20% af merkjavöru eru eftirlíkingar á íslenskum endursölumarkaði

Ýr Guðjohnsen, framkvæmdastjóri verslunarinnar Attikk.
Ýr Guðjohnsen, framkvæmdastjóri verslunarinnar Attikk.

Ýr Guðjohnsen, framkvæmdastjóri verslunarinnar Attikk, segir talsvert magn af þeim merkjavörum sem koma til þeirra, eða um 20%, vera eftirlíkingar og geti því ekki farið í sölu í versluninni. Hún segir fólk yfirleitt vera grunlaust þegar það kemur með eftirlíkingar í verslunina, enda sé eftirlíkingar bransinn orðinn gríðarlega vandaður og stór. Sjálf hefur hún lent í því að vera sannfærð um að vara sé ekta sem er það ekki, þrátt fyrir að hafa gott og þjálfað auga.

Verslunin Attikk er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, en þar er fólki boðið upp á öruggan vettvang til þess að selja og versla lúxus merkjavörur á Íslandi. Áður en vörur eru teknar inn í verslunina fara þær í gegnum strangt mat sem felur í sér ástandsskoðun, verðmat og sanngildisvottun. 

Leggja mikla vinnu í mat á vörum

„Það er talsverð vinna sem fer í vottunina okkar, en við erum bæði með hátæknivél upp í verslun sem fer með smásjá inn í leður, málm og allar merkingar sem við notum fyrir dýrar töskur. Við nýtum okkur líka sérfræðiaðstoð erlendis sem aðrar vörur fara í gegnum, en þá sendum við eins margar myndir og þeir þurfa af vörunni til þess að geta komist að niðurstöðu,“ segir Ýr. 

„Við erum komin með ansi gott auga fyrir þessu og það kemur alveg fyrir að við getum séð strax að varan sé eftirlíking, en samt sem áður fer allt í vottun áður en það fer í sölu. Það er sjaldnast sem fólk kemur til okkar með vöru í vondri trú. Yfirleitt er þetta fólk sem hefur fengið vöruna í gjöf eða keypt hana af öðrum hér á landi, þá bara á Facebook, Bland.is eða loppumörkuðum,“ segir Ýr. 

Ýr segir mikið vera af eftirlíkingum á íslenskum endursölumarkaði.

„Ég geri mér stundum skemmtilega ferð í þessa loppubása til að skoða og maður er fljótur að koma auga á ýmislegt þar. Fólk kemur bara með vöru til okkar þegar það heldur að hún sé ekta og það er því talsvert meira af þessu þarna úti en kemur til okkar,“ segir hún. 

Kvittanir ekki endilega nóg

Aðspurð segist Ýr yfirleitt mæla með því að fólk komi með merkjavörur í vottun. „Það er alltaf gott að geta lesið sér til um vöruna og skoðað hana. Sumir vilja stóla á einhverjar kvittanir, en við höfum fengið talsvert magn af vörum með kvittunum sem eru eftirlíkingar. Þetta er orðið svo rosalega vandað, enda er eftirlíkingar bransinn gríðarstór,“ segir Ýr. 

„Fólk getur alltaf komið til okkar með vörur í vottun þó það ætli ekki að selja. Það eru líka margir sem kjósa að gera það sem ætla að selja, en þá geta þeir leyft vottorðinu að fylgja með vörunni,“ útskýrir Ýr. 

Á vefverslun Attikk eru vottaðar merkjavörur með myndum og verðum.
Á vefverslun Attikk eru vottaðar merkjavörur með myndum og verðum.

Íslendingar hrifnastir af Louis Vuitton töskum

Ýr segir verslunina hafa gengið vonum framar. „Við vorum með frekar litla verslun fyrst en svo urðum við að stækka við okkur til að hýsa allar þær vörur sem við fáum inn. Við vildum líka færa okkur meira miðsvæðis og höfum bætt við okkur starfsfólki,“ segir Ýr. „Við sjáum að fólk er farið að vita hvert það á að leita þegar kemur að þessum efnum. Við erum líka dugleg að setja fróðleik og fræðslu á heimasíðuna okkar og höfum til dæmis sett inn greinar um eftirlíkingar.“

„Ef maður ætlar að koma auga á eftirlíkingar þarf maður að hafa mjög þjálfað auga, sérstaklega þegar kemur að þessum nýju eftirlíkingum. Ég hef sjálf fengið einhverjar vörur upp í hendurnar í Attikk sem ég er sannfærð um að séu ekta en eru það svo ekki,“ segir Ýr. 

Aðspurð segir Ýr mest seljast af Louis Vuitton töskum ásamt Gucci, Prada og Fendi. „Annars fer það mest eftir flokki, en fólk virðist aðallega sækjast í vörur sem hafa mikið notagildi og passa við margt. Það er því minna að sækjast í flíkur og meira í fylgihluti, sólgleraugu, belti og töskur,“ segir hún. 

mbl.is