Guðbjörg sérhannaði hálsmen fyrir Perry

Guðbjörg Ingvarsdóttir afhenti Katy Perry hálsmenið í gær.
Guðbjörg Ingvarsdóttir afhenti Katy Perry hálsmenið í gær.

Guðbjörg Ingvarsdóttir, skartgripahönnuður í Aurum, afhenti söngkonunni Katy Perry sérhannað hálsmen við athöfn við Skarfabakka í gær. Perry kom til landsins til að gefa skipinu Norwegian Prima, sem er í eigu Norwegian Cruise Line, nafn sitt formlega. 

„Þetta er búið að vera langt og skemmtilegt ferli en það hófst í febrúar á þessu ári. Að fá að vera viðstödd þegar hún fékk
hálsmenið var fallegt augnablik,“ segir Guðbjörg. 

Hálsmenið sem Guðbjörg hannaði er veglegt, gert úr silfri og sett demöntum og safírum, og kemur í sérhannaðri öskju. Þetta er ekki fyrsti skartgripurinn sem Guðbjörg hannar fyrir söngkonuna. Í febrúar á þessu ári var hún beðin um að hanna armband handa henni, sem hún gerði og fékk Perry það afhent í Bandaríkjunum í apríl á sérstökum viðburði.

„Þetta er mjög stórt stykki sem er hægt að snúa á alla vegu. Það er hægt að hafa það út á öxl, það er hægt að hafa það að framan. Þannig það breytist svolítið eftir því hvar þú setur það á líkamann. Það er mikil mýkt í því,“ segir Guðbjörg.

Stykkið er stórt og getur snúið á marga vegu.
Stykkið er stórt og getur snúið á marga vegu.

Hálsmenið er sögn Guðbjargar mjög íslenskt. Hún sótti innblástur í dúnmjúka snædrífu sem fellur til jarðar og myndar skínandi kristalla sem rofna hver frá öðrum, tengjast á ný og mynda óvænta heild. 

Guðbjörg hefur hlustað á tónlist Perry og segir tónlistina hennar skemmtilega. „Ég hlustaði á tónlistina hennar og horfði á heimildarmynd um hennar sögu til að fá að kynnast henni betur í þessu ferli,“ segir Guðbjörg.

Í gegnum árin hefur Guðbjörg tekið þátt í öðrum spennandi hönnunarverkefnum. „Það nýjasta er að við vorum með skart handa þulunum í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Einnig höfum við verið að hanna skart fyrir rauða dregilinn í Bretlandi og Bandaríkjunum,“ segir Guðbjörg. 

Þau hafa einnig hannað skartgripi fyrir erlendar kvikmyndir sem frumsýndar verða seinna á árinu.

mbl.is