„Ég geri allt sjálf“

Sunna Örlygsdóttir fatahönnuður.
Sunna Örlygsdóttir fatahönnuður. Ljósmynd/Bjarni Einarsson

Sunna Örlygsdóttir fatahönnuður sérhæfir sig í frjálsum útsaumi. Sunna gerir allt sjálf, hannar flíkurnar og saumar út fallegar myndir og form. Flíkur með útsaumi geta verið dýrar enda tímafrekt að sauma út í höndunum. Hátískuhúsin hafa verið dugleg að halda handbragðinu á lofti að sögn Sunnu. 

Sunna er með opna vinnustofu í anddyri Hönnunarsafns Íslands til áramóta þar sem hún situr og saumar út fyrir framan gesti og gangandi alla virka daga nema mánudaga. Hún er að vinna að nýrri seríu sem hún hengir upp til sýnis jafnóðum og hún verður til.

Það kom ekkert annað til greina hjá Sunnu en að læra fatahönnun þegar hún valdi sér háskólanám. „Ég man eftir að hafa hlaupið til þegar Fashion TV-innslögin birtust í ríkissjónvarpinu þegar ég var krakki svo það lá beinast við að fara í fatahönnun. Hef alltaf haft áhuga á tísku en síðari ár hefur áhuginn þróast út í áhuga á fötum og textíl frekar en fötum í samhengi við tísku. Í raun finnst mér örlítið erfitt að skilgreina mig sem hreinræktaðan fatahönnuð þó að ég sé menntuð sem slíkur þar sem ég vinn mín verk einhvers staðar á mörkum fatahönnunar og textílhandverks.“

Hvað leggurðu áherslu á í þinni hönnun?

„Að vanda vel til verka, nota góð og falleg efni og gera frekar færri, sérstakar, persónulegar og tímalausar flíkur. Ég hef nærri eingöngu gert kvenfatnað og mitt áhugasvið er alls konar meðferð á textíl (e. fabric manipulation) og skreytingar ýmiss konar eins og til dæmis útsaumur.“

Fínt að kaupa íslenska hönnun

Sunna kláraði BA-gráðu í fatahönnun í Listaháskóla Íslands en tók meistaranám í Hollandi. „Ég fór fyrir tilviljun í starfsnám til Hollands og ílengdist einfaldlega þar því ég kann afskaplega vel við mig í Hollandi. Ég fann á þessum tíma að ég vildi fara í meira nám og fá tækifæri til að læra og prófa meira undir handleiðslu kennara og sótti því um í ArtEZ Fashion Masters í Arnhem því ég hafði heyrt góða hluti um námið. Ég var í fimm manna bekk þar, sem telst mjög fámennt, og fékk þar af leiðandi mjög einstaklingsmiðaða og hreint út sagt frábæra kennslu. Var jafnframt tilnefnd til Frans Molinaar Couture Awards-verðlaunanna fyrir útskriftarverkefnið mitt, sem var mikill heiður.“

Fallegar flíkur eftir Sunnu.
Fallegar flíkur eftir Sunnu. Ljósmynd/Bjarni Einarsson

Eru tækifæri í fatahönnun á Íslandi?

„Já og nei. Þau eru fyrir hendi ef þú skapar þau sjálfur en það er ekki hlaupið að því að starfa við fatahönnun á Íslandi og þess þá heldur ef þú ert ekki reiðubúin/n að starfa sem einyrki að mestu leyti. Það er gömul saga og ný að það er vesen að búa á eyju í Atlantshafinu með tilliti til aðfanga og framleiðslu en ég er sannfærð um að það eru tækifæri til að vera með „niche“-vörur ef maður lítur ekki á Ísland sem sinn eina markað. Ákveðin vitundarvakning hefur orðið meðal íslenskra neytenda. Það þykir orðið sjálfsagðara að velja og kaupa íslenska fatahönnun og því fylgir að vissu leyti jafnvel ákveðinn „status“.“

Fær innblástur úr náttúrunni

„Ég geri allt sjálf. Ég vinn sniðin frá grunni, sníð í efni, sauma yfirleitt út í flíkina meðan hún er ósamsett og svo sauma ég saman og geng frá öllu sjálf. Þetta er algjörlega „one woman show“ og svo sannarlega „slow fashion“ – réttara sagt löturhæg tíska. Ég vinn yfirleitt bara með eitt snið í einu og þessi nýjasta sería af flíkum sem ég er að vinna að á safninu er sería af toppum/vestum sem þróast stöðugt meðan á ferlinu stendur, bæði hvað varðar snið, litasamsetningar og textíl,“ segir hún. 

„Yfirleitt er ég með einhverja hugmynd um flík sem ég vil taka fyrir og hvaða mótíf mig langar helst að vinna með í textílnum og útsaumnum. Á meðan ég þróa sniðið sanka ég að mér þeim efnum sem ég tel að „rími“ vel við þá efniskennd eða tilfinningu sem ég vil ná fram. Útsaumurinn er alltaf fríhendis og um leið og fyrsta sporið er komið gef ég ímyndunaraflinu eiginlega bara lausan tauminn. Þegar mér finnst ég hafa náð að kreista allar safaríkustu útfærslurnar út úr sama sniðinu legg ég lokahönd á seríuna og sný mér að næstu.“

Hvar færðu innblástur?

„Einfaldlega hvert sem ég lít! Innblástur kemur mjög oft úr náttúrunni og er ég sérlega mikil áhugakona um hvers kyns strá og gróður. Ég fæ einnig margar hugmyndir við það að fletta bókum og blöðum, út frá einhverju kroti og krassi yfir sjónvarpinu, úr umhverfinu og góðar litasamsetningar geta oft komið af stað einhverjum hugmyndum. Ég leyfi hugmyndunum oft að malla í langan tíma þar til ég kem þeim í einhvern farveg eða áþreifanlegt form og er mjög dugleg að halda skissubækur með alls konar tilraunum sem ég get síðan flett í gegnum þegar ég er örlítið andlaus.“

Útsaumurinn er einkenni Sunnu.
Útsaumurinn er einkenni Sunnu. Ljósmynd/Bjarni Einarsson

Hátískuhúsin halda handverkinu á lofti

Sunna segir að að vinsældir útsaums gangi í hringi en séu áberandi í hátískulínum stóru tískuhúsanna. Á síðustu árum hafa hátískuhúsin verið áberandi dugleg að upphefja handverkið að hennar sögn, þar með talið útsauminn. „Sem betur fer sjá þessi stóru tískuhús hag sinn í því að halda þessum handverkshefðum á floti því það segir sig sjálft að það er ekki sérlega gróðavænlegur bissness að gera fatnað sem tekur ef til vill margar vikur fyrir fjölda manns að sauma út í. Ég hef sjálf gert jakka sem tók 180 klukkustundir frá fyrsta til síðasta spors svo framleiðnin verður náttúrlega ekki mikil með þessu móti og snúnara að auka hana án þess að til komi einhvers konar vélvæðing. En þar með væri handbragðið úr sögunni og sjarminn farinn. Ég held að fólk kunni nú orðið meira að meta það sem er einstakt og verður ekki svo auðveldlega fjöldaframleitt. Ekki bara í samhengi við lúxusvarning og flíkunarneyslu heldur einnig sem mótspyrnu við ósjálfbærri ofneyslu.“

Er frjáls útsaumur einhvern veginn öðruvísi en hefðbundinn útsaumur?

„Í sjálfu sér er verið að nýta mörg af sömu útsaumssporunum í frjálsum útsaumi en grundvallarmunurinn er sá að í frjálsum útsaumi þarf ekki að telja út í efni og það er í raun engin forskrift eða hefðir sem þarf að fylgja. Ég myndi líka segja að mótífin í frjálsum útsaumi væru einmitt það, frjálsari en í hefðbundnum útsaumi eins og til dæmis harðangri, klaustri eða hedebo-útsaumi.“

Auk þess að vera með vinnustofu í Hönnunarsafni Íslands verður Sunna með námskeið þar í desember sem nefnist Fríhendis Flóra. Á námskeiðinu læra þátttakendur að minnsta kosti átta einföld útsaumsspor sem nýtast í frjálsum útsaumi. „Í raun eru manni flestir vegir færir í útsaumnum með þessi örfáu spor í handraðanum. Þetta er góður grunnur að byggja á og því er engrar fyrri handavinnukunnáttu krafist,“ segir Sunna en á námskeiðinu fær fólk að vinna á svipuðum nótum og Sunna hefur gert undanfarin ár, það er út frá flóru Íslands. Hægt er að skrá sig á námskeiðið á Tix.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál