Einn best klæddi maður landsins opnar sig

Ljósmynd/Arnór Trausti

Guðmundur Birkir Pálmason, einnig þekktur sem Gummi kíró, er án efa einn best klæddi maður landsins um þessar mundir. Guðmundur hefur vakið athygli fyrir stíl sinn en hann er ekki feiminn við að fara ótroðnar slóðir og eins og hann segir sjálfur, hann nennir ekki að vera eins og allir aðrir. 

Guðmundur rekur sína eigin kírópraktorstöð, Kírópraktorstöð Reykjavíkur, og hefur undanfarið ár bætt við sig fjölda fylgjenda á samfélagsmiðlinum Instagram, þar sem hann deilir lífi sínu með fylgjendum sínum.

Starf Guðmundar er krefjandi og því er mikilvægt fyrir hann að geta hreyft sig og líða vel í fötunum sem hann klæðist. Hann lýsir fatastílnum sínum sem tískulegum, afslöppuðum og frjálslegum.

„Ég fylgist mjög vel með trendum. Ég ferðast mikið til Parísar og Stokkhólms til að skoða hvað er nýtt, einnig skoða ég helstu tímaritin frá Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem sá stíll á vel við mig. Einnig er ég duglegur að skoða YouTube-myndbönd sem fjalla mikið um tísku og lífsstíl,“ segir Guðmundur í viðtali við Smartland.

Hann er yfirleitt búinn að ákveða kvöldið áður í hverju hann ætlar að vera og segir það fara mikið eftir tilfinningu og stuði. „Ég samt klæði mig eins, hvort það sé vinna eða frítími. Um helgar er ég þó langoftast í kósígöllum.“

Ljósmynd/Arnór Trausti

Mikilvægt að tíska sé lífleg

Þegar Guðmundur klæðir sig upp til að fara eitthvað fínt velur hann eitthvað til þess að brjóta upp útlitið. „Ég fer til dæmis aldrei í jakkaföt, heldur fer ég í ljósar buxur og dökkan jakka eða í dökkum buxum og ljósum jakka. Einnig nota ég helst eitthvert „statement item“ eins og áberandi skart, úr, mjög áberandi skó eða jakka frá hátískumerkjum eins og Balenciaga, Dior, Louis Vuitton eða Gucci. Mér finnst mikilvægt að tíska sé lífleg og skemmtileg, fái fólk til að spjalla saman og það sé ákveðin persónuleg tjáning hjá viðkomandi. Þegar ég sé einstakling sem kann að klæða sig segir það mér mikið um persónuleika viðkomandi,“ segir Guðmundur.

Guðmundur er þekktur fyrir að klæða sig í hátískumerki og þekkir þau vel. Þegar kemur að skóm er hans uppáhaldsmerki Louis Vuitton og Alexander McQueen. Uppáhaldsfylgihlutirnir eru frá Dior og Gucci en þegar fatnaður er annars vegar eiga Celine og Balenciaga vinninginn.

Ljósmynd/Arnór Trausti

Reynir að velja góð efni

„Föt þurfa alls ekki að vera dýr þótt ég mæli samt alltaf með að hugsa vel um hvaða efni eru notuð í föt svo þau endist og haldi sér vel. Mér finnst mikilvægt að efnin og saumaskapurinn sé gott og þess vegna vel ég mér merki sem hugsa vel um slíkt. Ég versla þó mikið við merki sem eru ódýrari líka því þau eru mjög oft tískuleg og bjóða oft upp á fjölbreytt úrval,“ segir Guðmundur, spurður hvort föt þurfi að vera dýr eða hvort finna megi fjársjóð frá ódýrari merkjum.

Er eitthvað sem þú myndir aldrei klæðast?

„Já, ég myndi aldrei fara í flíspeysu, Crocs eða 66° Norður-úlpu. Mér finnst þessir hlutir ekki ljótir en ég nenni bara ekki að vera eins og allir aðrir,“ segir Guðmundur.

Spurður hvort honum hafi fundist hann hafa gert einhver slæm mistök þegar kemur að tísku, eða keypt eitthvað sem reyndist svo vera alveg glatað segir Guðmundur að svo sé án efa.

„Þegar maður er að móta sinn stíl tekur það tíma og fullt af mistökum. Ég prufa flesta stíla og finn svo fljótlega hvort sá stíll eða hlutur passi við mig. Ég t.d. hef keypt mikið af dýrum skóm og fötum frá OFF WHITE-merkinu og langoftast nota ég það svo aldrei.“

Ljósmynd/Arnór Trausti

Guðmundur sækir sér innblástur á Instagram og frá ákveðnum karlmönnum sem honum finnst passa hans stíl og lífsstíl. Þegar hann setur saman lúkk byrjar hann að hugsa um litina og ákveðnar flíkur sem hann langar til að klæðast þann daginn. Síðan velur hann skóna, svo skartið og síðast aukahlutina.

Að hans mati eru Lebron James, Jeff Goldblum og A$AP Rocky best klæddu karlmennirnir í heiminum í dag.

Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndirðu kaupa þér?

„Ég myndi kaupa mér Hermes Birkin bag, AP Royal Oak og einkaflugvél svo það sé fljótlegra að skreppa til Parísar.“

Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Ljósmynd/Arnór Trausti
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál