Afstæðiskenning tískunnar

Linda Björg Árnadóttir, hönnuður og eigandi Scintilla.
Linda Björg Árnadóttir, hönnuður og eigandi Scintilla. Ljósmynd/Saga Sig

„Borgir og bæir eru suðupottur þar sem hvers konar framþróun er hröð vegna þess að margir eru komnir saman og hugmyndir þeytast manna á milli eins og borðtenniskúla auk þess sem samkeppni um líf og störf virkar eins og olía á eld,“ seg­ir Linda Björg Árna­dótt­ir, hönnuður og eig­andi Sc­in­tilla, í nýj­um pistli á Smartlandi: 

Tíska er afleiðing borgarmenningar, því þéttara sem sambýli fólks er, því mikilvægari verður tískumenningin. Tíska varð til í borgarsamfélaginu þegar stræti og torg gerðu fólki kleift að sýna sig og sjá aðra á kaffihúsum, í leikhúsunum og á breiðstrætunum. Tíska verður til þegar samkeppni verður til þess að fólk reynir að bæta stöðu sína með öllum mögulegum hætti, þar á meðal með klæðnaði og tísku. Til þess að tískumenning geti þróast þá þurfa að vera áhorfendur.

Einstein kynnti afstæðiskenninguna í upphafi síðustu aldar sem byggir meðal annars á þeirri hugmynd að tíminn líður mishratt eftir því hve hratt hlutir hreyfast. Þannig væri hægt að fara í stutta geimferð á miklum hraða og þegar snúið er til baka til jarðarinnar eru allir samferðamenn þínir löngu látnir vegna þess að tíminn hefur liðið hraðar á jörðinni. Seinna var gerð tilraun til þess að sanna eða afsanna þessa kenningu og voru tvær mjög nákvæmar klukkur sendar á sama tíma með flugi í kringum jörðina en hvor í sína áttina. Niðurstaðan var sú, þegar þær höfðu farið þessa leið og voru lentar, að önnur var aðeins á undan tímanum en hin aðeins á eftir. Sá tími sem það tók fyrir klukkurnar að fara sömu leiðina en hvor úr sinni átt var mismikill.

Á þeim tíma sem fyrsta iðnbyltingin var að ná hæstu hæðum í París þá breyttist tískan með ógnarhraða. Tíska breytist þegar hugmyndir, gildi og tækni breytast og er mælikvarði á hve hratt nýjar hugmyndir þróast í samfélögum. Í texta sem ég las nýlega fór kona ein frá París upp í sveit og dvaldi þar sex mánuði. Þegar hún kom til baka þótti hún svo fornfáleg í klæðaburði að fólk taldi líklegra að hún hefði verið í burtu í 30 ár.

Samkvæmt þessu liðu 30 ár í borginni á sex mánuðum í sveitinni. Það þýðir að í borginni liðu 60 ár á einu ári í sveitinni. Framþróun hugmynda var sem sagt á þessum tíma 60 sinnum hraðari í borg en í sveit.

Tískan virkar því að einhverju leyti sem klukka eða tímamælir. Þegar við sjáum bíómyndir sem eiga að gerast á einhverjum ákveðnum tíma í fortíðinni sýna fyrst og fremst fötin og hárið okkur hvaða tímabil þetta á að vera og við skiljum strax tíðarandann, pólitíkina á viðkomandi tíma og heimsmyndina alla.

En hvernig væri það ef að tíska eða annað breyttist ekkert? Að þegar við skoðuðum myndir af foreldrum okkar ungum og þau væri klædd og greidd nákvæmlega eins og við, og ættu eins bíla? Ég tel að við myndum ekki einu sinni geta skilið tíma.

Ég kynntist einhvern tíma á síðustu öld manni frá Suður-Ameríku. Hann fullyrti að þar hefði tískan ekki breyst í áratugi. Hann var frá landi þar sem ekki var lýðræði og lítil sem engin framþróun hugmynda var í samfélaginu. Góð tískumenning er einkenni heilbrigðs og frjáls samfélags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál