„Það var biðröð þegar við opnuðum“

Oddný Arthursdóttir, Ragnheiður Óskarsdóttir og Margrét Björnsdóttir.
Oddný Arthursdóttir, Ragnheiður Óskarsdóttir og Margrét Björnsdóttir.

Danska tískumerkið Ilse Jacobsen hefur notið vinsælda hérlendis en hingað til hafa verslanirnar verið tvær, ein á Garðatorgi og önnur við Laugaveg. Í gær opnaði Ragnheiður Óskarsdóttir, eigandi Ilse Jacobsen hérlendis, verslun í Kringlunni. 

„Við fengum rosa flottar móttökur og það var biðröð þegar við opnuðum,“ segir Ragnheiður í samtali við Smartland. Hún segir að verslunin í Kringlunni verði nýja Reykjavíkurbúðin en versluninni við Laugaveg hefur verið lokað. 

„Við höfum fylgst með þróuninni á Laugaveginum í þó nokkurn tíma og alltaf verið að skoða aðra möguleika og betri staðsetningu. Við lentum svo á því núna að flytja Laugavegsbúðina í Kringluna í betra og stærra húsnæði þar sem við gætum þjónað okkar viðskiptavinum betur með aðgengi að búðinni. Ilse-merkið er líka sístækkandi og kúnnahópurinn einnig og þetta er þróun sem við þurftum að fylgja betur eftir,“ segir hún. 

Ragnheiður Óskarsdóttir og Kolbrún Birna Halldórsdóttir.
Ragnheiður Óskarsdóttir og Kolbrún Birna Halldórsdóttir.

Hvernig hefur gengið að reka verslanir á tímum kórónuveirunnar? 

„Það hafa vissulega verið sveiflur í kófinu en markaðurinn hefur verið á uppleið, sérstaklega sá innlendi.“

Í nýju versluninni í Kringlunni verður auk Ilse Jacobsen nýtt buxnamerki sem heitir MAC. 

„Svo erum við með annað vinsælt danskt merki í nýju Kringlubúðinni sem heitir Six Ámes. Það er undirmerki Baum Und Pferdgarten og hefur hlotið góðar viðtökur.“

Ragnheiður hefur rekið Ilse Jacobsen-verslunina á Garðatorgi í 16 ár. Hún hefur gott auga fyrir tísku og klæðaburði og segir að hausttískan verði sterk og spennandi.  

„Ilse hefur bætt miklu i línurnar hjá sér og þétt þær, til dæmis með meiri ullarvöru og kósífatnaði. En styrkur merkisins verður samt áfram smart og spennandi útivistarfatnaður og svo flottu gúmmístígvélin.“

Hvernig verður litapalletta haustsins? 

„Litapallettan í haust- og vetrarlínunni 2021 er mest ólífu, karamellubrúnn, beige og rústrautt. Í útivistarfatnaðinum og regnkápunum ríkir auðvitað litagleðin eins og endranær.“

mbl.is