Hraunar yfir fegrunaraðgerðir

Jamie Lee Curtis segir útlitsdýrkun vera hættu sem steðjar að …
Jamie Lee Curtis segir útlitsdýrkun vera hættu sem steðjar að yngri kynslóðum. AFP

Leikkonan Jamie Lee Curtis er síður en svo hrifin af fegrunaraðgerðum. Hún segir slíkar aðgerðir fela fegurð margra kynslóða og hafa slæm áhrif á yngri kynslóðirnar. 

„Undanfarin þróun, með fylliefnum og aðgerðum, þessi þráhyggja í filtera, og allt það sem við gerum til að laga útlit okkar á Zoom, þetta allt felur fegurð heillar kynslóðar,“ sagði Curtis í viðtali við Fast Company

Curtis er einnig efins um hvaða langtímaáhrif slíkar aðgerðir geti haft. 

„Þetta er eins og að gefa krakka vélsög. Við vitum bara ekki hver langtímaáhrifin eru, andlega, sálarlega og líkamlega, á heilli kynslóð af fólki sem líður illa út af samfélagsmiðlum af því það er að bera sig saman við aðra. Við sem erum eldri vitum að þetta er allt lygi. Þetta er raunveruleg hætta sem steðjar að ungu fólki,“ sagði Curtis. 

Sjálf passar Curtis vel upp á sína nota samfélagsmiðlanotkun. „Ég nota þá bara til að selja hluti og magna upp hluti sem mér er annt um. Restin er krabbamein. Ég les aldrei athugasemdir,“ sagði Curtis. 

Sjálf hefur Curtis lagst undir hnífinn og látið laga augnlok sín. Það gerði hún eftir að leikstjóri sagði henni að hann gæti ekki tekið upp senu með henni því hún væri með of þrútin augnlok.

„Ég hef verið þrútin um augun síðan ég var barn. Ef þú skoðar gamlar myndir af mér lít ég út fyrir að hafa ekki sofið,“ sagði Curtis í viðtali árið 2019. Þetta var snemma á ferli hennar sem leikkona. Eftir aðgerðina varð hún háð ópíóðaverkjalyfjum. „Ég var lyfjafíkill og alkóhólisti með allt undir stjórn. Ég notaði ekki lyf þegar ég vann. Ég tók ekki lyfin fyrr en eftir fimm síðdegis. Ég tók aldrei verkjalyf klukkan tíu um morguninn. Ég var svona síðdegismanneskja, eins og ég sagði, að komast í hlýtt ópíóðabað.“

Curtis þurfti að fara í aðgerð á augnlokum snemma á …
Curtis þurfti að fara í aðgerð á augnlokum snemma á ferlinum og var háð ópíóðum í kjölfarið. AFP
mbl.is