Aðsniðin föt þau klæðilegustu

Dusica hefur mikinn áhuga á fatatísku og förðun.
Dusica hefur mikinn áhuga á fatatísku og förðun. Ljósmynd/Aðsend

Dusica Aldís Glusica er 27 ára bókari og starfar hjá þjónustufyrirtækinu Debet sem sérhæfir sig í reikningsskilum og endurskoðun. Það er þó ekki eina starf Dusicu því hún starfar einnig sem sölufulltrúi í snyrtivörudeild Hagkaupa. Það gerir hún einungis til að sinna sínum helstu áhugamálum, sem eru einmitt förðun, tíska og snyrtivörur.

Dusica er fædd í Serbíu en flutti til Íslands þegar hún var fimm ára ásamt fjölskyldu sinni. Fjölskyldan settist að á Seltjarnarnesi og ólust Dusica og bróðir hennar upp þar. 

„Ég flutti hingað með mömmu minni árið 1999, stuttu eftir Nató árásina á Serbíu. Pabbi var þá kominn til Íslands og hafði verið hér um nokkurt skeið vegna skorts á atvinnu í heimalandinu okkar. Bróðir minn er fæddur og uppalinn hér á Íslandi. Okkur hefur alltaf liðið vel á Íslandi, hér eigum við einfaldlega bara heima,“ segir Dusica þegar hún er spurð um uppruna sinn.

Það fer ekki fram hjá neinum að Dusica er mikil smekkkona. Instagram reikningur hennar er fullur af glæsilegum myndum af henni og augljóst að innihald fataskáps hennar spanni alla flóru fjölbreytileikans. Dusica leggur mikið upp úr því að vera vel til höfð og hefur gaman að því að hafa sig til.

Dusica er fædd í Serbíu og er dugleg að ferðast.
Dusica er fædd í Serbíu og er dugleg að ferðast. Ljósmynd/Aðsend

Veist þú nákvæmlega hvernig þú átt  klæða þig? 

„Já, svona næstum því. Ég hef fundið minn stíl og aðhyllist einna helst góðar gallabuxur, fallega toppa og skemmtilega jakka við.“

Hvernig föt klæða þig best?  

„Mér finnst aðsniðin föt fara mér best. Fatnaður sem hentar mér og mínum líkamslínum eru klæðileg og fara mér oftast vel.“

Toppur og gallabuxur er það sem Dusica aðhyllist með og …
Toppur og gallabuxur er það sem Dusica aðhyllist með og á nóg til af í fataskápnum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir hverju fellur þú oftast? 

„Ég fell alltaf fyrir fallegum skartgripum. Í skartgripabúðum er ég eins og lítill krakki í Toys ‘R’ us.“

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega? 

„Það er mjög misjafnt. Ég er mikið í leðurbuxum, þær ganga yfirleitt við allt. Við leðurbuxurnar er ég oftast í einhverjum fínum bol og toppa svo heildina með því að vera í jakka eða pels utan yfir. Ég elska að hafa mig til, hvort sem það er þegar ég er að fara eitthvað fínt eða bara hversdagslega. Mér finnst ég ekki vera með sjálfri mér nema að vera vel til höfð.“ 

Leðurbuxur og fallegur toppur er dress sem Dusica klæðist hvar …
Leðurbuxur og fallegur toppur er dress sem Dusica klæðist hvar og hvenær sem er. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig klæðir þú þig í vinnunni? 

„Í vinnunni klæði ég mig snyrtilega og finnst nauðsynlegt  vera í háum hælum við klæðnaðinn. Háir hælar finnst mér undirstrika fínleika og ég hræðist það ekkert að ganga um í hælum á venjulegum dögum. Enda vita það allir sem þekkja mig að ég hef gengið í háum hælum frá því ég man eftir mér.“

Áttu þér einhvern uppáhalds lit? 

„Ég hrífst alltaf svolítið af haustlitum. Mér finnst þeir passa við öll tilefni og mér finnst þeir einfaldlega fara mér best.“ 

Ertu mikið með skartgripi og hvernig notarðu þá mest?

„Ég er alltaf með einhverja skartgripi á mér. Geng um með skart á mér daglega. Skartgripir gefa ákveðinn ljóma og það líkar mér við.“

Aðsniðnir kjólar sem falla beint að kvenlegum línum verða oftast …
Aðsniðnir kjólar sem falla beint að kvenlegum línum verða oftast fyrir valinu þegar Dusica fer eitthvað fínt. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig klæðir þú þig þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Þegar ég er að fara eitthvað svona spari þá verður oftast einhver kjóll fyrir valinu hjá mér. En kjólinn verður að undirstrika mittið vel og aðlagast kvenlegum línum mínum. Þetta eru þau skilyrði sem ég set því mér finnst aðsniðinn fatnaður vera eitt af aðalatriðunum fyrir mig.“

Hver eru þín bestu fatakaup?

„Þessa dagana er ég ánægðust með nýju Versace stígvélin mín. Annars er ég oft að gera góð fatakaup.“

En verstu fatakaupin?

„Ég man ekki eftir neinum hræðilegum fatakaupum í augnablikinu. Nema þá kannski einum rússkins hælaskóm frá Billi Bi sem ég fékk eitt sinn í gjöf. Þeir voru mjög fallegir en einhverra hluta vegna skemmdust þeir strax. Ég náði varla að nota þá. Svo reyndi ég að skila þeim en það bar engan árangur, svo ekki hafa gæðin verið góð.“

Nýju Versace stígvélin eru í uppáhaldi hjá Dusicu.
Nýju Versace stígvélin eru í uppáhaldi hjá Dusicu. Ljósmynd/Aðsend

Eru einhver tískuslys í fataskápnum þínum?

„Nei, ég er nokkuð sátt við það sem hægt er að finna í fataskápnum mínum núna. Ég losa mig við það sem ég hef ekki lyst á að nota hverju sinni.“

Hvað er helst að finna í fataskápunum þínum?

„Úff, ohh.. Ég myndi frekar spyrja hvað er ekki að finna þar. Það er öll flóran þar.“

Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndir þú kaupa þér?

„Nærföt fyrir hvern einasta dag.“ 

Dusica leggur mikið upp úr því að vera snyrtileg og …
Dusica leggur mikið upp úr því að vera snyrtileg og fín til fara. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það sem þú myndir aldrei nokkurn tímann klæðast?

„Ég held að ég þori ekki að svara þessari spurningu því það eru allar líkur á að ég þurfi að éta svarið ofan í mig seinna meir. Ég fylgist vel með tískustraumum og er óhrædd við að prófa mig áfram með það sem er í gengi hverju sinni.“

Hvað finnst þér flott á öðrum en finnst ekki fara þér sjálfri?

„Stuttbuxur sem ná niður að hnjám.“

Góðar gallabuxur eru Dusicu að skapi. Svo gengur hún alltaf …
Góðar gallabuxur eru Dusicu að skapi. Svo gengur hún alltaf um með skart á sér. Það finnst henni gefa ákveðinn ljóma. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig farða ertu oftast með?

„Ég er alltaf með góðan grunn. Það er algjört lykilatriði þegar kemur að förðun. Á þessum árstíma skiptir mestu máli að vera með gott rakakrem til að viðhalda eðlilegum raka húðarinnar og ég hef alltaf góða sólarvörn undir farða. Oftast er ég með létta skyggingu, góðan hyljara og svo leyfi ég mér alltaf að vera með einhvern fallegan varalit. Það gerir svo mikið fyrir mig.“

Hvað er skylda að eiga í snyrtibuddunni?

„Ég myndi segja að það væri fallegur gloss. En svo kæmist ég sjálf ekki langt án poreless púðrinu frá IT Cosmetics. Ég á það til að glansa svo mikið yfir daginn og þetta púður hefur bjargað mér alveg. Það er silkimjúkt, veitir náttúrulega matta áferð ásamt því að minnka svitaholur og ófullkomleika í húðinni. En algjört lykilatriði er að eiga 24 hour Photo Finish augnskuggagrunn frá Smashbox. Ég nota hann alla daga og hann heldur augnskugganum á sínum stað allan daginn.“  

mbl.is