8 skref að uppfærðri húðumhirðu

Unsplash/Morgan Alley

Það er ekki bara fataskápurinn sem breytist með hækkandi hitastigi, en þegar auknum tíma er varið undir geislum sólar er mikilvægt að uppfæra húðumhirðuna.

1. Þægileg sólarvörn á hverjum degi

Þó þú gerir ekkert annað en að hefja notkun á sólarvörn daglega, þá ertu að gera húðinni mikinn greiða. Sólargeislarnir skaða húðina gífurlega, orsaka framkomu ótímabærra öldrunarmerkja og geta stuðlað að húðkrabbameini. Mikilvægt er að finna formúlu sem er þægileg á húðinni og býr að lágmarki yfir SPF 30. Í dag koma sólarvarnir í hinum ýmsu formum svo ekki ætti að vera vandamál að finna þá formúlu sem þér finnst þægilegust – ekki gleyma að bera vörnina á þig reglulega yfir daginn.

2. Léttara krem

Þegar hitastigið hækkar og rakinn í andrúmloftinu eykst, þá kjósa margir að skipta yfir í léttari andlitskrem. Þó formúlan sé léttari getur hún veitt gífurlegan raka og þú finnur fyrir auknum þægindum í húðinni. Prófaðu Clinique Moisture Surge-rakagelið, en það inniheldur til dæmis lífgerjað aloe vera og hefur sefandi áhrif á húðina. Að auki geturðu geymt kremið í ísskápnum og borið það kalt á húðina sem rakamaska – frábær formúla eftir dag í sólinni.

3. Hugaðu að augnsvæði og vörum

Húðin í kringum augu okkar og á vörunum er þynnri en á öðrum stöðum og því viðkvæmari fyrir sólargeislum. Sömuleiðis geta langar sumarnætur sést á augnsvæðinu morguninn eftir og því óvitlaust að vera með öfluga formúlu sem hefur alhliða húðbætandi áhrif, líkt og hið nýja Double Serum Eye frá Clarins. Þetta kremkennda gel gerir augnsvæðið sléttara, þéttara og bjartara ásýndum með 13 mismunandi plöntukjörnum. Til að verja varirnar er auðvelt að verða sér úti um varasalva með sólarvörn, en til dæmis framleiðir Vichy slíka varasalva.

4. Léttur farði

Við viljum flest virka fersk og útitekin á sumrin, svo tilvalið er að skipta yfir í léttari farða eða einfaldlega litaða sólarvörn eða litað dagkrem í hlýrra veðurfari. Þannig færðu náttúrulegra útlit þar sem húðin er betrumbætt en ekki hulin. Prófaðu Futurist Hydra Rescue SPF 45 frá Estée Lauder en þessi farði býr yfir öflugum húðbætandi innihaldsefnum, veitir húðinni fallegan ljóma og þekjan er miðlungs. Ef þú vilt minni þekju geturðu einfaldlega blandað honum saman við rakakremið þitt og skapað þannig litað dagkrem eftir þínu höfði.

5. Bættu C-vítamíni í húðumhirðuna

Andoxunarefni á borð við C-vítamín eru góð allan ársins hring en sérstaklega á sumrin, þar sem þau hlutleysa sindurefni. Berðu C-vítamínserum á húðina á morgnana, á undan sólarvörn, en þannig veitirðu húðinni enn meiri vörn. Prófaðu C-vítamínserumið frá Pestle & Mortar, en það inniheldur þrjár gerðir af C-vítamíni auk náttúrulegra innihaldsefna sem gera húðina sjáanlega þéttari og bjartari ásýndum.

6. Sólkysst án skaða

Það er algjör óþarfi að eyðileggja heilbrigði húðarinnar til að fá smá lit þegar frábærar sjálfsbrúnkuformúlur eru á markaðnum. Hyaluronic Self-Tan Spray frá Marc Inbane er til dæmis sérlega þægilegt í notkun, veitir sólkysst útlit og hægt er að spreyja því yfir farða ef þú vilt aðeins hressa upp á ásýndina samstundis. Luxe Tan Tonic Glow Drops frá St. Tropez er einnig mjög hentug formúla en þetta eru brúnkudropar sem þú blandar út í rakakremið þitt eða serum. Að auki hefur formúlan húðbætandi áhrif þar sem hún er rík af C- og E-vítamíni, hýalúrónsýru og níasínamíði.

7. Skrúbbaðu líkamann

Húðumhirða snýst ekki eingöngu um andlitið heldur er sumarið sannarlega tíminn til að hugsa um allan líkamann. Sama hversu miklu líkamskremi þú nuddar á þig, þá þarftu að skrúbba dauðar húðfrumur af líkamanum til að fá fallegri húðáferð og aukinn ljóma. Þurrburstun er góð eða þú getur notað klassískan líkamsskrúbb sem nærir húðina í leiðinni, einu sinni til tvisvar í viku. Núna fást skrúbbarnir frá Frank Body loksins á Íslandi svo tilvalið er að prófa þá, en hægt er að fá þá í útgáfum sem innihalda ljóma og gera húðina sérlega fallega.

8. Endurhugsaðu virk innihaldsefni

Í dag nota margir virk innihaldsefni á borð við sýrur og retínól reglulega. Þessi efni gera húðina viðkvæmari fyrir sólargeislum, svo bæði er gífurlega mikilvægt að nota sólarvörn samhliða slíkri virkni og einnig er gott að nota þessi efni að kvöldi til eða sjaldnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »