Varð eins og rúsína af öllum brúnkukremum

Rakel Ársælsdóttir ákvað að búa til sitt eigið brúnkukem svo …
Rakel Ársælsdóttir ákvað að búa til sitt eigið brúnkukem svo hún yrði ekki eins og rúsína.

Rakel Ársælsdóttir var orðin leið á því að láta brúnkukrem þurrka á sér húðina og svo fannst henni lyktin af flestum brúnkukremum ekki góð. Hún ákvað því að framleiða sitt eigið brúnkukrem og segir að það ilmi af kókós og mýki húðina. 

„Það má segja að ég sé með svokallað brúnkukremsæði á háu stigi. Ég hef prufað nánast allar gerðir af brúnkukremum eða eiginlega allt milli himins og jarðar. Þessi krem virkuðu mjög misjafnlega og skiluðu misgóðum árangri,“ segir Rakel. Hún segir að það sem henni hafi fundist verst við brúnkukremin sem hún prófaði hvað þau þurrkuðu húð hennar mikið.

„Ég var alltaf orðin eins og skorpin rúsína eftir mikla notkun. Einnig er lyktin ekki sú besta þegar kemur að brúnkukremum. Allir sem nota brúnkukrem þekkja þessa lykt. Svo er það liturinn. Þú ferð í búð og kaupir þér brúsa með tilhlökkun að setja hann á þig og verða fallega brún, en oftar en ekki varð ég appelsínugul á litinn eða mjög flekkótt.

Eftir nokkurra ára íhugun og löngun í að gera þetta sjálf ákvað ég fyrir ári að henda mér af stað. Fann frábæran framleiðanda sem var tilbúinn að hlusta á mína brúnkukrems-sorgarsögu. 

Loksins núna ári seinna eftir alls konar prufur fram og til baka, breyta og bæta, er lokaútkoman orðin að veruleika. Brúnkufroða með dásamlegri kókoslykt. Mjög lítil brúnkukremslykt er af froðunni sem gerir það að verkum að þú getur borið hana á þig og farið út úr húsi án þess að þurfa að sturta þig sem fyrst,“ segir Rakel. 

Hvernig er þín brúnkukremsrútína?

„Mér finnst best að fara í sturtu og skrúbba líkamann helst nokkru áður en froðan er borin á. Svo hristi ég brúsann vel og mæli með að nota Afroditu tan-hanskann til að bera froðuna á húðina. 

Best er að byrja neðst á líkamanum, bera froðuna á með hringlaga hreyfingu svo hún dreifist sem jafnast yfir allan líkamann. Ekki er æskilegt að fara í gufu eða heita sturtu eftir áburð. Til að viðhalda brúnkunni mæli ég með að bera reglulega á sig rakakrem eða body lotion, þannig endist liturinn sem lengst. Þar sem við þurfum öll að passa okkur á sólinni mæli ég að sjálfsögðu með því að vera örugg og nota Afroditu tan-brúnkufroðuna mína bæði á kroppinn og einnig hentar hún mjög vel í andlitið.“

Nú er sumarfrí fram undan. Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Ferðasumarið mikla leggst mjög vel í mig. Við fjölskyldan ætlum að ferðast mikið innanlands í sumar, þar eru bústaðarferðir og frí til Eyja á planinu, ásamt því að spila golf um landið í sumar.“

mbl.is