Eliza Reid eins og stjarna í fatnaði frá EYGLO

Guðni Th. Jóhannesson, Eliza Reid, Mary krónprinsessa og Friðrik krónprins …
Guðni Th. Jóhannesson, Eliza Reid, Mary krónprinsessa og Friðrik krónprins í höllinni í Kaupamannahöfn. mbl.is/Det danske kongehus

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú áttu fund í gær með Friðriki krónprins og Mary krónprinsessu í höllinni Amalíuborg í Kaupmannahöfn. Ástæða heimsóknarinnar er „World Pride“-hátíðin en Mary krónprinsessa er verndari hennar. 

World Pride-hátíðin er til þess hugsuð að styrkja stöðu og réttindi hinsegin fólks. Rúmlega 200 stjórnmálamenn frá 53 löndum komu saman til að ræða hagsmunamál, mikilvægi stefnumótunar og velferð málaflokksins. 

Eliza vakti athygli í gær fyrir fatnað sinn úr STAR-línunni frá EYGLO. Fatahönnuðurinn Eygló Margrét Lárusdóttir er vinsæl um þessar mundir enda gerir hún skemmtilegan fatnað sem gott er að klæðast. 

Fatnaðurinn sem forsetafrúin var í er úr sandþvegnu silki og er skyrta og buxur í klæðilegu sniði. Hægt er að nálgast fatnaðinn frá EYGLO í Kiosk þar sem nokkrir íslenskir fatahönnuðir selja línuna sína.

mbl.is