40 ár frá brúðkaupi aldarinnar

40 ár eru síðan Díana prinsessa og Karl Bretaprins gengu …
40 ár eru síðan Díana prinsessa og Karl Bretaprins gengu í hjónaband. AFP

Í dag eru 40 ár frá því að Díana prinsessa og Karl Bretaprins gengu í hjónaband í Dómkirkju heilags Páls í Lundúnum. Brúðarkjóll Díönu er án efa eftirminnilegasti brúðarkjóll 20. aldar en sumir vilja meina að þennan örlagaríka dag í lok júlí árið 1981 hafi Díana heillað heimsbyggðina meira en manninn sem hún játaðist.

Það er ekki að ástæðulausu að brúðkaupið var kallað brúkaup aldarinnar á sínum tíma. Prinsinn átti að erfa krúnuna og Díana að verða drottning hans. 750 milljónir manna horfðu á hinn 32 ára gamla Karl kvænast Díönu sinni í sjónvarpi. Kossinn frægi á svölum Buckingham-hallar var á forsíðum blaða um allan heim. Á þessum degi var fátt sem benti til þess harmleiks sem hjónabandið reyndist vera.

Eftirvæntingin var mikil þegar Díana kom með hestvagni að kirkjunni rétt fyrir hádegi á miðvikudegi í fylgd föður síns. „Hvernig er kjóllinn,“ var spurningin sem var á allra vörum. Kjóllinn sem Díana klæddist olli ekki vonbrigðum en ekki var mánuður liðinn síðan hún hélt upp á tvítugsafmæli sitt. Brúðarkjóllinn er nú tímabundið til sýnis í Kensington-höll en synir Díönu og Karls, Harry og Vilhjálmur, eiga kjólinn.

Allra augu voru á Karli og Díönu.
Allra augu voru á Karli og Díönu. AFP

Fyrrverandi hjónin David og Elizabeth Emanuel hönnuðu kjólinn. Kjóll Díönu ber þess merki að hafa verið hannaður snemma á níunda áratug síðustu aldar. Á kjólnum voru stórar og miklar ermar og kjólnum fylgdi tæplega átta metra langt slör. Svo fyrirferðarmikill var kjóllinn að hann krumpaðist í hestvagninum á leiðinni í brúðkaupið.

Slörið sem fylgdi kjól Díönu var tæplega átta metrar.
Slörið sem fylgdi kjól Díönu var tæplega átta metrar. AFP

Elizabeth og David Emanuel rifjuðu upp vinnuna við kjólinn í viðtali við BBC rétt fyrir brúðkaup Katrínar og Vilhjálms árið 2011. Þau voru svo að segja nýútskrifuð þegar Díana hringdi í þau og fól þeim verkefnið. „Þetta var ótrúlegt. Við vonuðumst til þess að fá verkefnið en gerðum ekki ráð fyrir því af því við vorum að keppa við mjög reynda hönnuði.“ Hjónin fengu þrjá mánuði til þess að hanna kjólinn og voru að vinna að honum þangað til kvöldið fyrir brúðkaupið.

Brúðarkjóll Díönu til sýnis í Kensington-höll.
Brúðarkjóll Díönu til sýnis í Kensington-höll. AFP

Brúðkaup þeirra Díönu og Karls var vissulega eitt stærsta brúðkaup 20. aldarinnar. Karl bíður hins vegar enn eftir starfinu sem hann var fæddur til þess að gegna og Karl og Díana skildu að borði og sæng árið 1992 og formlega árið 1996. Segja má að skilnaður þeirra hafi líka verið skilnaður síðustu aldar. Lát Díönu ári seinna var ekki síður hörmulegra, en hún lést í bílslysi í París. Karl gekk í hjónaband með Camillu Parker Bowles árið 2005 og var sú athöfn töluvert látlausari en brúðkaupið fyrir 40 árum.

Níundi áratugur síðustu aldar svífur yfir vötnum.
Níundi áratugur síðustu aldar svífur yfir vötnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál