Drottning í kjól af tengdamömmu

Tengdamóðir Letiziu drottningar, Soffía drottning, klæddist sama kjól fyrir 40 …
Tengdamóðir Letiziu drottningar, Soffía drottning, klæddist sama kjól fyrir 40 árum. Skjáskot

Það hefur færst í aukana upp á síðkastið að konungborið fólk endurnýti flíkur sínar og annarra konungsmeðlima. Katrín hertogynja af Cambridge hefur verið manna duglegust að endurnýta flíkur sínar og lætur oft gera minni háttar lagfæringar til þess að flikka upp á þær þannig að þær standist tímans tönn. Þá má geta þess að Beatrice prinsessa gifti sig í gömlum kjól sem áður var í eigu ömmu hennar Elísabetar drottningar.

40 ára blómakjóll

Nú hefur Letizia Spánardrottning ákveðið að láta ekki sitt eftir liggja og endurnýtir nú fjörutíu ára gamlan kjól tengdamóður sinnar, Soffíu drottningu. Soffía drottning klæddist fyrst kjólnum í opinberri heimsókn til Rómar árið 1981 en Letizia klæddist kjólnum við opinbera heimsókn forseta Chile í konunglegu höllina í Madrid. Letizia hefur alltaf þótt með glæsilegustu drottningum heims og mikil tískufyrirmynd. Að þessu sinni valdi hún að bæta silfurlituðu belti við kjólinn sem tónar vel við útsaumuðu blómin.

Orðrómur um stirt samband

Soffía er eiginkona fyrrum Spánarkonungs en hann steig niður árið 2014 og þá tók sonur hans við kóngatitlinum. Mikill orðrómur hefur verið um stirt samband Letiziu við tengdamóður sína eftir að myndband komst í dreifingu sem sýndi þær vera að karpa eftir messu árið 2018. Þá hafði Soffía stillt sér upp fyrir myndatöku með barnabörnunum en Letizia gripið inn í og sett höndina fyrir myndavélina og skammað Soffíu. Letizia er sögð mjög passasöm upp á að ókunnugir séu ekki að taka myndir af börnunum.

Spænsku konungshjónin í konunglegu höllinni í Madrid. Letizia drottning klæðist …
Spænsku konungshjónin í konunglegu höllinni í Madrid. Letizia drottning klæðist gömlum kjól sem áður var í eigu tengdamóður hennar. Letizia bætti við silfurlituðu belti. AFP
mbl.is