Vala læðist ekki með veggjum í fatavali

Valgerður Anna Einarsdóttir er stemningskona þegar kemur að fatavali og …
Valgerður Anna Einarsdóttir er stemningskona þegar kemur að fatavali og klæðir sig eftir líðan, veðri og vindum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðskipta- og markaðsfræðingurinn Valgerður Anna Einarsdóttir, sem gjarnan er kölluð Vala, læðist ekki meðfram veggjum þegar kemur að fatavali. Sjálf lýsir hún sér sem stemningsmanneskju sem klæðir sig eftir líðan, veðri og vindum.

Vala er dugleg við að sauma sjálf á sig föt, prjóna og hekla, enda kemur hún af einstaklega handlögnum konum. Vala vinnur við viðskiptaþróun hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Men&Mice.

„Mamma mín er lærður textílkennari, systir mín er prjónahönnuður og amma mín var líka mikil sauma- og prjónakona þannig að ég hef verið í kringum miklar listakonur alla mína tíð. Ég byrjaði kannski aðeins seinna en áhuginn byrjaði fyrir alvöru í textílmennt í 10. bekk þegar ég fjöldaframleiddi sérmerktar hettupeysur fyrir allar vinkonur mínar. Svo í gegnum árin hef ég gert alls konar „one night only“-búninga og flíkur sem rétt hanga saman í nokkra klukkutíma meðan ég er í þeim,“ segir Vala í viðtali við Smartland.

Vala segir helsta kostinn við að skapa sínar eigin flíkur að það á enginn eins. Auk þess finnst henni mikil heilun að demba sér í handavinnu, sitja og sauma, hekla eða prjóna. Hún á það líka til að fá ákveðnar hugmyndir um flíkur, ef hún finnur þær hvergi fær hún þær á heilann og gerir þær sjálf. 

Tinna-peysa sem Vala hannaði og prjónaði sjálf.
Tinna-peysa sem Vala hannaði og prjónaði sjálf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru til mörg dæmi um þetta eins og einu sinni fann ég hvergi hlýralaust appelsínugult kögurbikiní með perlum eða þegar ég var að útskrifast úr menntaskóla, þá þurfti stúdentskjóllinn minn að vera ferskjulitaður með „structured“ hálsmáli og „peplum“-pilsi. Ég var alveg brjáluð að þessar flíkur væru ekki til úti í búð þannig að ég þurfti að tylla mér við saumavélina og gera þetta frá grunni,“ segir Vala. 

Hvernig föt klæða þig best?

„Ég er á því að föt sem þú fílar þig í fari þér best. Eftir vaxtarlagi þá fara uppháar buxur, bolir sem sitja rétt um mittið og aðsniðin föt mér langbest.“

Dressið heklaði Vala þegar hún bjó í Sydney í Ástralíu. …
Dressið heklaði Vala þegar hún bjó í Sydney í Ástralíu. Þar er töluvert eðlilegra að klæða sig í svona dress, en Vala segist ekki standa oft við eldhúsvaskinn í því líkt og á myndinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Ég er mikil stemningskona þannig að ég klæði mig eftir líðan og auðvitað veðri og vindum. Ég er mjög mikið fyrir fallegar yfirhafnir þannig að ég segi gallabuxur, strigaskór og geggjaður jakki dagsdaglega,“ segir Vala sem segist hafa átt erfitt með að svara spurningunni. Hún hafi spurt vini sína og samstarfsfélaga og fengið mörg ólík orð. Stemningskona nær þó nokkuð vel utan um fatastílinn.

Hvernig klæðirðu þig þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Ég get alveg sagt þér það að ég er ekki mikið fyrir að læðast með veggjum í fatavali. Ég vil helst alltaf vera í einhverju algjörlega geggjuðu. Ég er langoftast í buxum og vel þá flottan bol/samfellu við eða kjól og jafnvel þó að ég sé mjög hávaxin dúndra ég mér í himinháa hæla við,“ segir Vala. 

Vala bíður nú eftir því að komast á verðlaunahátíð í …
Vala bíður nú eftir því að komast á verðlaunahátíð í kjólnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fáránleg í laxableiku

Vala vandar valið við fatakaup. Hún var alin upp við það að sofa á hlutunum. „Ef mig langaði í eitthvað þá þurfti ég að sofa á því og ef mig langaði ennþá í það daginn eftir eða viku seinna þá skyldi ég leyfa mér það. Allt sem ég hef keypt hef ég verð algjörlega ástfangin af á þeim tíma en núna þegar ég lít til baka get ég alveg ranghvolft í mér augunum og hugsað hvað ég hafi verið að pæla,“ segir Vala. 

Þá er hún einnig hrifin af því að kaupa notuð föt og náði sér einmitt í gimstein um daginn. „Ég keypti um daginn algjörlega sturlað heimasaumað lífsstykki úr fiskiroði. Hljómar skringilega en er eiginlega ótrúlegt. Svo vil ég meina að ég og Páll Óskar séum sálufélagar af því ég elska allt með glimmeri og pallíettum, ljósgrænt pallíettudress sem er eitthvað sem Jasmín í Alladín gæti átt er mjög ofarlega, bróderaði bomberjakkinn minn sem er hægt að snúa við eða ljósblái gervipelsinn,“ segir Vala. 

Skapta og Skafta peysan var sú fyrsta sem Vala prjónaði.
Skapta og Skafta peysan var sú fyrsta sem Vala prjónaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er eitthvað sem þér finnst flott á öðrum en myndir aldrei fara í sjálf?

„Mjög fyndið að þú skulir spyrja að því en ég var akkúrat að ræða þetta um daginn. Ég held að það séu sumarkjólar, svona víðir, flowy, sætir blómakjólar. Það er alls ekki ég. Ég elska það á öðrum en ég get bara ekki tekið mig alvarlega í svoleiðis dressi. En eins og ég segi: aldrei segja aldrei, kannski verð ég aðalgellan í sumarkjól næsta sumar. Hver veit!“

Vala er ekki mikið merkjafrík og leynist öll flóran í fataskáp hennar. Hún á þó mest af flíkum frá merkinu Vans. Litir eru áberandi í fataskápnum og leggur hún mikið upp úr að velja fleiri föt í lit. „Bláir og grænir tónar eru uppáhalds og svo fara haustlitir mér mjög vel. Eitt er víst; ég er fáránleg í laxableiku!“

Toppurinn og buxurnar voru það fyrsta sem Vala heklaði.
Toppurinn og buxurnar voru það fyrsta sem Vala heklaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Djöfull vantar mig skósíðan tjullkjól“

Sem fyrr segir hefur Vala föndrað margt í gegnum árin. Hún ræðst sjaldnast á garðinn þar sem hann er lægstur. Heklaða dressið var til dæmis það fyrsta sem hún heklaði. 

„Ég lærði semsagt að hekla í fyrra til þess að gera þessar buxur og topp. Ég bjó í Sydney á þeim tíma og þar er „eðlilegra“ að vera í svona múnderingu. Ég er alls ekki í þessu dagsdaglega við eldhúsvaskinn. Ég sá mynd af svipuðu dressi á netinu og ég hugsaði „vá okei, svaka smart, ég get örugglega gert þetta“. Ég talaði við mömmu í símann og sagðist ætla að hekla buxur og topp og mamma spyr hvort ég vilji ekki byrja á einhverju aðeins auðveldara fyrst ég sé nú að hekla í fyrsta skipti,“ segir Vala. 

„Þarna komum við inn á grundvallaratriði í öllu mínu föndri. Ef ég hefði byrjað á einhverju auðveldu þá hefði ég ekki fundið metnaðinn til að klára verkefnið. Lokaútkoman verður að vera eitthvað algjörlega tryllt. Ég hef engan metnað til að hekla fjölnotabómullarskífur. Ég þarf eitthvert ruglað outfit,“ segir Vala. 

Á bak við bláa tjullkjólinn er einnig skemmtileg saga. Þegar Vala flutti heim frá Ástralíu í janúar á þessu ári fór hún að skoða kjóla eftir ítalska fatahönnuðinn Giambattista Valli. Hann er þekktur fyrir að hanna íburðarmikla tjullkjóla. 

„Ég hugsaði með mér: djöfull vantar mig skósíðan tjullkjól í safnið og ég hugsaði líka að ég gæti alveg örugglega saumað hann sjálf. Þannig að ég fór út í búð og keypti mér sirka 40 m af ljósbláu tjulli og hófst handa,“ segir Vala. Eins og svo oft áður renndi hún blint í sjóinn með enga uppskrift né snið á reiðum höndum. „Ég bara dembi mér beint út í djúpu laugina með skærin á lofti og sauma eða prjóna út í bláinn. Í þetta sinn varð til mesti draumaprinsessukjóll sem ég hef á ævi minni séð og bíður nú eftir að ég komist á almennilega verðlaunahátíð svo ég geti verið í honum. Ég var reyndar mjög sniðug þegar ég bjó hann til því hann er tvískiptur svo ég get notað hann sem topp og pils.“

Vala gaf sjálfri sér hring með orðunum Bad Bitch í …
Vala gaf sjálfri sér hring með orðunum Bad Bitch í útskriftargjöf þegar hún lauk meistaranáminu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Prjónar teiknimyndapersónur af miklum móð

Vala, eins og svo margir af hennar kynslóð, ólst upp við Ævintýri Tinna og Ástrík og Steinrík á VHS-spólum. Þá las hún einnig allar Tinnabækurnar sem barn og var Í myrkum mánafjöllum uppáhaldsspólan hennar. Út frá þeim kviknaði hugmyndin að prjónuðum peysum með persónum teiknimyndanna á. 

„Árið 2015 spurði mamma hvort hún ætti ekki að prjóna á mig lopapeysu, ég sagði auðvitað já en ég væri með sérstaka hönnun í huga. Þá var ég búin að fá hugmyndina um lopapeysu sem væri með Skapta framan á og Skafta aftan á og þeir væru fastir saman á hliðunum með handjárnum. Mamma var ekki til í verkefnið og sagði að ég gæti bara gert þetta sjálf þannig að ég þrjóskaðist í gegnum það,“ segir Vala en Skapta og Skafta-peysan var sú fyrsta sem hún prjónaði. 

„Síðan þá hef ég gert Wily E. Coyote og Road Runner, Ástrík og Steinrík og síðast eldflaugina í Tinna. Mér finnst langskemmtilegast þegar framhliðin og bakhliðin eru ekki eins svo þú ráðir hvernig þú snýrð peysunni! Þið getið beðið spennt eftir því hvað fer næst upp á prjónana!“

Vala sótti innblástur í uppáhalds VHS spóluna sína, Í myrkum …
Vala sótti innblástur í uppáhalds VHS spóluna sína, Í myrkum mánafjöllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Helst vildi hún vera með fleiri fingur til að koma …
Helst vildi hún vera með fleiri fingur til að koma fleiri hringjum á sig í einu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Vala hefur sankað að sér miklu skarti í gegnum árin. …
Vala hefur sankað að sér miklu skarti í gegnum árin. Hún er hrifnust af silfri. mbl.is/Eggert Jóhannesson
„Einu sinni varð ég hreinlega eignast rauðan kögurjakka en notaði …
„Einu sinni varð ég hreinlega eignast rauðan kögurjakka en notaði hann aldrei af því mér fannst ég pínu eins og Stórfótur í jakkanum. Ég hafði hreinlega ekki sjálfstraustið til að vera í honum þá þannig þessi jakki hefur verið uppí skáp í þúsund ár, fjarri góðu gamni. En ég mátaði hann núna eftir ég kom heim og fannst hann bara geggjaður, ég mun nota hann helling í vetur enda eins og ullarteppi.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson
Eldskórnir eru frá Dolls Kills. „Þeir voru ekki ókeypis þannig …
Eldskórnir eru frá Dolls Kills. „Þeir voru ekki ókeypis þannig ég husgaði mig aðeins um áður en ég keypti þá og loksins þegar ég ætlaði að ganga frá kaupunum voru þeir uppseldir. Þeir komu blessunarlega aftur og núna á eitt par heima hjá mér.“ Eggert Jóhannesson
Hárkarlar eru uppáhalds dýrið hennar Völu en hringinn fann hún …
Hárkarlar eru uppáhalds dýrið hennar Völu en hringinn fann hún á flóamarkaði á Havaí. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Vala er með þrettán göt í eyrunum og er mikið …
Vala er með þrettán göt í eyrunum og er mikið fyrir fallega eyrnalokka. Systir hennar gaf þessa krossfiska eyrnalokka. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is