Borðaði 14-16 brauðsneiðar á dag

Hjálmar Örn ætlar að missa 10 kíló.
Hjálmar Örn ætlar að missa 10 kíló. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannesson ætlar að missa 10 kíló fyrir 4. júní næstkomandi. Hjálmar fór í læknisskoðun nýlega og niðurstaðan var blaut tuska í andlit en kannski ekki svo óvænt að sögn Hjálmars. „Ég fékk nokkuð skýrar ábendingar um að það væri æskilegt að ég myndi léttast,“ segir Hjálmar í fréttatilkynningu. 

Hjálmar hóf því lífsstílsbreytingu fyrir tæpum mánuði sem miðar að því að koma hans líkamlega ástandi í betra horf. „Mér hættir til að kalla þetta átak en fæ alltaf skammir ef ég segi það. Þetta verður víst að vera lífsstílsbreyting til frambúðar. Ég hef tekið til í mataræðinu, borða minna og reyni að borða hollari mat. Ég legg samt áherslu á að ég má alveg borða það sem mér finnst gott en kannski ekki alltaf. Það er ekki alltaf laugardagskvöld.“

Sem dæmi má nefna að Hjálmar segist hafa borðað 14-16 brauðsneiðar daglega en hefur nú náð því hressilega niður. „Þetta er alveg smá erfitt en ég legg líka áherslu á að fá ekki samviskubit þótt ég borði eitthvað sem kannski er ekki hollasti maturinn,“ segir Hjálmar.

„Svo er ég með góða aðila sem standa á bak við mig og ekki verra að vinur minn Emil Þór er að útskrifast sem einkaþjálfari og má gera ráð fyrir að fá doktorsnafnbót ef honum tekst að breyta mynstri mínu til frambúðar,“ segir Hjálmar.

Þótt þyngdartap sé ekki markmið sem slíkt stefnir Hjálmar samt á að vera búinn að missa 10 kg fyrir 4. júní. „Ég er á ágætu róli og er ekki frá því að ég sjái glitta í sixpack. Rúrik Gísla má því alveg fara að passa sig,“ segir Hjálmar.

Hægt er að fylgjast með Hjálmari á Hjalmarorn110 á Instagram og Snapchat.

Hjálmar Örn.
Hjálmar Örn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is