Þrábeðin um að grennast

Alicia Witt veit ekki hversu oft hún var beðin um …
Alicia Witt veit ekki hversu oft hún var beðin um að grennast þegar hún var ung leikkona í Hollywood. Skjáskot/Instagram

Leikkonan Alicia Witt segir Hollywood hafa verið sprengjusvæði á tíunda áratug síðustu aldar. Hún segist hafa verið þrábeðin um að grennast og segir orðræðuna um holdafar kvenna hafa verið mjög eitraða. 

„Það var gert ráð fyrir því, og samþykkt, að það væri talað við konur á ákveðinn hátt. Það þótti ekkert tiltökumál að segja við konu að hún þyrfti að grennast um 5-10 kíló,“ sagði Witt í viðtali við Page Six og bætti við að hún hefði ekki tölu á því hversu oft henni var sagt að grennast. 

„Það hófst þegar ég var unglingur og kom frá fólki sem þóttist vera að gera manni greiða. Frasinn „myndavélarnar bæta fimm kílóum á þig“ var nokkuð sem mæður sögðu við dætur sínar og systur,“ sagði Witt. 

Witt segir athugasemdirnar hafa byrjað þegar hún var unglingur.
Witt segir athugasemdirnar hafa byrjað þegar hún var unglingur. Skjáskot/Instagram

Law & Order: Criminal Intent-stjarnan segist í dag hafa engar áhyggjur af því hversu þung hún er og á ekki baðvog heima hjá sér. 

„Ég veit bara hvað ég er þung þegar ég fer í árlega heilsufarsmælingu og ég gleymi því strax því mér er alveg sama. Ég veit hvenær ég er heilbrigð. Og ég veit að ég get farið yfir strikið einn daginn, ég ætla ekki að áfellast sjálfa mig fyrir það,“ sagði Witt. 

Witt reis fyrst upp á stjörnuhimininn þegar hún fékk hlutverk í kvikmyndinni Dune árið 1984. Hún lék dóttur Cybill Shepherd í kvikmyndinni Cybill og hefur farið með hlutverk í fjölda kvikmynda og þátta síðan þá.

mbl.is