Alls ekki fara í ljós og reyndu að minnka drykkjuna

Kelsey Chance/Unsplash

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu er varðar rósroða og hvaða húðvörur sé best að velja sé slíkt að hrjá fólk. 

Kæra Jenna! 

Þeir sem glíma við rósroða eiga að forðast alla olíu í húðvörum. Mér finnst erfitt og flókið að finna út úr því hvaða vörur falla undir það og hvaða ekki. Geturðu bent á olíulaus dagkrem og olíulausan andlitshreinsi?

Bestu, LL

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni. mbl.is

Sæl LL. 

Já, það er rétt að við mælum með því. Það þarf þó ekki að vera alveg olíulausar vörur því það er erfitt að gera næringarrík andlitskrem án nokkurra olía. Olíulausar vörur eru þá almennt þær sem eru í grunninn serum eða gel. Það ætti að vera óhætt að nota léttari krem í rósroða sem innihalda þá olíur sem loka ekki húðinni eða eru það sem eru kallað „non-comedogenic“. Stendur yfirleitt utan á vörunni. Þú ættir að geta treyst góðum vörumerkjum sem eru með sína eigin rósroða línu og kaupa hreinsi og krem í þeirri línu. Sem dæmi um vörulínur sem eru með góðar rósroða vörur eru til dæmis La-Roche Posay, Neostrata og Clinique. Ef þetta er verðflokkur sem er í hærra lagi fyrir þig myndi ég mæla með því að skoða Eucerin eða Pharmaceris. Hér eru svo 10 góð ráð varðandi rósroða sem ég vona að þú hafir gagn af:

10 góð ráð til að meðhöndla rósroða áður en leitað er til læknis 

  1. Notaðu breiðvirka sólarvörn með a.m.k. SPF 30. Sólin getur haft mikil áhrif á rósroða og gert hann verri. Sólarvörnin hjálpar mjög mikið og á mikilvægt að velja sólarvörn fyrir olíukennda og viðkvæma húð. Mælum einnig með steinefna sólarvörn til að nota allan ársins hring til að nota í útivist á veturnar þar sem mikið mæðir á húðinni, bæði vindur og frost.  Sólarvörn ver okkur ekki bara fyrir sólinni, í raun húðvörn allan ársins hring.
  2. Ekki fara í ljós. Útfjólubláu geislarnir í perum lampanna eru alveg jafnskaðlegir og geislar sólarinnar, stundum jafnvel verri.  Notaðu frekar brúnkukrem
  3. Þrífðu húðina kvölds og morgna með mildum hreinsi. Flestar húðvörulínur í dag eru með sérstaka rósroða línu sem ætti að auðvelda valið.  Mikilvægt er að hreinsa burt förðunarvörur, óhreinindi, sólarvörn og mengun sem situr á húðinni yfir daginn og ýta undir frekari skemmdir á húðfrumum.
  4. Notaðu rakakrem daglega sem hentar rósroða. Þá er best að nota olíulaus rakakrem eins og gel eða serum. Ef það dugar ekki til þá setja tvöfaldan raka, serum og svo rakakrem sem er „non-comedogenic“, þeas með það léttar olíur að þær loka ekki húðinni.
  5. Forðastu virkar húðvörur (til dæmis anti-aging vörur) ef þú ert með mikil einkenni þar sem húðin er þá mjög viðkvæm. Virkar húðvörur eru ekki óalgeng orsök fyrir versnun á rósroða. Sem dæmi eru það retinól, glycolic sýra (AHA) og mjólkursýra (lactic sýra).
  6. Ekki skrúbba húðina eða nota kornamaska þar sem það getur ert húðina og gert rósroðann verri.
  7. Ef bólga/bólur í húðinni þá meðhöndla húðina með metronidazol kremi (Rosazol) á hverju kvöldi þar til bólgan hverfur.
  8. Drekktu vatn og borðaðu hollan mat. Áfengi, sterkur matur og mikill sykur geta gert rósroðann verri.
  9. Fáðu nægan svefn og dragðu úr streitu.  Rannsóknir hafa sýnt að streita getur haft slæm áhrif á rósroða. Ef þessi ráð hjálpa ekki og húðin jafnvel versnar er mikilvægt að hitta húðlækni fyrr en síðar.

Ef þessi ráð duga ekki til þá er kominn tími til að leita til annað hvort heimilislæknis eða húðlæknis.

Kær kveðja, 

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is