Er hægt að nota öldrunarvörur með rósroða?

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem er með rósroða og veltir fyrir sér hvernig er að eldast með rósroða. Er eitthvað til ráða? 

Sæl Jenna,

ég hef verið með rósroða frá tvítugu og er með frekar viðkvæma húð sem ég hef haldið ágætri með reglulegum laser. Að öðru leyti hef ég verið heppin og komist upp með að nota bara andlitshreinsi í sturtunni og skella svo á mig góðu rakakremi og sólarvörn. Núna er ég komin á fimmtugsaldur og breytingaskeiðið farið að nálgast og húðin orðin þreyttari en ég er eitthvað svo týnd með hvaða húðrútínu ég á að fylgja því ég veit ekki hvaða „öldrunarvörur“ eru nógu mildar fyrir rósroðann þar sem hjá mér hefur minna alltaf verið meira og rósroðinn versnað ef ég geri of mikið. Hvað ráðleggur þú svona rósroðafólki sem er farið að eldast?

Kveðja, 

ÆL

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl og blessuð.

Þar sem ég er sjálf með rósroða og þarf að hafa mikið fyrir því til að halda honum góðum þá þekki ég vel þessar hugleiðingar þínar. Nú er rósroði frekar algengt vandamál hér á Íslandi og örugglega margar konur sem eru í einmitt þessum sömu vangaveltum. Auðvitað er ekki hægt að setja hér fram ráðleggingar sem henta öllum sem eru með rósroða þar sem sjúkdómurinn getur verið vægur hjá sumum og mjög slæmur hjá öðrum. Ég ætla því að setja hér fram ráðleggingar sem eru almennar en ráðlegg þeim sem langar að setja upp sérsniðið langtíma meðferðarplan að leita til húðlækna sem vinna við kosmetískar húðlækningar.

Að því sögðu, þá vil ég byrja að hrósa þér fyrir að fara reglulega í æðalaser. Það er einmitt ein besta meðferðin til að halda niðri einkennum rósroða og skemmtileg „aukaverkun“ af þeirri meðferð er að það verður einnig örvun á bandvefsfrumum húðarinnar þannig að kollagenframleiðslan tekur kipp. Við mælum alveg með því að fara x1-2 sinnum á ári í eitt skipti af æðalaser til að halda rósroðanum niðri ef hann er erfiður og langvarandi, og þá ertu alltaf að fá góða kollagenörvun líka. Ég lít í rauninni á æðalaserinn sem mitt retinól þar sem ég er með of viðkvæma húð fyrir þau frábæru “anti-aging” virku krem eins og svo margir aðrir sem eru með rósroða.

Þá skulum við svolítið rýna í hvaða virku efni rósroða sjúklingar geta prófað sig áfram með, þá „medical grade skin care“. Ég hef nú áður talað um heilugu þrenninguna í húðumhirðu og þar eru mikilvægustu og virkustu efnin sem hægja á öldrun húðarinnar og stuðla að betri húðheilsu, en þar er ég að tala um sólarvörn, andoxunarefnið C vitamin og retinól. Vertu einmitt dugleg að nota sólarvörn. Notaðu breiðvirka sólarvörn með a.m.k. SPF 30 (mæli með 50).

Sólin getur haft mikil áhrif á rósroða og gert hann verri. Sólarvörnin hjálpar mjög mikið og á mikilvægt að velja sólarvörn fyrir olíukennda og viðkvæma húð. Mælum einnig með steinefna sólarvörn til að nota allan ársins hring til að nota í útivist á veturnar þar sem mikið mæðir á húðinni, bæði vindur og frost.  Sólarvörn ver okkur ekki bara fyrir sólinni, í raun húðvörn allan ársins hring. Prófaðu C-vítamín serum eins og til dæmis CE Ferulic frá SkinCeuticals sem þolist vel í rósroða. Þar ertu komin með góða virkni og verndandi áhrif. Flestir rósroðasjúklingar þola ekki retinól en þeir sem eru með vægan rósroða geta prófað sig áfram með vægt retinól, helst þá að byrja í 0.3%.

Annað spennandi virka efni í stað retinóls er azelaic sýra sem við notum einmitt líka sem lyf gegn rósroða (Rosazol/Skinoren). Azelaic sýra er lífræn sýra unnin úr hveiti, byggi og rúgur. Er bakteríudrepandi og eykur hraða frumuskiptinga í húðinni. Örugg að nota á meðgöngu. Hefur einnig væg áhrif á litabreytingar í húðinni. Róar erta húð og er bólgueyðandi og því hentar hún vel í rósroða. Getur nálgast þetta innihaldsefni í sumum snyrtivörulínum eins og t.d. The Ordinary. Þar er hún 10% en Rosazol og Skinoren eru lyfseðilsskyld lyf þar sem Rosazol er 15% og Skinoren 20%.

Önnur virk efni sem væri vert að prófa þegar um rósroða er að ræða er andoxunarefnið Resveratról frá SkinCeuticals sem er næturkrem og niacinamide en það fæst í hinum ýmsu snyrtivörulínum í dag, eins og t.d. Paula‘s Choice og The Ordinary. Þolist vel og hefur „anti-aging“ og bólgueyðandi áhrif ásamt því að draga úr fitumyndun í fitukirtlum og minnkað ásýnd opinna svitahola í húðinni. Mæli þá með 10-20% styrkleika. Stundum er einnig hægt að prófa sig áfram með ávaxtasýrur (AHA sýrur) ef rósroðinn er mildur, þá byrja með 10% og fara mjög varlega, t.d. bara x1 kvöld í viku. Þær eru mjög öflugir rakagjafar og fjarlægja dauðar húðfrumur af ysta lagi húðarinnar og endurnýja þannig húðina og gefa ljóma, en, þær eru mjög ertandi og í rauninni mæli ég ekki með þeim í rósroða né retinóli.

Vonandi er athyglin ekki farin eftir þessa langloku um húðrútínu með virkum efnum í rósroða því nú kemur að því að tala um fyrirbyggjandi meðferðir sem passa þessum sjúkdómi. Hér erum við aftur komnar að því að það eru alls ekki allar meðferðir sem henta þegar rósroði er til staðar. Meðferðir sem ég mæli með í rósroða er auðvitað fyrst og fremst æðalaser. Æðalaserinn lokar æðaslitinu og minnkar þannig bæði virkni sjúkdómsins og roðann í húðinni. Einnig virkar hann gegn litabreytingum eins og sólarflekkjum ef þær eru til staðar og örvar kollagenið. Ef slappleiki er til staðar í húðinni þá eru tvær meðferðir sem virka mjög vel, þeas PRX-T33 peel og Ultraformerinn. Ultraformerinn eru hljóðbylgjur sem fara djúpt í húðina og örva nýmyndun kollagensins og þar með þéttleikann. Öflug meðferð þar sem áhrifin koma hægt og þétt og náttúrulega fram. PRX-T33 peel er skemmtileg meðferð, ódýrari, og því góður sem annar valkostur. Þetta peel inniheldur TCA sýru sem er mjög lítið mólikúl og fer djúpt í húðina, dýpra en ávaxtasýrur eða AHA sýrur, og örva því meira kollagenið án þess að valda usla á ytra borði húðarinnar. Er því batatíminn sama og enginn og hægt að nota í rósroða. Einnig getur skin rejuvenation eða endurnýjun húðarinnar með picolaser virkað vel, sérstaklega þegar meðferðin er samsett með æðalasernum eins og við gerum oftast.

Varðandi svo andlitsmeðferðir þá mæli ég með léttri húðslípun eða Hydrafacial sem er öflugri meðferð en húðslípun. Svo er ein lúxusmeðferð sem hentar mjög vel í rósroða en það er Aquagold. Aquagold og er örnálameðferð þar sem farið er grynnra en í hefðbundinni örnálarmeðferð (mælum alls ekki með hefðbundinni örnálameðferð í rósroða) og blöndu af skin booster og mikrótoxínum þrýst í húðina. Við það róast húðin, svitaholur dragast saman og jafnari áferð kemur á húðina.

Svona til að taka þetta allt saman: 

Virkar húðvörur í rósroða (medical grade skin care):

  1. Steinefna sólarvörn
  2. CE Ferulic dropar (andoxunarefni) á morgnana
  3. Azelaic sýra  á kvöldin
  4. Niacinamide (kvölds og morgna)
  5. Resveratról (andoxunarefni) á kvöldin

Andlitsmeðferðir í rósroða:

  1. Létt húðslípun
  2. Hydrafacial
  3. Aquagold

Fyrirbyggjandi meðferðir í rósroða:

  1. Æðalaser
  2. Ultraformer (húðþétting)
  3. PRX-T33 peel
  4. Skin rejuvenation með picolaser

Vona að þetta hafi eitthvað hjálpað þér við að prófa þig áfram og finna þína fullkomnu húðrútínu og meðferðir sem efla þína húðheilsu!

Kær kveðja,

Jenna Huld Eysteinsdóttir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál