Stofnaði Youtube-rás 14 ára og slær nú í gegn

Birta Hlín Sigurðardóttir hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlunum Youtube, …
Birta Hlín Sigurðardóttir hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlunum Youtube, TikTok og Instagram.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hin 22 ára Birta Hlín Sigurðardóttir slegið rækilega í gegn á samfélagsmiðlum, en hún sagði nýlega upp starfi sínu sem samfélagsmiðlastjóri á stafrænni auglýsingastofu í Kaupmannahöfn til að einbeita sér að eigin miðlum og er nú sjálfstætt starfandi efnishöfundur (e. content creator).

Samanlagt er Birta með yfir 150 þúsund fylgjendur á miðlum sínum, en hún hefur notið mikilla vinsælda fyrir heillandi persónuleika og fallegan skandinavískan stíl sinn. Við fengum því að skyggnast inn í fataskáp Birtu og forvitnast um lífið sem samfélagsmiðlastjarna í Kaupmannahöfn. 

Byrjaði á Youtube 14 ára

Birta flutti upphaflega til Kaupmannahafnar til að fara í skiptinám við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. 

„Ég átti í rauninni einungis að vera hér í fjóra mánuði í skiptinámi, en ég varð svo heilluð af borginni og langaði að búa hér lengur,“ segir Birta. „Ég lauk tveimur árum í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík en tók mér síðan hlé frá náminu þar sem mér bauðst skemmtilegt starf á stafrænni auglýsingastofu hér í Kaupmannahöfn.“

Birta hefur lengi haft áhuga á að skapa efni fyrir samfélagsmiðla, en hún var aðeins 14 ára gömul þegar hún stofnaði Youtube rás þar sem hún birti förðunarmyndbönd og fjallaði um snyrtivörur. 

„Ég fékk einhver leiðinleg ummæli við myndböndin mín og ég, þá aðeins 14 ára gömul, varð svo sár að ég þorði ekki að gera myndbönd áfram,“ útskýrir Birta. 

Fylgjendahópurinn stækkaði í heimsfaraldrinum

Það var ekki fyrr en í byrjun kórónuveirufaraldursins sem Birta fór að leggja meiri metnað og vinnu í miðla sína jukust vinsældir hennar í takt við það. 

„Þetta var í fyrstu sóttkvínni þegar maður var mikið heima, en þá varði ég tímanum í að dressa mig upp og plata kærastann minn til að taka myndir af mér,“ segir Birta. Hún ákvað í kjölfarið að stofna TikTok aðgang þar sem hún birtir meðal annars mataruppskriftir og förðunarmyndbönd. „Hægt og rólega fór fylgjendahópur minn að stækka og fyrirtæki fóru að hafa samband við mig og fá mig í samstarf.“

@birtahlin Getting ready for a day in #Lisbon 💘 #ootd ♬ Darling - Trees and Lucy

Aðspurð segir Birta galdurinn að baki velgengni á samfélagsmiðlum vera að hafa nógu mikla trú á sjálfum sér og hætta að spá í hvað öðrum finnst. 

„Það sem mér finnst virka vel er að vera ég sjálf, tala í myndböndunum og hafa þetta persónulegt. Það hjálpaði mér mikið að flytja til Köben því ég þekkti fáa hér og ég gerði bara nákvæmlega það sem mig langaði án þess að spá í hvað öðrum finnist,“ segir Birta. 

Þægindin alltaf í fyrirrúmi

Birta er með sérlega flottan fatastíl, en að eigin sögn klæðir hún sig yfirleitt eftir því hvernig henni líður. „Mér finnst stíllinn minn síbreytilegur. Stundum er ég í stuði fyrir „oversized“ blazer-jakka og meira klassískt lúkk, en svo get ég líka verið í meira stuði fyrir götustíl og fer þá í víðar buxur og Levi's gallajakka af kærastanum mínum,“ segir hún. Dagsdaglega eru þægindi í fyrirrúmi hjá Birtu og týpískt dress eru gallabuxur, bolur og strigaskór. 

Birta kann vel við sig í Kaupmannahöfn, en hún heillaðist …
Birta kann vel við sig í Kaupmannahöfn, en hún heillaðist strax af borginni.

Fyrir fínni tilefni er Birta hrifin af síðum pilsum. „Við þau fer ég oftast í látlausan topp sem ég dressa síðan upp með skartgripum og háum hælum.“ Hún leggur mikla áherslu á að versla vandaðar og klassískar flíkur sem hún getur notað lengi, en í fataskáp hennar eru aðallega þægilegar og tímalausar flíkur. „Ég fell oftast fyrir víðum og þægilegum buxum úr léttu efni. Ég elska að safna náttfatalegum buxum úr hör- eða bómullarefni í allskyns litum og mynstrum,“ segir Birta. 

Birta heillast af vönduðum og klassískum flíkum.
Birta heillast af vönduðum og klassískum flíkum.

Uppáhaldsflík Birtu eru klassísku „vintage“ Levi's 501 gallabuxurnar. „Efst á óskalistanum eru svo sætir klossar (e. clogs), en þeir eru fullkomnir við litríka síða kjóla,“ segir birta. Hún hefur mikið dálæti af því að versla í „vintage“ búðum og gramsa eftir gersemum. „Það er umhverfisvænna og svo er bara svo ótrúlega gaman að eiga einstakar flíkur.“

Fær innblástur á röltinu um Köben

Birta heldur mikið upp á danska hönnunarhúsið Blanche. „Þar er auðvelt að finna fallegar og tímalausar flíkur, en gæðin eru mjög góð og því flíkur sem ég mun eiga lengi. Ef ég á að finna eitthvað aðeins ódýrara þá leita ég stundum í Arket eða COS,“ segir hún. Birta heillast mest af náttúrulegum tónum eins og svörtum, hvítum, brúnum og drapplituðum, en hefur þó gaman að því að safna litríkum flíkum. 

Birta fær mikinn innblástur á röltinu um Kaupmannahöfn. „Mér finnst gaman að sjá hvernig danskar stelpur klæða sig og ég fæ margar hugmyndir frá þeim. Það sem ég fíla við stílinn hjá mörgum þeirra er hvað þær eru óhræddar við að blanda saman ólíkum litum og mynstrum,“ segir hún. 

„Ég fæ mikinn innblástur frá Luna Klestrup, Bella Hadid og Amalie Moosgaard, en ég er mjög hrifin af stílnum þeirra og tel þær vera með best klæddu konunum í heiminum í dag.“

Birta fær mikinn innblástur á röltinu um borgina.
Birta fær mikinn innblástur á röltinu um borgina.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál