Ekkja Hefners lét fjarlægja öll gerviefni

Crystal Hefner sækist nú eftir náttúrulegra útliti.
Crystal Hefner sækist nú eftir náttúrulegra útliti. HO

Crystal Hefner, ekkja Playboy-kóngsins Hugh Hefner hefur látið fjarlægja allt sem talist gæti gervi í líkama hennar. Hefner hefur farið í fjölda fegrunaraðgerða í gegnum árin og birt af sér myndir þar sem hún situr fáklædd fyrir. Nú hefur hún snúið blaðinu við og finnur öryggi í hógværðinni. 

Frá þessu greindi Hefner í langri færslu á Instagram og sagðist vera tilbúin að vera hún sjálf. Hefner er 35 ára. Hún gekk í hjónaband með Hugh Hefner árið 2012 og var gift honum þegar hann féll frá árið 2017.

Hefner hefur nú eytt fjölda mynda af Instagram reikningi sínum og stefnir að meiri hógværð. „Ég lifði fyrir annað fólk áður, lifði til þess að gera annað fólk hamingjusamt á meðan ég þjáðist,“ skrifar Hefner. 

Hún segir að þegar hún vann fyrir Playboy hafi hún öðlast marga aðdáendur og fylgjendur á Instagram. „Ákveðnar myndir skapa ákveðinn fylgjendafjölda. Í stuttu máli er sagan sú að kynlíf selur. Ég veit ekki hvort ég fann fyrir meiri völdum þegar ég klæddist kynþokkafullum dressum, sýndi brjóstin eða annað, mér fannst fólk bara búast við því. En ég get núna sagt af heilum hug og með stolti að ég valdeflist af hógværð þessa dagana, því mér líður miklu betur með það,“ skrifaði Hefner. 

Á síðasta ári var Hefner hætt komin eftir fituflutningsaðgerð. Þurfti hún að liggja inni á spítala og var vart hugað líf um tíma. 

mbl.is