Mexíkó valin Miss Universe og Manuela pirruð

Andrea Meza frá Mexíkó var Miss universe.
Andrea Meza frá Mexíkó var Miss universe. AFP

Miss Universe var valin við hátíðlega athöfn í Flórída í Bandaríkjunum á sunnudag. Elísabet Hulda Snorradóttir fór út fyrir Íslands hönd. Það var hins vegar hin 26 ára gamla Andrea Meza frá Mexíkó sem fór með kórónuna heim. 

Auk Meza urðu stúlkur frá Brasilíu og Perú í þremur efstu sætunum. Athafnakonan Manuela Ósk Harðardóttir fór til Bandaríkjanna en hún skipuleggur undankeppnina á Íslandi. Hún tjáði sig um úrslitin á samfélagsmiðlinum Instagram. Manuela viðurkenndi að hafa ekki átt von á því að Mexíkó myndi vinna. Hún hafði frekar trú á Perú. Sagðist Manuela vera svolítið pirruð. 

Manuela sagði allar stúlkurnar í keppninni gullfallegar en margt fleira spilaði inn í en útlitið. Hvernig þær kæmu fyrir og tjáðu sig skipti líka máli. Henni fannst stúlkan frá Mexíkó ekki standa sig jafnvel og til dæmis þær frá Perú og Brasilíu. 

Elísabet Hulda Snorradóttir keppti fyrir hönd Íslands.
Elísabet Hulda Snorradóttir keppti fyrir hönd Íslands. Ljósmynd/Arnór Trausti
Miss Universe Mexíkó Andrea Meza, Miss Universe 2019 Zozibini Tunzi …
Miss Universe Mexíkó Andrea Meza, Miss Universe 2019 Zozibini Tunzi og Miss Universe Brasilía Julia Gama bíða eftir úrslitunum. AFP

Það var reyndar keppandinn frá Mjanmar, Thuzar Wint Lwin, sem stal senunni. Hún komst í topp 21. Hún nýtti tækifærið í keppninni til þess að vekja athygli á ástandinu í heimalandi sínu. „Fólkið okkar er að deyja og er skotið af hernum á hverjum degi,“ sagði fegurðardrottningin. 

Thuzar Wint Lwin frá Mjanmar var pólitísk.
Thuzar Wint Lwin frá Mjanmar var pólitísk. AFP
mbl.is