Fötin segja meira en þúsund orð

Fötin skipta öllu máli í réttarhöldum áratugsins.
Fötin skipta öllu máli í réttarhöldum áratugsins. AFP

Klæðaburður leikaranna Amber Heard og Johnnys Depps í réttarsalnum í Fairfax í Virginíuríki undanfarnar vikur hefur vakið mikla athygli en bæði þykja þau vera einstaklega vel til fara og sérlega virðuleg. Fötin segja meira en þúsund orð þegar í réttarsalinn er komið.

Réttarhöldin hafa vakið mikla athygli, enda skarta þau einum stærstu stjörnunum í Hollywood, og þau eru í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Hvert einasta smáatriði, bæði í vitnisburði fyrrverandi hjónanna og í útliti þeirra, hefur verið greint niður í öreindir.

Réttarsalurinn er leikhús og réttarhöldin leikrit sem fullkomnast af gríðarlegum tilfinningum, leikmunum og auðvitað búningum. 

Depp hefur klæðst hverjum jakkafötunum á fætur öðrum. Hann brýtur …
Depp hefur klæðst hverjum jakkafötunum á fætur öðrum. Hann brýtur þau upp með litríkum bindum og klútum.

Blaðamaður New York Times, Vanessa Friedman, lýsir fötum þeirra Depps og Heard sem edrú, sem er í hrópandi ósamræmi við efnistök réttarhaldanna. Að mestu snúast þau um ofbeldi, áfengi og fíkniefnaneyslu, og hver kom höggi á hvern og hvenær.

Fötin tala hins vegar sínu máli. Lögmenn beggja virðast hafa ráðlagt skjólstæðingum sínum að láta útlitið endurspegla alvörugefni, virðuleika og snyrtimennsku.

Depp, sem þekktastur er fyrir að klæða sig eins og rokkstjarna í bland við sjóræningja, hefur klæðst jakkafötum og vesti í bláu, svörtu og gráu. Hann er alltaf snyrtilegur, með litríkt en fínt bindi, og allar tölur eru hnepptar á skyrtum hans og jökkum. Þá hefur hann greitt hárið aftur í tagl eða snúð og haldið skegginu snyrtilegu.

Depp greiðir hárið aftur í tagl eða snúð.
Depp greiðir hárið aftur í tagl eða snúð.

Heard hefur unnið með keimlíka litapallettu og Depp; grátt, svart og blátt, en hún blandar þó ljósum litum einnig inn í fataskáp sinn. Hún hefur klæðst buxnadrögtum í þeim litum með skyrtum í fallegum ljósum tónum. Þá klæðist hún einnig pilsum sem ná niður á miðja kálfa og blússum. Líkt og Depp hneppir hún öllum tölum á skyrtum sínum.

Amber Heard hefur klæðst buxnadrögtum, pilsum og skyrtum í ljósum, …
Amber Heard hefur klæðst buxnadrögtum, pilsum og skyrtum í ljósum, gráum og dökkum tónum.

Hún skreytir sig ekki með stórum skartgripum og heldur förðun í algjöru lágmarki. Hún greiðir hárið oft upp, í stíl húsmæðra frá fjórða áratugnum. Ef hárið er ekki greitt upp er hún með það í fallegum fléttum eða með liði í því.

Heard greiðir hárið stundum upp í flóknar greiðslur frá fjórða …
Heard greiðir hárið stundum upp í flóknar greiðslur frá fjórða áratug síðustu aldar.
mbl.is