttaföt og Thriller-jakkann minn en er ekki jafnheit fyrir sumu öðru frá þessum tímabilum. Ég er líka mjög veik fyrir jakkafötum og nettu bindi við en svo finnst mér ég líka sæt í kjól og pinnahælum. Það fer eiginlega mest eftir því í hvaða skapi ég er og hvernig veðrið er úti hvernig ég kýs að klæða mig.“

Hvað er tíska í þínum huga?

„Einhvern tímann las ég að tíska væri leið fyrir fólk til að kynna sig án þess að þurfa að gera það með orðum. Mér finnst það frábærlega vel orðuð hugmynd um hvað tíska er. Þú getur einhvern veginn borið karakter þinn og jafnvel hugarástand á borð með því að tjá þig í gegnum klæðaburð.“

Hvað með tónlist?

„Tónlist og tíska eru listform sem eiga margt sameiginlegt. Í báðum má finna strauma og stefnur sem eru breytileg eftir tímabilum, menningarheimum og á milli stétta og aldurshópa. Fyrir mér er tónlist mjög mikill orkugjafi. Ég reyni að byrja daginn á lagi sem kemur mér í stuð og fær mig til að brosa; þá verður hann góður.“

Hver er uppáhaldsflíkin þín í fataskápunum?

„Ætli uppáhaldsflíkin mín um þessar mundir sé ekki sloppurinn sem ég gaf sjálfri mér í afmælisgjöf. Ég fíla mig eins og drottningu í honum og núna finnst mér bara fullkomlega eðlilegt að setjast niður við snyrtiborð og bursta hárið fyrir svefninn. Það er flauelsbekkur á honum með gylltum útsaumi í, svo eru gylltir þræðir í efninu öllu. Þetta er afskaplega „regal“ flík.“

Hvað getur þú sagt mér um hrifningu þína á sólgleraugum?

„Þegar ég var barn fannst mér allt fólk mjög töff með sólgleraugu en ég hafði einhvern veginn bitið í mig að ég væri sjálf mjög asnaleg með þau. Ég var örugglega með vott af þráhyggju gagnvart þessu á tímabili, alveg súpergröm, fimm ára, yfir því að geta ekki gengið með sólgleraugu. Svo byrjaði ég fyrir tilviljun að vinna í gleraugnabúð og kynntist alls konar gleraugnaumgjörðum náið í því starfi. Í dag er það bara staðreynd í mínum huga að rétt gleraugnaumgjörð er einn fallegasti fylgihlutur sem hægt er að eignast. Ég tala nú ekki um þegar búið er að skella sólglerjum í hana. Ég kaupi mjög mikið af sólgleraugum, oftast í ódýrari kantinum en inn á milli splæsi ég í eitthvað aðeins vandaðra.“

Er eitthvað sem þig dreymir um að kaupa sem tilheyrir vortískunni? „Ég væri alveg til í brún Tavis-sólgleraugu frá Jimmy Choo eða eitthvað annað djúsí og dýrt. Annars er mun líklegra að ég panti mér loksins rauða Adidas-sundbolinn sem mig hefur langað í lengi.“

Ég sé að þú ert mikið fyrir fallegar yfirhafnir, hvað geturðu sagt mér um það?

„Ég elska yfirhafnir. Megnið af þeim hef ég fengið á mörkuðum hingað og þangað um heiminn. Yfirhafnir eru svo auðveldar. Þær þurfa ekki að passa 100% og maður þarf ekki að fara inn í mátunarklefa til að skella sér í þær og spegla sig. Það er fátt verra en að vera sveittur og þreyttur að troða sér í eitthvað inni í þröngum mátunarklefa. Ég á fleiri yfirhafnir en buxur og boli til samans.“

Katla þeytir skífur á skemmtistöðum þegar færi gefst til.
Katla þeytir skífur á skemmtistöðum þegar færi gefst til. mbl.is/Kristín Pétursdóttir

Hvort ertu meiri kjóla- eða buxnakona?

„Ég er alltaf í buxum. Íslenskt veðurfar er ekki beinlínis kjólavænt, buxurnar hins vegar fjúka ekki upp um þig.“

Ertu sammála því að við tjáum okkur með klæðaburði?

„Auðvitað, við tjáum okkur á svo marga mismunandi vegu. Fatnaður er einn tjáningarmáti og þess vegna finnst mér sem dæmi mikilvægt að leyfa börnum að leika sér með hann. Þetta er svo góð og einföld leið til að styrkja sjálfsmyndina.“

Ef þú ættir alla peninga í veröldinni, hvað myndirðu kaupa þér í fataskápinn?

„Ég myndi láta sérsníða á mig skóna sem ég er alltaf að leita að en hef aldrei fundið og jakkaföt. Ég væri mjög til í að eiga sérsaumuð jakkaföt.“

Áttu þér tískufyrirmyndir sjálf?

„Já, ég held að fyrsta tískufyrirmyndin mín hafi verið Dirty Harry.“

Glæsileg í bleikri yfirhöfn sem hún keypti í verslun sem …
Glæsileg í bleikri yfirhöfn sem hún keypti í verslun sem selur vandaðan tímabilsfatnað. mbl.is/Kristín Pétursdóttir
Fatastíll Kötlu er allskonar. Hún er mikið fyrir dragtir og …
Fatastíll Kötlu er allskonar. Hún er mikið fyrir dragtir og bindi líka. mbl.is/Kristín Pétursdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál