Laumaðist í fataskáp systra sinna en nú hefur dæmið snúist við

Edda Gunnlaugsdóttir lærði textíl-og fatahönnun í London College of Fashion.
Edda Gunnlaugsdóttir lærði textíl-og fatahönnun í London College of Fashion. Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir

Edda Gunnlaugsdóttir textíl-og fatahönnuður hefur alltaf haft óbilandi áhuga á fatnaði og tísku. Hún er yngst fjögurra systra og þegar hún var yngri var freistandi að laumast í fataskáp eldri systranna. Edda segir að þær hafi hins vegar ekki verið eins spenntar fyrir hennar fataskáp. Það er þó breytt í dag, því í vikunni svipti Edda hulunni af splunkunýju hágæðafatamerki sínu, Ddea. 

„Ddea er nýtt íslenskt fatamerki sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á fallegum hágæðafatnaði. Fötin eru framleidd á Ítalíu og eru úr ítölskum og frönskum efnum, sem eru ein þau bestu í heimi. Við leggjum mikið upp úr sniðunum og eyddum við miklum tíma í að fullkomna þau. Fötin frá Ddea eru eins og þær flíkur sem þú kaupir í vintage-verslunum, sem þér þykir vænt um lengi og eru alltaf jafn fallegar. Allar flíkurnar koma í mjög takmörkuðu upplagi, og verður sama flíkin aldrei framleidd aftur í sama lit eða mynstri. Það er ánægjulegra að klæðast flíkum sem maður veit að fáir eiga og við viljum að viðskiptavinir okkar upplifi það,“ segir Edda.

Hún er menntaður textíl- og fatahönnuður úr London College of Fashion og segir að hennar helsta áhugamál hafi alltaf verið tíska.

„Á Íslandi þarf svolítið að skapa sín eigin tækifæri í þessum bransa og hafði það verið draumur minn lengi að stofna mitt eigið fatamerki. Mig langaði að búa til fatnað sem væri vandaður, klassískur og hægt að grípa í aftur og aftur,“ segir Edda. 

Þegar Edda er spurð að því hvort hugmyndin um Ddea hafi verið lengi að fæðast segir hún að ferlið hafi byrjað fyrir tveimur árum. 

„Ég hafði lengi gengið með hugmyndina um að stofna mitt eigið fatamerki í maganum, en hugmyndin var ekki alveg fullmótuð satt að segja. Svo datt mér í hug fyrir tveimur árum að hanna kjóla, sem væru ekki bara notaðir einu sinni fyrir eitthvert sérstakt tilefni, heldur aftur og aftur. Ég byrjaði á að hann hið fullkomna snið, ásamt því að finna efnin og framleiðendur. Þetta hefur tekið óratíma þar sem ég vildi vanda til verka.“

Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir
Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir

Hvað um efnisval og snið?

„Við byrjuðum á að þróa sniðin og tók það nokkurn tíma að ná því eins og við vildum. Flíkurnar eru skáskornar, sem þýðir að þær leggjast vel að líkamanum og eru þess vegna mjög klæðilegar. Ég er með mjög færan klæðskera með mér í liði og ég hef ekki tölu á hversu margir kjólar voru saumaðir eða hversu margar breytingar voru gerðar til að ná öllu eins og við vildum. Ég er textílhönnuður, svo rétt efnisval er mér mjög mikilvægt og hef ég eytt miklum tíma í að finna góð efni. Efnin koma frá Frakklandi og Ítalíu, en þau lönd eru þekkt fyrir hágæðaefni. Ferlið hefur tekið tvö ár, en nú er ég komin með flíkur sem ég get verið stolt af og selt með góðri samvisku,“ segir hún. 

Hvað drífur þig áfram í þinni hönnun?

„Mér finnst mikilvægast að flíkin eldist vel og að hún sé margnota, það er að gripið sé í flíkina aftur og aftur. Gæðin eru aðalatriðið fyrir mér og ég gæti ekki selt flíkur sem væru illa framleiddar og úr lélegum efnum,“ segir Edda sem selur flíkur sínar á vefnum ddea.is og eru fötin send heim að dyrum fólki að kostnaðarlausu. 

Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir
Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir

Þegar Edda er spurð út í fyrir hvaða hóp hún sé að hanna, segist hún hanna á konur sem vilji einstakar flíkur og vilji að fötin endist vel. Aðspurð um hvernig vel klæddar konur klæði sig segir hún að þær viti hvað klæðir þær best. 

„Kona sem veit hvað klæðir hana vel, á vönduð föt, er samkvæm sjálfri sér og eltir ekki endilega tískustrauma.“

Hvað hefur mótað þig mest þegar kemur að fatastíl?

„Ég hef farið í gegnum mörg tímabil eins og flestir, en undanfarin ár hef ég kosið þægindin fram yfir allt eins og margir. Ég vil frekar eiga fáar vandaðar flíkur sem ég get notað oft og mikið. Ég er með þrjú börn og hef lítinn tíma til að hafa sjálfa mig til, svo ég vil helst hafa lítið fyrir því að klæða mig,“ segir Edda. 

Edda er sem fyrr segir yngst fjögurra systra sem eiga það sameiginlegt að hafa fallegan fatastíl. Auk þess er móðir þeirra alltaf upp á tíu þegar kemur að klæðaburði. Þegar Edda er spurð að því hvort það hafi haft áhrif á hennar fatastíl segir hún svo vera. 

„Við systurnar förum mjög oft til mömmu, þegar við fáum leið á okkar eigin fötum. Mamma er með mjög flottan fatastíl og er óhrædd þegar kemur að litum og mynstri, svo það smitar svo sannarlega út frá sér til okkar systra,“ segir hún. 

Hvað um ykkur systurnar. Skiptust þið á fötum?

„Ég er yngsta systirin svo ég var oft í fataskápum þeirra þegar ég var yngri og þær sóttu ekkert í minn, en nú hefur það aldeilis snúist við. En já, við höfum alltaf skipst á fötum og gerum enn.“

Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir

Það má gera ráð fyrir að það sé ekki fataskortur á heimili þínu en er eitthvað sem bráðvantar í fataskápinn þinn?

„Það er auðvitað aldrei neitt sem vantar, en tíska er mitt helsta áhugamál svo mig langar alltaf í eitthvað. Nú langar mig í vandaðan blazer í ljósum lit.“

Ef peningar væru ekki fyrirstaða, hvað myndir þú kaupa þér í fataskápinn?

„Einhvern fallegan skartgrip.“ 

Edda verður með pop-up til að fagna línunni á Uppi Bar í dag á milli 16.00-18.00. Lesendur Smartlands eru velkomnir. 

Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir
Ljósmynd/Hlín Arngrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál