Enginn Barbie-bömmer

Samstarf Barbie og Balmain er hressilegt og skemmtilegt.
Samstarf Barbie og Balmain er hressilegt og skemmtilegt. Samsett mynd

Eitt svalasta tískuhúsið í dag, Balmain, fór frekar óhefðbundna leið þegar það fór í samstarf með Barbie frá Mattel. Línan var kynnt í vikunni og þar er bleiki liturinn í forgrunni, fullkomleikinn er í hámarki enda getur enginn verið grenjandi úti í horni í bleikustu fötum veraldar. 

Þegar miðaldra konur heimsins voru litlar stelpur var ekkert TikTok eða Instagram. Þegar þær vildu lyfta sér upp fóru þær í Barbie og nutu þess í botn að lifa hinu fullkomna lífi. Það er auðvitað klisja að minnast á brenglaðan líkamsvöxt Barbie þar sem fótleggir, haus, brjóst og búkur pössuðu ekki saman. Lappirnar voru allt of langar miðað við allt hitt og ef raunveruleg manneskja væri vaxin eins og Barbie þá minnir mig að hún væri um þrír metrar á hæð með svo lága fituprósentu að hún lægi á spítala með næringu í æð. Það er því ekkert skrýtið að miðaldra konur séu þungt haldnar af fitutráma eftir barnæsku sína. Það er nefnilega alveg sama hvað konur gera eða gera ekki, hulstrið verður aldrei eins og á Barbie. Ofan á allt þetta bættust svo Kate Moss, Linda Evangelista, Claudia Schiffer og Naomi Campbell.

Allt í tilveru Barbie var bleikt, glansandi, glitrandi og upplífgandi. Mínar Barbie-dúkkur voru yfirleitt bara eitthvað að breyta heima hjá sér með vinkonum sínum, elda í bleika Barbie-eldhúsinu eða rúnta um á Barbie-bíl með tveimur barnabílstólum og tveimur Barbie-krökkum aftur í. Það var líka bara til einn Ken og svona einn karl á stangli gerir lítið gagn. Ken var svona eins og stakar konur í stjórnum fyrirtækja. Lítur vel út en breytir ekki leiknum.

Stöku sinnum fékk Ken að vera með en vandamálið var að hann var svo goslaus að það nennti enginn að leika hann. Það gerðist svo lítið hjá honum því hann átti enga vini. í.

Einu skiptin sem Ken varð aðaltýpan í Barbie-húsinu var þegar Jón bróðir minn komst í Barbie-dótið þegar Barbie-eigandinn ég var ekki heima. Þá háttaði hann dúkkurnar og kom þeim fyrir í kynæsandi stellingum. Hversu ósvífið er það?

Listrænn stjórnandi Balmain, Oliver Rousteing, sá það pottþétt ekki fyrir sér þegar þetta samstarf hófst með Barbie. Hann segir að línan hafi orðið að vera bleik því ekkert er bleikara en Barbie. Í línunni eru lógó Barbie notuð á móti Balmain-munstrinu sem skapar eigulega heild. Ken þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu samstarfi því það er ekkert verið að þagga niður í honum eða slaufa. Línan er unisex og hentar fyrir öll kyn. Hún hefur að geyma um 50 hluti sem eru í formi klæðnaðar og fylgihluta. Eftir því sem myndirnar eru skoðaðar oftar fer fólk óvart að langa í krumpujakka í anda níunda áratugarins og eyrnalokka sem líta út eins og barmmerki og jafnvel súludansmeyjarlega skó með hæl eða jafnvel bleika tösku með plastkassa í miðjunni þannig að góssið sé í beinni útsendingu. Þetta er stórhættulegt allt saman. Sérstaklega fyrir þessar venjulegu miðaldra konur sem gera ekkert af sér nema hella aðeins of mikið í sig, fara á netið, panta sér eitthvað allt of dýrt og eru á bömmer í viku (eða mánuð). Hér eru engin nöfn nefnd af virðingu við eiginmenn og börn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »