Í líffærahönnun eins og Sigga Heimis

Lou Doillon með tösku eins og hjarta frá Gucci.
Lou Doillon með tösku eins og hjarta frá Gucci. AFP

Franska tónlistar- og leikkonan Lou Doillon vakti athygli á rauða dreglinum í Cannes með veski frá Gucci sem leit út eins og hjarta. Iðnhönnuður­inn Sig­ríður Heim­is­dótt­ir, eða Sigga Heim­is eins og hún er kölluð, byrjaði að vinna með líffæraformið fyrir meira en tíu árum og segir ánægjulegt að sjá stórt tískuhús á borð við Gucci gera slíkt hið sama. 

Sigga vakti athygli á hönnun Gucci á Facebook og segist í viðtali við Smartland bara ánægð með hönnunina. „Þetta er svo ótrúlega líkt og stærðin er nákvæmlega eins en þetta eru greinilega töskur,“ segir Sigga. Hún segist ekkert hafa komið að verkefninu eins og margir héldu. Hún teiknaði ekki fyrsta hjartað svo henni dettur ekki í hug að kalla veski Gucci hönnunarstuld. 

Sigga Heimis.
Sigga Heimis. Ljósmynd/Tinna Stefánsdóttir

„Þetta er bara ferlega skemmtileg tilviljun og bara gaman að þessu,“ segir Sigga, sem lýsir sjálfri sér sem líffærafríki. Hún bendir á að það sé alltaf gott að minna á líffæragjafir og er augljóst að málefnið er henni kært. Talandi um töskuna myndi hún ekki slá hendinni á móti einni líffæratösku frá Gucci. 

Sigga hefur unnið mikið með líffæri. Fyrir meira en tíu árum vann hún fyrsta glerhjartað sitt í Miami á Art Basel. Síðan þá hefur hún leikið sér með hjartað og fékk meðal annars Guðbjörgu í Aurum til að skanna hjartað og búa til hálsmen. Í því tilviki fór allur ágóði til Neistans.

Lou Doillon.
Lou Doillon. AFP
mbl.is