Kaupir sér sjaldnast nýjar flíkur

Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir er hrifin af flíkum með groddalegum lógóum.
Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir er hrifin af flíkum með groddalegum lógóum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grafíski hönnuðurinn Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir er hrifin af því að kaupa sér notaðar flíkur og kaupir sjaldnast ný föt, ef undanskilin eru nærföt og sokkar. Hún fellur oftast fyrir áberandi flíkum með miklum karakter, groddaralegum lógóum og litsterkum yfirhöfnum. Margrét opnaði fataskápinn sinn fyrir Smartlandi. 

Veistu nákvæmlega hvernig þú átt að klæða þig?

„Kannski ekki „nákvæmlega“. Ég hef bara mjög gaman af fötum og förðun, þannig að ég fæ oft löngun til að prófa samsetningar og stíla. Það þýðir alls ekki að það hitti alltaf í mark eða virki vel, en ég hef oftast hugmynd um hverju ég vil stefna að og leika mér með. Ef ég er ekki búin að ákveða dress fyrir eitthvað sérstakt, þá finnst mér eiginlega alltaf gaman að finna út úr því.“

Pilsið er frá & other stories og skyrtan frá Filippu …
Pilsið er frá & other stories og skyrtan frá Filippu K. Bæði fékk hún í Hringekjunni. Stígvélin eru frá Max Mara en móðir Margrétar keypti þau fyrir meira en 20 árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig fötum fellur þú oftast fyrir?

„Ég fell oftast fyrir áberandi flíkum með miklum karakter, flíkum með groddaralegum lógóum, vönduðum fötum úr góðu efni, mynstruðum sokkum og litsterkum yfirhöfnum.“

Er einhver sérsakur stíll, væb eða tímabil sem þú ert hrifnust af?

„Þau tímabil sem ég sæki helst innblástur í um þessar mundir eru sjöan, aldamótin/nían og svo bara nútíminn. Mér finnst skemmtilegast að fanga ákveðna stemningu í stökum samsetningum frekar en að það sé ákveðin stemning sem nær yfir allan fataskápinn, þannig að breiddin er ágæt. Ég er eiginlega alltaf í mittisháu hvort sem það eru buxur eða pils, sú silúetta er kannski helsta stefið sem er gegnumgangandi. Ég sæki mikið í frekar áberandi föt og hef líka gaman af því að blanda saman og spila með hið kven- og karllæga.“

Peysan er fyrsta peysan sem amma hennar, Aðalheiður heitin prjónaði. …
Peysan er fyrsta peysan sem amma hennar, Aðalheiður heitin prjónaði. Beltið er frá afa hennar, sem hann bjó það til þegar hann var í barnaskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Kápan er frá 2NDDAY og pilsið frá Zöru. Bæði keypt …
Kápan er frá 2NDDAY og pilsið frá Zöru. Bæði keypt í Hringekjunni. Skyrtan er frá Études og keypt í Kvartýru 39. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig klæðirðu þig dagsdaglega?

„Mittisháar, skálmavíðar buxur og góð peysa eða skyrta eru svona almennu „vinnufötin“ mín.“

Hvernig klæðir þú þig þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Ef það er partísamhengi þá vel ég mér frekar háværar flíkur sem geta notið sín. Sum föt, eins og þröngar lakkaðar pleðurbuxur eða fjólublá buxnadragt, ganga ekki beint upp dagsdagslega og bíða eftir rétta tilefninu. Ef ég væri að fara eitthvað fínt og settlegt myndi ég velja mér fallega skyrtu og vel straujaðar buxur við góða hæla og fíngerða skartgripi.“

Verstu fatakaupin?

„Ég keypti einu sinni á fatamarkaði æðislega flotta kóngabláa, mittisstutta rúllukraga-ullarpeysu sem var peysa drauma minna … þangað til ég byrjaði að nota hana og uppgötvaði pikkfasta súra svitalykt frá fyrri eiganda.“

Buxurnar eru frá Ralph Lauren og keypti Margrét þær á …
Buxurnar eru frá Ralph Lauren og keypti Margrét þær á flóamarkaði Í kanada. Skóna fann hún á fatamarkaðnum á Hlemmi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

En bestu kaupin?

„Svarta 2NDDAY-regnkápan mín sem ég keypti í Hringekjunni. Krassandi flík sem hefur sannað notagildi sitt á fjölmörgum rigningardögum í Reykjavík.“

Hvar kaupirðu helst föt?

„Hringekjan í Þórunnartúni er í miklu uppáhaldi hjá mér. Fólk leigir sér bás þar og selur flíkur, en starfsfólkið sér um að raða upp og fylla á slárnar. Hún er svo vel skipulögð og auðvelt að finna slá hjá einhverjum sem er með svipaðan smekk og ég eða í svipaðri stærð. Annars á ég líka margt úr fatamarkaðnum á Hlemmi og er einnig mjög hrifin af Wasteland og Rauðakrossbúðunum. Ég kaupi frekar sjaldan nýtt, aðallega nærföt og sokka og flíkur sem ég hrífst virkilega af. Það er til svo óheyrilega mikið magn af fötum í þessum heimi og mér finnst gaman að fara á veiðar eftir góðum notuðum flíkum. Oft er hægt að finna ótrúlega vönduð stykki, svo er það er bæði ódýrara og umhverfisvænna.“

„Ég fell oftast fyrir áberandi flíkum með miklum karakter, flíkum …
„Ég fell oftast fyrir áberandi flíkum með miklum karakter, flíkum með groddaralegum logoum, vönduðum fötum úr góðu efni, mynstruðum sokkum og litsterkum yfirhöfnum“ mbl.is/Eggert Jóhannesson
Bolinn og vestið fékk Margrét í Hringekjunni. Buxurnar eru frá …
Bolinn og vestið fékk Margrét í Hringekjunni. Buxurnar eru frá Armedangels og keypti Margrét þær í ORG. Adidas skóna keypti hún einnig í Hringekjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er eitthvað sem þú myndir aldrei fara í?

„Ég hef litla þolinmæði fyrir svona víðum bútasaumsjógafötum.

En almennt finnst mér að það ætti aldrei að segja aldrei um stíla og snið, aldrei að vita hvað kemur aftur í tísku og oft virkar ýmislegt óvænt betur en maður heldur ef það tekst vel að stílisera það. Ég forðast frekar ákveðin efni og lélegan frágang. Akrýl er efni sem ég hef brennt mig oft á og forðast núna. Það hnökrar illa, heldur engum hita á manni og gerir mann bara sveittan.“

Hvað finnst þér flott á öðrum en myndir aldrei fara í sjálf?

„Ég veit ekki af hverju, en mér tekst ekki að láta klassískan svartan blazer ganga upp. Ég fíla blazera á öðrum, en mér finnst ég vera í einhverjum konubúningi þegar ég smelli svörtum blazer á mig.“

Magrét heillast að góðum efnum og góðum frágang á flíkum.
Magrét heillast að góðum efnum og góðum frágang á flíkum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppáhaldsmerki?

„Nanushka er í uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Sniðin, áferðirnar, stíllinn og litirnir mynda svo ótrúlega ferska heild.“

Uppáhaldslitir?

„Kóngablár, rauður og drappaður.“

Hvernig föt eru á óskalistanum þínum?

„Sérsaumaður fullkomlega sniðinn samfestingur eða sett með víðum skálmum og rúllukraga í einhverjum sterkum lit. Kóngablá og risastór dúnkápa myndi líka skora hátt, en ég er í yfirhafnastraffi á heimilinu, það er ekkert pláss eftir í fatahenginu.“

Hálsmenið og eyrnalokkarnir eru handgerðir af Júlíu Tómasdóttur.
Hálsmenið og eyrnalokkarnir eru handgerðir af Júlíu Tómasdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál