Gott að komast heim eftir ævintýrið í Rotterdam

Lovísa Tómasdóttir hannaði nýja sumarlínu.
Lovísa Tómasdóttir hannaði nýja sumarlínu. Ljósmynd/Anna Margrét

Klæðskerameistarinn Lovísa Tómasdóttir var að hanna nýja og rómantíska sumarlínu. Hún er nýkomin heim frá Rotterdam en hún var búningahönnuður Daða og Gagnamagnsins. Lovísa segir gott að geta snúið sér að nýjum verkefnum en Eurovision-ævintýrið varð óvart að töluvert lengra ævintýri en upphaflega stóð til í byrjun árs 2020. 

„Ég gaf út línuna fyrir rúmlega viku og er að gera hlutina með öðru sniði í þetta skipti.
Ég vil að fötin mín séu persónuleg og geri alltaf fáar flíkur af hverri sort. Núna mun þetta verða ennþá persónulegra þar sem ég sauma hverja flík eftir pöntun. Ég reyni eftir megni að fylgja gildum „slow fashion“ þegar ég gef út línur og með því að hafa þetta með þessum hætti sleppi ég því að byggja upp lager. Ég finn að ég fæ svo ótrúlega mikið út úr því að sauma flík og vita að hún er að fara til einhverrar sérstakrar manneskju. Pöntunarferlið breytist ekkert nema nú reynir á þolinmæði Íslendingsins, en það getur tekið þrjár til fimm virka daga þar til flíkin fer í póst,“ segir Lovísa um nýju línuna.

Línan er rómantísk.
Línan er rómantísk. Ljósmynd/Anna Margrét
Satín er áberandi í sumarlínu Lovísu.
Satín er áberandi í sumarlínu Lovísu. Ljósmynd/Anna Margrét


Rómantískari en oft áður

Vinnuaðstaða Lovísu í Hafnarfirði hafði mikil áhrif á hana. „Ég hef alltaf orðið fyrir miklum áhrifum af mínu nánasta umhverfi. Ég er með verkstæði hjá vinkonu minni, Ásdísi Gunnarsdóttir, í Hafnarfirðinum en hún er með brúðarkjólaverslunina Loforð í sama rými. Við erum með ótrúlega fallegt útsýni yfir smábátahöfnina og það er eiginlega ómögulegt að vera í slæmu skapi í þessu umhverfi. Línan er því mun rómantískari og litirnir mýkri en það sem ég hef áður verið að gera. Á einum satínkjólnum má sjá prent með hundamynstri en það teiknaði ég sjálf og lét prenta á hérna á Íslandi. En eins og alltaf er ég með kósígalla! Þeir eru lausir í sniðinu og alveg ótrúlega þægilegir. Fullkomnir þegar þú vilt vera töff en nennir ekki að hafa of mikið fyrir því. Ég fékk húðflúrlistakonuna hana Írisi Hrefnu til að teikna upp myndir sem ég lét svo prenta á gallana,“ segir Lovísa. 

Það má vera í svörtu á sumrin.
Það má vera í svörtu á sumrin. Ljósmynd/Anna Margrét

„Smekkur manns er alltaf að þróast að breytast og þessi lína er mun stelpulegri og rólegri en það sem ég er vön að klæðast á sumrin. Ég elska það sem ég gerði í þessari línu, hef notað satínkjólana mikið þar sem ég get verið í þeim einum og sér, hent peysu yfir eða jafnvel skyrtu undir. Svo gríp ég vandræðalega oft í kósígallann. Mér þótti mikilvægt að þetta væru allt þægilegar flíkur úr góðum efnum því ég vil að þær séu notaðar. Hver þekkir það ekki að hafa keypt ótrúlega fallega flík en hún er bara ekki nógu þægileg svo hún gleymist inni í skáp.“

Ljósmynd/Anna Margrét

Tilfinningarússíbani en mikill lærdómur

„Eins mikið ævintýri og Eurovision var var gott að komast heim og geta einbeitt sér að sumarlínunni. Þetta var mikill tilfinningarússíbani að vera þarna út en líka mikill lærdómur og magnað að taka þátt í svona stórum viðburði. Þetta er auðvitað búið að vera langt ferli en ég er búin að vera með þeim alveg frá því að þau tóku þátt í fyrra. Svo það er gott að klára þetta með þeim og með eins mikilli velgengni og þeirra. Nú get ég einbeitt mér að öðrum
verkefnum fyrir sviðslistafólk en það hefur legið lengi í dvala. Nú er allt að lifna aftur við og ég er komin með önnur virkilega spennandi verkefni með listamönnum sem þurfa einstakar flíkur til að túlka list sína á sviðinu,“ segir Lovísa.

Ljósmynd/Anna Margrét
Ljósmynd/Anna Margrét
mbl.is