Bjó heima hjá mömmu sinni og kunni ekki að ryksuga

Ewing-fjölskyldan í sínu fínasta pússi á Southfork-búgarðinum. JR Ewing er …
Ewing-fjölskyldan í sínu fínasta pússi á Southfork-búgarðinum. JR Ewing er lengst til hægri á myndinni en mamma hans er fyrir miðju. CBS

Í gamla daga var karlatískan einsleitari en hún er í dag. Það var auðvelt að þekkja ríku karlana úr hópnum því þeir klæddu sig allir á keimlíkan hátt. Fólk gerði ráð fyrir að fólk í ákveðnum fötum hefði það betra en við hin. Svo kom fjórða iðnbyltingin og breytti heimsmyndinni. Skjalataskan vék fyrir bakpoka og hettupeysan varð lykilflíkin í fataskápnum.

Fyrirmyndir fortíðarinnar komu líklega úr erlendum sjónvarpsþáttum en þar var unnið með jakkaföt, skjalatösku, stundum yfirvaraskegg og rykfrakka sem notaður var í öllum veðrum. Í þá daga þurftu karlar ekki að eiga primaloft-úlpu því þeir notuðu Cadillac-inn sinn sem úlpu. Fyrirmyndirnar voru menn eins og JR Ewing, stjarna Dallas-þáttanna. Hann var moldríkur, orðheppinn og háll í mannlegum samskiptum. Hann hætti ekki fyrr en hann var búinn fá sitt fram. Sama hvað það kostaði. Hann myndi líklega seint teljast riddari heiðarleikans eða réttlætisins því hann átti erfitt með að fylgja reglum samfélagsins. Hann komst þó upp með þetta allt því hann átti svo mikið og mátti svo mikið. Ef hann væri raunverulegur karl í nútímaheimi væri búið að slaufa honum endanlega en í gamla daga litu menn upp til hans.

Herra Ewing hefði aldrei látið sjá sig í primaloft-úlpu, teygðum stuttermabol, hettupeysu eða strigaskóm. Hann sást heldur aldrei í ræktinni og vann með hið klassíska karlakarla-útlit. Grannir útlimir voru númeri minni en búkurinn. Ef hendurnar voru í 52 þá var búkurinn í 54/56. Þessi hollning passar ágætlega i jakkaföt, skyrtu með stífum kraga, bindi og kúrekahatt.

Tölvur voru ekki orðinar móðins á þessum tíma og því þurfti hann að ferðast um með öll mikilvægu gögnin í skjalatösku. Þegar skjölin urðu of óþægileg voru þau ekki send í gagnaeyðingu heldur fóru beint í pappírstætarann sem var í kompu á skrifstofunni.

Einu skiptin sem herra Ewing slakaði á var þegar hann kom heim á kvöldin. Þá reif hann sig úr jakkanum, tók af sér bindið og hneppti frá skyrtunni á meðan hann fyllti stórt viskíglas og drakk það eins og eplasafa. Hann gat þetta því hann bjó ennþá heima hjá mömmu sinni sem dýrkaði hann og dáði. Fannst allt frábært sem hann sagði og gerði og minntist ekki orði á að hann ryksugaði aldrei búgarðinn.

Svo þróaðist karlatískan. Á tímabili var til dæmis hægt að sjá hvaða karlar gerðu það gott því auk jakkafatanna og skjalataskanna komu merkjavörugleraugu til sögunnar. Það var hægt að lesa tvennt úr úr merkjavörugleraugunum; annaðhvort gekk svona vel hjá þeim eða þeir voru komnir með yngri kærustur.

Þetta tímabil varði í nokkur ár en þróaðist svo út í leðurjakkann. Þeir sem áttu eitthvað meira en hinir fjárfestu í fínum leðurjökkum, helst úr hanskaleðri. Þetta var áður en pleðrið kom til sögunnar og allir urðu ógurlega umhverfisvænir. Á einhverju tímabili duttu utanbæjarstrípurnar líka inn en þær verða ekki ræddar hér.

Guðjón Már í Oz í áramótafagnaði fyrir mörgum árum!
Guðjón Már í Oz í áramótafagnaði fyrir mörgum árum! Jón Svavarsson

Í dag er alveg ómögulegt að greina hverjir eiga hvað út frá fatnaði því menn eiga kannski dýrustu föt sem hægt er að eignast, sturluðustu úrin og keyra um á lúxuslánsbílum en leigja svo íbúð undir góssið því þeir ná aldrei að safna fyrir útborgun. Á sama tíma klæðast sumir af ríkustu mönnum heims teygðum stuttermabolum og hettupeysum. Ef fólk myndi rekast á þessa menn úti í matvörubúð myndi engum detta í hug að þeir ættu fyrir innkaupakerrunni.

Svona hefur stafræna byltingin gjörbreytt heimsmyndinni. Sem er kannski bara gott því veraldleg auðæfi geta komið og farið á augabragði. Falleg og vönduð föt falla hins vegar aldrei úr gildi og geta lyft andanum og hresst mannfólkið við á leiðinlegum tímum. Svo er ekki úr vegi að setja kraftinn í að fjárfesta í andlegum auðæfum. Það er alveg sama hvað gengur á í heiminum; bréfin í þeim lækka aldrei og sýna aldrei rauðar tölur.

JR Ewing.
JR Ewing. Ljósmynd/Samsett
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál