Jill Biden skaut á Melaniu með fatavalinu

Melania Trump árið 2018 og Jill Biden árið 2021. Skilaboðin …
Melania Trump árið 2018 og Jill Biden árið 2021. Skilaboðin eru ólík. AFP

Jill Biden, forsetafrú Bandaríkjanna, vakti mikla athygli fyrir jakka sem hún klæddist í Cornwall í Bretlandi í vikunni. „Love“ eða „ást“ stóð skýrum stöfum á jakka frú Biden og skilaboðin allt önnur en þau sem voru á jakka Melaniu Trump fyrir þremur árum. 

Biden var klædd í doppóttan kjól frá Brandon Maxwell. Svarti jakkinn er hins vegar frá franska merkinu Zadig & Voltaire og var Biden fyrst í jakkanum árið 2019. Nú var hún hins vegar búin að láta koma fyrir orðinu „ást“ á jakkann að því fram kemur á vef Vogue. „Við komum með ást frá Bandaríkjunum,“ sagði Biden í jakkanum degi fyrir fund sjö helstu iðnríkja heims. Hún vonaðist til þess að efla von um sameiningu í heiminum eftir faraldurinn. 

Þrátt fyrir að skilaboðin væru góð var ekki hægt að horfa fram hjá jakka Melaniu Trump. Jakki úr Zöru sem frú Trump klæddist í júní 2018 vakti heimsathygli en á bakhlið jakkans var áletrunin „I really don´t care, do u?“ eða: „Mér er al­veg sama, hvað með þig?“ Skilaboðin þóttu afar ósmekkleg, sérstaklega í ljósi þess að frú Trump klæddist jakkanum þegar hún steig upp í flugvél til þess að heimsækja búðir fyrir börn ólöglegra innflytjenda í Texas við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. 

Jill Biden.
Jill Biden. AFP
Love eða ást stóð skýrum stöfum á jakka Jill Biden.
Love eða ást stóð skýrum stöfum á jakka Jill Biden. AFP
mbl.is