Gréta Karen notar farða og föt til að tjá sig

Förðun er stórt áhugamál hjá Grétu Karen Grétarsdóttur tónlistarkonu.
Förðun er stórt áhugamál hjá Grétu Karen Grétarsdóttur tónlistarkonu. mbl.is/Árni Sæberg

Gréta Karen Grétarsdóttir tónlistarkona leggur mikið upp úr því að hugsa vel um útlitið og er sérstaklega áhugasöm um krem og ilmvötn. Gréta Karen sem er ekki bara þekkt fyrir röddina heldur líka fallega rauða hárið sitt segir að það taki hana allt að þrjá tíma að gera sig til. 

Gréta Karen segist alltaf hafa heillast af förðun og langar helst að læra meira tengt henni. „Ég get dottið í að horfa á förðunarmyndbönd a Instagram og á Youtube bara eins og fólk horfir á góða bíómynd. Að sjálfsögðu horfi ég líka á förðunarþætti sem koma á Netflix, ég elska til dæmis Glow Up-þættinna og dýrka RuPaul-þættina. Að sjá hvernig útliti manneskju er umturnað og öll fötin í þáttunum. Síðast en ekki síst er förðun í bíómyndum og þáttum, já ég gæti skrifað heila ritgerð um ástríðu mína fyrir þessari list.“

Gréta Karen leggur mikla áherslu á að förðun sé list. Það hvernig fólk málar sig og klæðir sig er tjáningarform en Gréta Karen hefur líka mikinn áhuga á tísku. 

„Mér finnst förðun vera list og fyrir mig er hún leið til þess að tjá mig, rétt eins og ég geri með fatavali og tónlist. Kannski er þetta barnið í mér eða leikkonan en mér líður eins og það sé hrekkjavaka og maður getur verið hver sem er og hvaða karakter sem er með nýrri förðun og fötum. 

Þegar maður var barn þá lék maður sér. Ætli þetta sé ekki mín leið til þess að leika mér sem fullorðin manneskja, það má ekki gleyma því. Maður verður að leika sér. Það heldur manni unglegum að innan sem utan.“

Gréta Karen fór útrás fyrir sköpunargleðina með tísku og förðun.
Gréta Karen fór útrás fyrir sköpunargleðina með tísku og förðun. mbl.is/Árni Sæberg

Gerviaugnhár í uppáhaldi

Hvernig hugsar þú um útlitið?

„Ég fer í augabrúna og augnháralitun, nagla- og fótsnyrtingu og svo á ég örugglega svona billjón krem,“ segir Gréta Karen og segist vera fíkill í krem. Hún hugsar einnig um húðina með því að halda sig frá sól eins og vampíra. 

Dagarnir hjá Grétu Karen eru fjölbreyttir og fer það algjörlega eftir því hvort hún er í hljóðveri, að syngja, mæta á fundi, hanga með vinum eða úti að borða hvernig hún málar sig dagsdaglega. „Það fer allt eftir því og svo bara hvernig mér líður líka. Stundum er ég ekki að fara gera neitt sérstakt en mig langar bara að mála mig mikið og setja risa augnhár og steina í kringum augun á mér og svo bara fer ég út í búð, ég kenni Ru Paul um þetta. Stundum mála ég mig ekki neitt ef mér líður bara þannig.“

En þegar þú ferð eitthvað spari?

„Ég set alltaf gervi augnahár og svo fer bara eftir hvernig spari þetta er,“ segir Gréta Karen sem málar sig ekki endilega eins þegar hún fer í sitt allra fínasta púss og þegar hún fer út að dansa með vinkonum sínum. Hún játar að það getur verið flókið að ákveða hvernig hún ætlar að farða sig og segir að það fari líka eftir fötunum. „En svona „go to make up-ið“ mitt er augnhár, bleikur augnskuggi og annað hvort rauður varalitur eða svona meira náttúrulegt,“ segir Gréta Karen sem segist hafa lært að setja á sig augnhár á Yotube.  

Gréta Karen handsteinaði skóna sjálf. Fataval og förðun er eins …
Gréta Karen handsteinaði skóna sjálf. Fataval og förðun er eins og listgrein. mbl.is/Árni Sæberg

Fékk að lita augnhár og augabrúnir 12 ára

Hvað tekur þig langan tíma að gera þig til?

„Alveg frá lágmark klukkutíma til alveg þrjá tíma ef ég tek fötin og hárið með,“ segir Gréta Karen og tekur fram að hún sé með mjög mikið og sítt hár. 

„Ég man fyrst eftir þegar ég sá mömmu mála sig. Ég sat við eldhúsborðið sex ára gömul og hún átti svona hvítan spegil sem var með skúffu þar sem hún yddaði alltaf augnblýantana sína ofan í. Ég bara horfði á hana og dáðist að þessu öllu saman. Ég stalst stundum að setja á mig varalit og svona og beið svo í mörg ár eftir að mega setja farða á mig,“ segir Gréta Karen og hlær. 

„Ég er rauðhærð með hvítar augabrúnir og augnhár. Þannig ég leit mjög strákalega út sem barn. Þegar eg var 12 ára þá fór mamma með mig fyrst að lita augnhárin og augabrúnirnar svo myndi ég segja um 14 ára var ég byrjuð að mála mig,“ segir Gréta. Hún segir að hún hafi loksins fengið andlit þegar hún byrjaði að mála sig. 

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég þríf hana oftast í sturtu með annað hvort Neutrogena Hydro Boost Water Gel Cleanser eða It Cosmetics Confidence in a Cleanser sereminu, fer eftir hve mikinn farða ég er með á mér.

Frá árinu 2020 hafa uppáhaldskremin mín verið úr Silk-línunni frá Sensai. Ég er með rosalega þurra og viðkvæma húð og húðin á mér verður fullkomin eftir að ég er búin að setja Silk-froðuna og svo rakakremið úr Silk-línunni.

Svo er eitt töfrakrem frá It cosmetics sem heitir Confidence in Your Beauty Sleep Pillow Cream. Það kemur í veg fyrir að vakna með svefnhrukkur og línur. Ef ég þarf að fara eitthvað mikilvægt og vil vera 100% viss um að ég vakni ekki bara með sjö rákir á kinninni þá nota ég það.“

Silk-línan frá Sensai er í uppáhaldi hjá Grétu Karen.
Silk-línan frá Sensai er í uppáhaldi hjá Grétu Karen. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur þú þurft að takast á við vandamál tengd húðinni? 

„Já, árið 2014 var ég að göngu í Los Angeles og kannski var það sólin en ég kem heim og andlitið á mér varð eldrautt og mér sveið sjúklega og það hætti ekki í marga daga. Ég gat ekki notað neitt á andlitið nema vatn, engin krem og engan farða. Til þess að gera langa sögu stutta þá kom þetta og fór í nokkur ár þannig ég endaði að fara til Dr. Frank Lancer og hann sagði við mig að ég væri með húð eins og nýfætt barn. Þá fór ég að nota vörurnar hans og varð strax betri.

Ég á ennþá eftir að fara og athuga þetta nánar því þetta truflar mig lítið í dag. Ég býst við að þetta sé rósroði eða hormónar. En þetta var alls ekki gaman. Ég hafði aldrei glímt við neitt vesen með húðina mína og svo einn daginn bara gerðist það og var vesen í mörg ár. Karma fyrir að hafa verið með góða húð sem unglingur,“ segir Gréta Karen hlæjandi. 

Gréta Karen elskar ilmvötn.
Gréta Karen elskar ilmvötn. mbl.is/Árni Sæberg

Góð lykt ómótstæðileg

Hvað finnst þér skipta máli að eiga í snyrtibuddunni?

„Varalitur og maskara.“

Uppáhaldssnyrtivaran?

„Sensai Silk-kremin, þau henta minni húð svo vel. þau gefa svo mikinn raka og farðinn verður svo fallegur ofan á. IT Cosmetics-línan öll er æðisleg, elska allt frá henni.“ 

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?

„Mig langar að prófa Lancome-farða og vantar gott sólarpúður og nýjan kinnalit. Svo ofan á að allt þetta þá er ég ilmvatnsóð. Mig langar að búa til mína eigin ilmvatnslínu. Nýja uppáhalds ilmvatnið mitt er Fun frá Blush og Kasmír frá LaugarSpa. Það er ekkert meira sexí en að finna góða lykt af manneskju.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál