„Bæði í sjokki þegar sambandið endaði“

Nadía Sif lítur björtum augum framtíðina enda nóg af skemmtilegum …
Nadía Sif lítur björtum augum framtíðina enda nóg af skemmtilegum hlutum að gerast í lífinu hennar í dag. mbl.is/Instagram

Að skyggnast inn í líf áhrifavalda er forvitnilegt fyrir margar sakir, því reglurnar í þeirra lífi eru ekki endilega þær sömu og hjá almenningi. Þetta þekkir Nadía Sif Líndal Gunnarsdóttir af eigin raun en hún fór í ástarsamband í fyrra og missti í kjölfarið yfir 10 þúsund fylgjendur á Instagram. Nadía er án efa ein þeirra sem gengið hefur hvað best að fanga athygli fólks um víða veröld, eins og sést á TikTok myndböndum hennar sem sum hafa fengið allt að 600 þúsund áhorf og fjallað hefur verið um á síðum hins rússneska Vogue svo eitthvað sé nefnt. 

„Ég setti allt í þetta samband og gerði hvað ég gat til að hjálpa kærastanum að koma sér á framfæri. Við áttum mjög góða tíma saman þó við höfum ákveðið að fara ekki inn í nýtt ár sem par. Ég er þakklát fyrir að fá að æfa mig í sambandi, en það er ýmislegt áhugavert sem gerist í kjölfar þess að áhrifavaldar fara á fast sem er líka gaman að skoða. Við hverja færslu á Instagram af okkur saman, missti ég nokkur hundruð fylgjendur en mér var alveg sama um það. Þó við höfum ákveðið í sameiningu að fara í sitt hvora áttina, þá vorum við bæði í sjokki þegar sambandið endaði.“

Það er nóg að gera hjá Nadíu í dag. Hún vinnur í Kaupfélaginu, skóverslun í Kringlunni, er áhrifavaldur á samning við fjölmörg fyrirtæki og er nú að undirbúa að semja tvö ný lög sem hún ætlar að syngja á næstu misserum. 

„Ég hef í gegnum árin verið að gera það gott sem áhrifavaldur, ég hef gefið út tónlist og er í frábæru samstarfi við fullt af fyrirtækjum. Nú eru fylgjendur allir að taka við sér aftur og ég er spennt fyrir árinu 2022.“

Þegar þú gerir myndbönd á sem dæmi TikTok, ertu að átta þig á því að þú ert að gera efni sem mun fara út um allt, eða kemur það sem nær vinsældum sífellt á óvart? 

„Það er ómögulegt að segja hvað fer á flug og hvað ekki. Það er mikilvægt að vera með tónlist sem er vinsæl hverju sinn og að nota „filtera“ sem eru viðeigandi núna en nei, ég veit aldrei hvaða myndbönd hitta í mark og hver ekki. Það er algjörlega örlögum háð.“

Hvað mun framtíðin fela í skauti sér?

„Mig langar að læra leiklist og að búa til meira af tónlist sjálf, það er eitthvað sem mig hefur lengi langað. Eins er ég alltaf svo heppin með samstarfssamningana mína og langar mig að halda áfram að kynna spennandi vörur sem ég hef trú á, með viðeigandi hætti. Svo er ég núna að vinna í Kaupfélaginu, skóverslun í Kringlunni, sem er einstaklega gaman og gefandi. Ég hef mikinn áhuga á tísku og öllu því sem henni fylgir.“

Hvernig var að vera í þriðju seríu af sjónvarpsþættinum Æði sem sýndur var í fyrra?

„Það var æðislegt að taka þátt í Æði þáttunum, með þeim Patta, Bassa og Binna. Þeir eru allir svo æðislegir. Ég er búin að þekkja Binna og Patta frá árinu 2015 og það er mjög gaman að vera í kringum þá. Ég er ekki í miklu sambandi við strákana núna en ég og Binni höldum alltaf sambandi. Erum til staðar fyrir hvort annað og sendum mikið af snöppum okkar á milli.“

Hvernig er að vera samfélagsmiðlastjarna í dag?

„Það er bara mjög gaman. Listrænt efni skiptir mjög miklu máli og svo þarf alltaf að passa að efnið grípi fylgjendur og að varan sem á að auglýsa sé rétt borin fram. Eftir því sem maður er frægari, þeim mun auðveldara er að sýna meira frá lífinu sínu, en ég er ekki mikið að setja þannig efni á samfélagsmiðlana mína þó ég væri alveg til í það í náinni framtíð. Enda er lífið bara allskonar og gaman að segja frá því.“

Er samfélagsiðnaðurinn harður og ríkir mikil samkeppni í honum?

„Já, hann er það. Ekki spurning. Við þurfum að passa að halda öllu gangandi og ef við setjum ekki eitthvað efni út reglulega, þá missum við fylgjendur. Það eru líka góðir hlutir sem fylgja því að vera samfélagsmiðlastjarna. Fyrir þá sem elska tísku, förðun og það nýjasta tengt því. Þá er þetta bara mjög skemmtileg vinna.“

Hvað er í tísku núna?

„Ég er að elska allt sem er „seventís“ tengt tískunni núna. Ég er mikið í útvíðum leðurbuxum, og í korsilettum frá Adam og Evu. Það er mikið um stígvél (e. boots) þegar kemur að skóm. Í raun þurfa allir að eiga þannig skó núna og svo er fallegt að vera í prjónuðum peysum og smart dragtarjakka yfir.“

Korsilettur voru í tísku hér áður, en þið yngri kynslóðin eru að klæða ykkur aðeins öðruvísi upp í þeim núna. Ekki satt?

„Jú, ég er mikið með derhúfur við korsiletturnar mínar og í allskonar ferskum litum. Korsilettur gefa manni fallegar línur þó það geti verið mjög erfitt að borða í þeim.“

Hvar finnur þú fallegustu fötin í þessum fatastíl frá áttunda áratugnum?

„Ég finn þau fyrst og fremst inn í skáp hjá ömmu eða í geymslunni hjá henni þar sem hún er með dásamlegar flíkur frá þekktum tískuhúsum frá því hún var ung. Það jafnast ekkert á við smekkinn hennar ömmu.“

Hvað með förðun?

„Ég reyni að mála mig á frekar náttúrulegan hátt, en að gera aðeins meira úr augunum. Það hefur verið í töluverðan tíma vinsælt að mála augun í einskonar „fox eye“ förðunarstíl. Eins er ég mikið fyrir rauðar varir og nota varalitinn minn frá YSL númer 01 sem er merktur mér og ég get mælt með fyrir alla. Uppáhalds farðinn minn er YSL Touche Éclat, og það sama má segja um hyljarann frá því vörumerki. Ég nota kinnalitinn Darin Peach, frá Lancôme og svo má aldrei gleyma Superhero maskaranum frá IT. Til að setja toppinn yfir i-ið fyrir heildarútlitið, þá nota YSL Libre sem er sá allra besti ilmur sem ég hef fundið.“

Hvað með hárið. Ertu ennþá að nota sokka í hárið til að ná fram liðunum?

„Já ekki spurning, það virkar alltaf. Ég á einnig vöfflujárn, sem er rosalega gott og gerir alveg æðislega liði í hárið.“

Þeir sem hafa komið heim til Nadíu vita að hún er mikið fyrir alla hluti sem koma frá Parísarborg. 

„Ég hef aldrei komið þangað en allt frá París heillar mig. Eins og sjá má á herberginu mínu, þar sem ég er með Eiffel turninn til skreytinga, „dome“ úr gleri þar sem ég geymi rós og fleira. Eins finnst mér tískan í París alveg einstök. Ég nota mikið af skartgripum sem ég skreyti með heima og eru þeir mikið frá henni ömmu minni líka. Það er svo mikil sál í öllu því sem er gamalt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál