Er hægt að losna við hár úr andliti?

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá lesanda sem spáir í óæskileg hár í andliti. 

Sæl Jenna. 

Hvernig er hægt að losna við óæskileg hár á andliti?

Kveðja, KH

Sæll lesandi. 

Þetta er verulega góð spurning og brennur á mörgum sem leita til húðlækna. Ástæður fyrir óeðlilegum hárvexti í andliti kvenna geta verið fjölmargar og að hluta til er það arfbundið hversu þéttur hárvöxtur kemur til með að vera. Allt lífið eru svo breytingar á líkama okkar sem hafa áhrif á hárvöxtinn og eykst hann gjarnan með aldrinum. Við kynþroska eykst framleiðslan á andrógeni sem er karlhormón sem hefur mikil áhrif á hárvöxt en við eðlilegar aðstæður er magn þess verulega lítið hjá kvenfólki og hefur því yfirleitt engin veruleg áhrif nema það sé undirliggjandi hormónaójafnvægi í líkamanum.

Algengasti sjúkdómurinn sem veldur hormónaójafnvægi hjá konum er fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (PCO) en þá er einmitt óeðlilega mikið af andrógeni í líkamanum sem veldur auknum hárvexti, mjög oft einmitt í andliti.

Annað lífsskeið sem getur haft töluverð áhrif á hárvöxt hjá konum er þegar breytingaskeiðið fer að nálgast en þá breytist hlutfall estrógens og andrógens sem getur haft í för með sér frekari hárvöxt. Þá er það hárvöxturinn í andlitinu sem veldur hvað mestum óþægindum. Þegar þú leitar til húðlæknis eða þíns heimilislæknis er byrjað á því að greina vandann og finna út hvort það sé einhver undirliggjandi sjúkdómur sem gæti ýtt undir hárvöxtinn í andlitinu, eins og PCO eða ýmis lyf sem geta aukið framleiðsluna á andrógeni og fleira. 

Meðferðarmöguleikar eru ýmsir.

1. Ef um aukinn hárvöxt af völdum aukinnar framleiðslu andrógens er að ræða eru til lyf sem hafa hjálpað. Notaðar eru getnaðarvarnartöflur, til dæmis Yasmin, sem koma á hormónajafnvægi í líkamanum og minnka andrógenáhrifin. Ef getnaðarvarnarpillan þolist illa er hægt að nota lága skammta af lyfi sem heitir spironolacton sem hindrar einnig framleiðslu á andrógeni í líkamanum.

2. Langbesta og áhrifaríkasta meðferðin gegn óæskilegum hárvexti er leysimeðferð. Örugg meðferð þar sem ekki verður rof á ytra lagi húðarinnar og því lítil sem engin hætta á örum eða varanlegum skaða í húðinni. Því miður er einungis hægt að nota þessa meðferð ef það er litarefni í hárunum, það er að segja virkar ekki á ljós hár. Ástæðan er sú að það þarf að vera litarefni í hárleggnum og hársekknum til að orka leysigeislans nái alveg þar niður til að valda skemmdum. Við þetta skemmist hársekkurinn varanlega og þannig minnkar hárvöxturinn. Þessa meðferð þarf að endurtaka nokkrum sinnum þar sem ávallt eru einhver hár í hvíldarfasa þegar meðferðin er framkvæmd. Mikilvægt er að hafa í huga að meðferðin sjálf er ekki varanleg, þ.e.a.s. það verður varanleg eyðing á hársekkjunum sem meðhöndlast hverju sinni en það eru alltaf einhverjir hársekkir sem liggja í hvíldarfasa og geta komið nokkrum mánuðum eða árum seinna. Gæti þurft að viðhalda því árangrinum með 1-2 skiptum á ári eða á nokkurra ára fresti. Á þetta sérstaklega við hjá þeim einstaklingum sem eru með undirliggjandi hormónaójafnvægi.

3. Einnig er hægt að meðhöndla óæskilegan hárvöxt í andliti með kremi sem heitir Vaniqa, sérstaklega ef mikið af ljósum hárum sem svara ekki leysimeðferð. Það inniheldur efni sem kallast eflornithine hydroclorid sem hefur áhrif á tiltekið ensím í líkamanum sem tekur þátt í framleiðslu hárleggs í hárslíðrinu. Kremið er borið á tvisvar á dag og árangur kemur fram eftir 6-8 vikur. Kremið þarf að nota stöðugt og hverfur virknin á 6-8 vikum ef notkun þess er hætt. Vaniqa er lyfseðilsskylt.

3. Gömul aðferð til að eyða hárvexti er að nota rafmagn. Þessi aðferð er mikið til hætt með tilkomu leysitæknarinnar. Mæli ekki með þar sem aðferðin er sársaukafull, getur valdið örum og varanlegum skemmdum í húðinni.

Vona að þetta hafi svarað spurningu þinni.

Kær kveðja,

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál