„Ég er svoddan frík“

Sædís Ýr Jónasdóttir hannar og saumar föt undir merkinu By …
Sædís Ýr Jónasdóttir hannar og saumar föt undir merkinu By Sædís Ýr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sædís Ýr Jónasdóttir er ungur fatahönnuður sem útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands á síðasta ári. Flíkur hennar hafa vakið athygli í sumar en strákarnir í raunveruleikaþáttunum Æði hafa klæðst þeim, einnig hljómsveitin Reykjavíkurdætur og fjöldi íslenskra áhrifavalda.

Frá útskrift hefur Sædís verið að hanna og sauma föt eftir pöntunum fyrir sérstök tilefni en ákvað í sumar að hanna logo og panta inn merkingar. „Ég held að merkið sjálft hafi orðið til þegar ég ákvað að gera drop sem var 09.09.21,“ segir Sædís í viðtali við Smartland.
Flíkur Sædísar eru litríkar og skemmtilegar og leggur hún mikið upp úr lífsgleði og glamúr í hönnun sinni.

„Ég fæ hugmyndir að sniðum, litum og munstrum daglega frá umhverfinu allt í kringum í mig. Hugmyndirnar mínar eru alla jafna mjög djarfar og þarf því iðulega að kúpla mig niður því það eru eflaust fáir eins og ég; ég er svoddan frík. Ég elska fátt meira en að sjá fötin mín lifna við á fólki, það fyllir hjarta mitt af stolti og hamingju,“ segir Sædís.
Sædís lærði fatahönnun í LHÍ og mælir eindregið með skólanum. „Ég sakna skólans mikið enda gaf hann mér svo margt,“ segir Sædís.

Flíkur Sædísar eru algjörlega úr hennar hugarheimi. „Þar sem þetta er gert af mér hef ég fulla stjórn á framleiðslunni, ég geri flíkur í öllum stærðum en þar sem þetta er handsaumað af mér einni eins og er hef ég aðeins takmarkað magn, sem er jú kostur og galli,“ segir Sædís sem stefnir á að gefa út fleiri drop.

Í stúdíóinu hennar Sædísar.
Í stúdíóinu hennar Sædísar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einstök heiti á sniðum

Nöfnin á sniðunum hennar Sædísar vekja án efa athygli en þau eru eru Tussa, Mella og Kuntubjúga. Miklar pælingar eru á bak við nöfnin en hún ákvað að gefa sniðunum þessi nöfn eftir að mágur hennar stakk upp á því.

„Ég hugsaði mikið um hvað ég ætti að skíra sniðin mín og fór í nokkur heilaheljarstökk fram og til baka. Mágur minn stakk svo upp á því að taka niðrandi orð sem notuð eru um fólk, til baka. Þessi orð eru svo oft notuð til þess að brjóta okkur niður og það er svo brenglað hvað þessi orð geta farið fyrir brjóstið á manni. Í þetta skiptið tók ég til orð sem ég hef verið kölluð, hef tekið inn á mig og er að skila þeim til baka, fyrir mig og aðra í kringum mig, fyrir þig og mig. Við erum sterkari en við höldum,“ segir Sædís.

Sædís tekur að sér verkefni fyrir viðburði og uppákomur og …
Sædís tekur að sér verkefni fyrir viðburði og uppákomur og elskar að gera showpiece. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Til að nefna dæmi var ég niðri í miðbæ um helgina og þegar mér var hrósað fyrir bolinn sagði ég með stolti að ég væri í Tussu. Ég var einmitt kölluð tussa í sumar á niðrandi hátt sem særði mig mjög en núna í dag hef ég áttað mig á því að það hafði ekkert með mig að gera og hef ég skilað því frá mér – í formi flíka,“ segir Sædís.

Sædís í Tussu.
Sædís í Tussu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lifir í núinu

Flíkur Sædísar koma allar í takmörkuðu upplagi. Ástæðan er bæði sú að hún er ein að sauma og einnig meðvituð ákvörðun. „Mér finnst svo gaman að hafa allt í frekar takmörkuðu upplagi þar sem við erum svo lítið samfélag og það er svo auðvelt að vera eins og allir aðrir,“ segir Sædís sem saumar aðeins nokkur eintök af flík í sama sniði og lit.

„Ég tek líka að mér verkefni fyrir viðburði og uppákomur. Þá vinn ég oftast í samráði við listamenn eða stílista fyrir tónleika, myndatökur eða viðburði. Það eru mjög gefandi verkefni og elska ég að geta gert stóra kjóla eða „showpiece“-flíkur þegar tilefni er til. Ég finn mig oft svo knúna til að sauma risakjóla fyrir ekkert tilefni sem hanga svo bara uppi í stúdíói,“ segir Sædís.

Þegar Sædís er spurð um framtíðina segir hún að sér finnist best að lifa í núinu og sjá hvernig hlutirnir þróast. „Eins og er stefni ég að því að halda áfram að gera lítil verkefni og vonandi heldur það áfram að skila sér eins og það gerði í því fyrsta. Auðvitað getur maður látið sig dreyma um áframhaldið en mér finnst alltaf best að stefna bara á það sem ég ætla að gera næst og tækla það,“ segir Sædís.

Sædís hannar og saumar allt sjálf.
Sædís hannar og saumar allt sjálf. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is