Guðdómlega klædd í erfiðum aðstæðum

Carrie Bradshaw og Mr. Big eru alltaf smart. Ekki síst …
Carrie Bradshaw og Mr. Big eru alltaf smart. Ekki síst þegar þau takast á um sambandið sitt. mbl.is/Instagram

Áhorfendur Beðmála í borginni (e. Sex and the City) eru löngu orðnir ringlaðir að fylgjast með hvort Carrie Bradshaw, sem Sarah Jessica Parker leikur, og Mr. Big, leikinn af Cris North, eru saman eða sundur. 

Ef marka má Page Six kemur ýmislegt upp á í sambandi þeirra í nýju þáttaröðinni And Just Like That, sem er eins konar framhald af Beðmálum í borginni. 

Í atriði sem tekið var upp í síðustu viku í New York-borg má sjá að Bradshaw lætur ekki segja sér upp í einhverjum ruslfatnaði. Hún er í dásamlegum svörtum háum hælum, skósíðu ljósu pilsi og í topp með opnu baki. Hatturinn setur svo punktinn yfir i-ið; eins konar bleik slaufa sem er síður en svo látlaus. Enda Bradshaw ekki kona sem vill falla inn í umhverfið.

Tískustílistinn Patricia Field hefur klætt Bradshaw í gegnum árin fyrir þættina en er nú upptekin í vinnu við Emily in Paris-þættina. Molly Rogers starfaði sem aðstoðarkona Field og er sú sem sér um stílinn að þessu sinni. Hún þykir fara á kostum í nýju þáttunum þar sem fatnaðurinn hefur sjaldan verið fallegri. 

Það sem er áhugavert við klæðnað kvennanna í nýju þáttaröðinni er að leikendurnir þroskast með árunum og fatastíll þeirra líka. 

Konur eiga greinilega ekki að hætta að klæða sig upp á þótt þær eldist og getur hvert aldursskeið haft sinn sjarma eins og þættirnir virðast sýna. Konur eru svo miklu meira en árið sem þær eru fæddar!

mbl.is