Er hægt að koma Jordan í verð á Manhattan?

Kolbeinn Ari Jóhannesson fyrir utan District One sem er í …
Kolbeinn Ari Jóhannesson fyrir utan District One sem er í Soho hverfinu á Manhattan. mbl.is/Marta María

New York sýkin blossaði upp þegar fréttir bárust af því að íslenska flugfélagið Play myndi hefja flug til borgarinnar. Skyndilega rifjuðust upp allar góðu New York minningarnar sem bældar höfðu verið niður á meðan heimurinn ferðaðist innanhúss (í slopp og með snakkpoka í hönd). Í því ástandi voru allir bara að reyna að lifa af og ekkert rými fyrir stærri og meiri áform. 

Þegar fólk kemst ekki neitt þegar heimsfaraldur geisar er auðvitað langauðveldast að blokkera allar langanir um ráp um stræti stórborga. Þegar glugginn opnast þá er gaman að grípa gæsina en það er einmitt það sem við sonur minn gerðum á dögunum. Móðir drengsins getur líklega kennt RÚV um New York veiruna sem hún smitaðist af þegar sjónvarpsstöðin hóf sýningar á sjónvarpsþáttum sem kölluðust Beðmál í borginni eða Sex and the City á ensku. Þar lifðu fjórar vinkonur hinu ljúfa lífi sem gekk mikið út á það að reyna að finna framtíðarmaka og leggja grunn að stórveldi framtíðarinnar. Þær þvældust um alla borg, borðuðu á fínustu veitingastöðunum, klæddust glæsiklæðnaði og þekktu svalasta fólk veraldar. Ævintýrin voru á hverju strái, jafnvel þótt Mr. Big væri tregur í taumi og fyrsta heims vandamál væru í forgrunni. Það sem er merkilegt að enn þann dag í dag er skemmtilegt að horfa á þættina og tískan eldist merkilega vel. 

Sarah Jessica Parker, Kristin Davis, Cynthia Nixon og Kim Cattrall …
Sarah Jessica Parker, Kristin Davis, Cynthia Nixon og Kim Cattrall léku í þáttunum Beðmál í borginni. mbl.is/AP

Móðir drengsins gleymir seint þeirri upplifun þegar hún kom til New York í fyrsta skipti. Þótt hún hefði margoft komið til Bandaríkjanna var allt stærri og rosalegra í þessari heimsfrægu borg. Hún komst líka fljótlega að því að það þýddi ekkert að taka gellurnar úr Beðmálum í borginni sér til fyrirmyndar og ráfa um strætin í 12 sentímetra hælum og í sparikjól. New York kallar á þægilega skó því stundum er miklu auðveldara að labba en að sitja fastur í gulum leigubíl sem færist ekki fet. 

Í New York ferðir dugar ekkert annað en góðir strigaskór, bakpoki, sólgleraugu og pungtaska. Þótt markmiðið hafi verið að sýna 12 ára syninum helstu mannvirki og anda að sér stemningu New York borgar enduðum við mæðginin í nokkrum röðum fyrir utan verslanir sem trade-a með strigaskó. Hann tilkynnti móður sinni að hann ætti inneign. Frá því hann var lítill hefur hann þvælst um heiminn með móður sinni sem hefur oft og tíðum þurft að heimsækja outlet-heimsins. Oftar en ekki hafa mest spennandi verslanir heimsins kallað á það að fólk þurfi að bíða í biðröð til þess að komast inn. 

Við mæðginin vorum ekki alveg sammála áður en lagt var af stað í ferðina því hann vildi taka Nike skó frá meistara Jordan með í ferðina. Ekki til að þess að vera í þeim á röltinu heldur til að selja þá í einni af þessum búðum sem selja notað góss. Það var þá sem mamma setti í handbremsu og meinaði Jordan að koma með í fríið. Hún ætlaði ekki að taka pláss í töskunni fyrir strigaskó sem keyptir höfðu verið í vitlausri stærð. Hún átti þó eftir að komast að því að þetta var eintóm þröngsýni og eftir á að hyggja hefði verið hægt að koma meistara Jordan í verð í stórborginni. 

mbl.is/Marta María

Undrið Districk One er í Soho hverfinu á Manhattan en þar er hægt að fá allar mögulegar og ómögulegar týpur af strigaskóm. Fyrir móður sem fer varla út með ruslið nema á háum hælum þá er þessi heimur flatbotna skópara töluvert framandi. Allt gekk þetta þó vel og fundust skór við hæfi. Þegar kaupin voru afstaðin var aðalmálið eftir eða það að fá mynd af sér í búðinni, með skóparið, sem Districkt One birtir í framhaldinu á sinni Instagram-síðu.

Fyrir mæður sem þjáðust af lífsstílsverðbólgu á sínum yngri árum var þetta framandi. Fólk með lífsstílsverðbólgu auglýsir ekki skó- og fatakaup heldur lætur alltaf líta út fyrir að flíkur séu eldgamlar, ekki brakandi nýjar og ferskar. Það að fá mynd af sér með nýjasta góssið í hönd virkar þó á heimsbyggðina enda eru lögmál á Instagram og Tik Tok.  

Næsta dag biðu mæðginin í röð fyrir utan Stadium Goods sem er annað himnaríki fyrir áhugafólk um flatbotna skó. Þótt mamma væri orðin svolítið þreytt í fótunum eftir allt labbið lét hún sig hafa það því hún skilur fata- og skóþráhyggju fólks. Sama í hvaða birtingamynd hún er.

Þegar inn í þetta himnaríki var komið tók við heill heimur af vakúmpökkuðum strigaskóm. Mamma hefur séð margt en aldrei þetta. Engir verðmiðar voru undir skónum og ekkert sagt um stærðir sem í boði voru. Þegar sonurinn var búinn að finna skó við hæfi þurfti hann að láta skanna skóna inn hjá ungri konu sem var með svo stór og þykk gerviaugnhár að hún hefði hæglega getað flogið á þeim heim úr vinnunni í stað þess að taka lestina. Þegar vakúmpakkaði skórinn var skannaður inn kom í ljós í hvaða stærðum hann var fáanlegur og hvað hann kostaði. Á meðan vakúmpökkuðu skórnir voru skoðaðir kom í ljós að sonurinn vissi nánast alla söguna á bak við hvert einasta par. Hver hannaði með Nike og hvers vegna þeir kostuðu öll þessi ósköp. 

Við mæðginin gerðum þó fleira en að bíða í röðum fyrir utan búðir sem selja flatbotna skó. Við löbbuðum Central Park þveran og endilangan með ískaffi í ferðamáli og Acai skál í hönd eins og innfæddir New Yorkerar. Fórum upp í Harlem, gengum meðfram Hudson River, fórum í Soho og China Town og upplifuðum ljósadýrð Times Squere að kvöldlagi. Borðuðum McDonald's og töluðum um lífið og tilveruna. Skoðum minnisvarðana um Tvíburaturnana og fórum upp í Empire Stage bygginguna. Það sem mamma lærði í ferðinni er að skókassar eru góss sem alls ekki má henda. Það þurfti því töluvert góða rýmisgreind til að þess að koma skókössum ósködduðum til Íslands. Í þessari Jordan veröld mega hornin á kassanum alls ekki beyglast! Þetta vissi mamma ekki en er nú reynslunni ríkari! 



mbl.is/Marta María
mbl.is/Marta María
mbl.is/Marta María
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál