Þurfti að laga á sér tennurnar og vera sexí

Stífar útliskröfur voru gerðar til Bens Afflecks í upphafi ferils …
Stífar útliskröfur voru gerðar til Bens Afflecks í upphafi ferils hans. AFP

Ben Affleck hugsaði of mikið um álit annarra í upphafi ferils síns. Affleck var á þrítugsaldri og á barmi heimsfrægðar þegar hann lék í myndinni Armageddon sem kom út árið 1998. Hann lét ýmislegt yfir sig ganga til þess að fá stórt hlutverk í Hollywood. 

„Ég var frekar barnalegur gagnvart áliti annarra eða fagurfræði Michels [Bays] og Jerrys [Bruckheimers],“ sagði Affleck í viðtali á vef Entertainment Weekly en Bay þessi leikstýrði myndinni og Bruckheimer framleiddi hana. 

„Þið verðið að fara í ljós,“ sögðu félagarnir og þar með voru ekki fegrunaraðgerðirnar búnar. „Þeir létu mig laga í mér tennurnar og æfa og vera kynþokkafullur. Vera kynþokkafullur, hvernig átti ég að gera það?“ Svar Bays og Bruckheimers við spurningu Afflecks var að segja honum að fara í ræktina. Hlaupa og bera á sig olíu. Hann líkir útkomunni við dagatöl þar sem menn sitja fyrir berir að ofan. 

Affleck segir að leikstjórinn hafi viljað sjá karlleikarana glitrandi í olíu. Sú mynd átti að fara í stikluna fyrir myndina og selja miða.

Ben Affleck lét laga í sér tennurnar að beiðni leikstjóra …
Ben Affleck lét laga í sér tennurnar að beiðni leikstjóra og framleiðanda. ROSE PROUSER
mbl.is