Heiður að vinna fyrir Giorgio Armani

Alísa Helga Svansdóttir gerir það gott sem fyrirsæta.
Alísa Helga Svansdóttir gerir það gott sem fyrirsæta.

Hin 18 ára gamla Alísa Helga Svansdóttir hefur unnið sem fyrirsæta á alþjóðlegum vettvangi í nokkur ár. Alísa stundar nám við Menntaskólann við Sund ásamt því að starfa sem fyrirsæta segir vinnuna erfiða en hún kemur þó alltaf ánægð heim eftir langan vinnudag. 

„Þegar ég var 14 ára gömul sá ég að Eskimo var að leita að „nýjum andlitum“ þá ákvað ég að senda þeim skilaboð á Instagram. Ég hitti þau síðan og það næsta sem ég vissi var að ég var komin á samning við þá og í framhaldinu við erlendar fyrirsætuskrifstofur,“ segir Alísa um hvernig ævintýrið byrjaði. 

Mikil samkeppni

Ertu bæði að sitja fyrir á myndatökum og að ganga á tískupöllum? 

„Já, ég geri bæði, myndatökur og ganga á tískupöllum. En flestir viðskiptavinir leita að stelpum sem eru hávaxnar (175 cm. +). Ástæðan fyrir því er að fötin sem eru sýnd á tískupöllunum eru saumuð fyrirfram og fötin eru oftast gerðar á konur sem eru hávaxnar. En maður er farin að sjá að þessar kröfur eru að breytast og fjölbreytni fyrirsætna hefur aukist eins og til dæmis módelið Lily-Rose Depp er aðeins 160 sentímetrar. Það er frábært að sjá þessar breytingar.“

Alísa situr bæði fyrir og gengur á tískusýningum.
Alísa situr bæði fyrir og gengur á tískusýningum.

Alísa var aðeins 15 ára gömul þegar hún fór í fyrsta skipti til Parísar með móður sinni á fund með umboðsskrifstofunni sinni þar. 

„Ári seinna fór ég ein til Parísar og var þar í tvo mánuði. Í sumar fór ég til Mílanó og Þýskalands og var þar í þrjá mánuði samanlagt. Núna í október fór ég til Þýskalands og Póllands í nokkra daga að vinna. Þetta er búið að vera dásamleg upplifun og ég er mjög heppin að fá tækifæri til að ferðast og kynnast allskonar menningu og fólki.

En þessi bransi snýst um samkeppni. Það er hellingur af fyrirsætum alls staðar. Allir byrja einhvers staðar og maður þarf að byggja sig upp og búa sér til gott orðspor. Það er mjög mikilvægt að vera jákvæður og hafa metnað fyrir vinnunni sinni. Á Íslandi er þetta eins nema ekki jafn mikið stress.“

Það var lítið að gera í upphafi heimsfaraldurs en Alísa …
Það var lítið að gera í upphafi heimsfaraldurs en Alísa fór út í sumar að vinna.

Langir en góðir dagar

Alísa segir að það sé hörkuvinna að starfa sem fyrirsæta. Þegar hún var á Ítalíu var hún að vinna á hverjum einasta degi í 10 til 12 klukkutíma á dag. 

„Venjulegur vinnudagur hjá mér er að vakna eldsnemma til þess að taka lest, flugvél, neðanjarðarlest eða komast á annan hátt til vinnu. Það er mikilvægt að vera mættur á réttum tíma í vinnuna. Síðan eru mismunandi verkefni sem bíða og fer í rauninni allt eftir hvernig myndatakan er þann dag. Stundum eru myndatökurnar léttari en aðrir dagar geta verið mjög erfiðir og langir. Það er kannski verið að mynda tíu útlit á einum degi eða 100. En oftast eru vinnudagarnir 10 til 12 klukkutímar vegna þess að það þarf að ná þessari „fullkomnu mynd“ sem notuð verður. Þegar ég kem heim er ég dauðþreytt eftir að hafa staðið í heilan dag en ég kem alltaf ánægð heim eftir að hafa verið að vinna við skemmtilegar aðstæður og með hressu og góðu fólki,“ segir Alísa. 

Áttu þér uppáhaldsverkefni sem þú hefur tekið þátt í?

„Ég á mér svo sannarlega uppáhalds verkefni og það var þegar ég gekk tískupallinn fyrir Armani á París Fashion Week árið 2019. Ég var aðeins 16 ára gömul á þeim tíma. Það var heiður að vinna með og fyrir Giorgio Armani.“

Alísa gekk tískupallinn fyrir Giorgio Armani þegar hún var 16 …
Alísa gekk tískupallinn fyrir Giorgio Armani þegar hún var 16 ára.

Fylgist þú vel með tísku og því sem er að gerast í þessum heimi?

„Já, ég fylgist með tískunni þar sem vinnan mín snýst bara um tísku þá er mikilvægt fyrir mig að fylgjast með. Ég fylgist mest með því á samfélagsmiðlum. Uppáhaldsmerkið mitt núna er Vivienne Westwood og Versace. En draumurinn minn væri að gera herferð með Chanel, Dior og jafnvel Versace.“

Árið 2020 var gott þrátt fyrir litla vinnu

Hvernig er að vera fyrirsæta á tímum heimsfaraldurs? 

„Það hefur aldrei verið jafnlítið að gera hjá mér og árið 2020 þegar heimsfaraldurinn var í hámarki. Ég komst ekki til útlanda um sumarið að vinna og það var engin sem lítil vinna hérna á Íslandi. En það var hins vegar gott að fá smá pásu frá vinnunni og einbeita sér að náminu, vera með fjölskyldunni og vinum. En þetta ár kynnist ég núverandi kærastanum mínum og hefði það líklegast aldrei gerst ef ég hefði verið að vinna í útlöndum. Mín trú er að á erfiðum tímum lærir maður alltaf eitthvað nýtt sem nýtist manni á jákvæðan hátt og verði manni lærdómur til framtíðar.“

Alísu dreymir um að reyna fyrir sér í Bandaríkjunum á næsta ári. 

„Næsta vor út­skrif­ast ég úr MS og ég stefni á að taka mér kannski ár­spásu en ég stefni á að fara til New York, en það hefur verið erfitt hingað til vegna Covid en Eskimo er að vinna í þeim málum. En það yrði einnig lúx­us að kom­ast í ein­hvern há­skóla í Am­er­íku að læra lyfja­fræði þar sem ég hef áhuga á því og stefni á slíkt nám,“ seg­ir Alísa.

mbl.is