Ekki pláss fyrir marga loðna jakka í litla húsinu

Berglind Festival Pétursdóttir er að selja af sér spjarirnar ásamt …
Berglind Festival Pétursdóttir er að selja af sér spjarirnar ásamt öðrum gullmolum sem hún hefur sankað að sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjónvarpsstjarnan Berglind Pétursdóttir eða Berglind Festival eins og hún er kölluð er með rýmingarsölu á eigum sínum. Berglind segir nauðsynlegt að taka til reglulega enda er hún ekki með geymslu, auk þess eru framkvæmdir á næsta leiti í húsinu. 

Á síðu Berglindar má meðal annars finna föt, raftæki, skó, bækur og barnavörur. „Það er nú þannig að ég bý í íbúð þar sem er engin geymsla svo það er nauðsynlegt að hreinsa vel til reglulega,“ segir Berglind um rýmingarsölu á eigin eignum. „Svo er þetta svo gamalt hús að það þarf að skipta um glugga og ég er að safna mér fyrir þeim.“

Kjóll frá Hildi Yeoman.
Kjóll frá Hildi Yeoman. Ljósmynd/Berglind Festival

„Þetta eru alls konar föt og dót sem ég hef sankað að mér svona síðustu tíu ár, mjög margt sem ég hef keypt á ferðalögum til dæmis í Úkraínu og Japan. Og hlutir sem ég keypti þegar ég bjó erlendis, bollastell sem ég fékk í Bretlandi þegar ég var ólétt þar í skiptinámi að kafna úr hreiðurgerð,“ segir Berglind. 

„Ég er sjúk í yfirhafnir og flottar kápur og jakka. Mokkajakkinn sem ég leitaði að í hundrað ár og fann loksins er til dæmis strax seldur. Svo er einn pels þarna úr svörtum hárlengingum. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir svona marga loðna jakka í litla húsinu mínu.“

Berglind á marga loðna jakka.
Berglind á marga loðna jakka. Ljósmynd/Berglind Festival

Berglind tekur fram að öll sala fari fram rafrænt vegna kórónuveirufaraldursins. Sjálf er hún í síðasta bólusetningarhópnum svo það er nokkuð í það að hún verði fullbólusett. Hún bjó til síðuna Festivalmarket.online þar sem hægt er að skoða allt sem hún er með á sölu. 

Á flóamarkaði Berglindar er meðal annars að finna hljóðfæri.
Á flóamarkaði Berglindar er meðal annars að finna hljóðfæri. Ljósmynd/Berglind Festival
Skvísustígvél.
Skvísustígvél. Ljósmynd/Berglind Festival
mbl.is