„Þetta stendur manni ansi nærri“

Helga Friðriksdóttir með með sparislaufuna en þau Orri Finnbogason hönnuðu …
Helga Friðriksdóttir með með sparislaufuna en þau Orri Finnbogason hönnuðu Bleiku slaufuna í ár.

Skartgripahönnuðurinn Helga Friðriksdóttir segir það vera mikinn heiður að hafa verið treyst fyrir því að hanna Bleiku slaufuna í ár. Helga er annar helmingur Orrifinn Skartgripa sem er hönnunarteymi hennar og Orra Finnbogasonar. Slaufan er í anda Fléttu frá Orrifinn og segist Helga vera einstaklega ánægð með útkomuna þó það hafi verið áskorun að hanna hana. 

Bleika slaufan er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagins en slagorð verkefnisins er Sýnum lit. Bleika slaufan er tileinkuð baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

„Það var svo óvænt og skemmtilegt að Krabbameinsfélagið leitaði til okkar og bauð okkur að hanna bleiku slaufuna. Við berum mikla virðingu fyrir þessu verkefni og það er mikill heiður að vera treyst fyrir því,“ segir Helga. 

Bleika slaufan í ár er hönnuð af Orrifinn. Sparislaufan er …
Bleika slaufan í ár er hönnuð af Orrifinn. Sparislaufan er úr silfri og kemur í takmörkuðu upplagi.

Hún segir það hafa verið svolítið flókið að búa sér til tíma til þess að sinna verkefninu, en það tókst svo sannarlega. Stærsta áskorunin var svo að setja sitt persónulega handbragð inn í hönnunina.

„Það er svolítið öðruvísi þegar maður vinnur verkefni sem er innan ákveðins ramma eins og þetta. Maður verður að finna ástríðuna og finna út hvernig maður getur skilað gripnum frá sér 100% sáttur. Það var stærsta áskorunin því slaufan verður jú auðvitað að vera slaufa,“ segir Helga. Það hafi skipt þau svo miklu máli að slaufan væri í þeirra stíl.

„Það var því algjör hugljómun að nálgast hönnunina á henni einsog slaufan væri hluti af Fléttulínunni okkar enda passar merking Fléttu fullkomlega við átak Bleiku slaufunnar.“ Þar vísar Helga í merkingu Fléttu sem er sterkt tákn um sameiningu, vináttu og umhyggju. Skartgripirnir úr Fléttulínunni eru mjög vinsælir og segir Helga þá höfða til breiðs aldurshóps.

„Við vinnum alltaf skartgripalínurnar okkar út frá ákveðnum þemum eða hugmyndaheimi. Við sækjum gjarnan innblástur í heim tákna eða siða. Slaufan er fléttuð úr þráðum sem geta táknað hvert og eitt okkar og hvernig við þræðum okkur saman og myndum sterka heild. Saman erum við sterkust og það sýnir sig vel í átaki Bleiku slaufunnar.“

Til viðbótar við Bleiku slaufuna hönnuðu þau Sparislaufu en það hefur myndast hefð í átakinu að gefa líka út sparilegri slaufu sem er veglegri gripur en nælan.

„Við ákváðum að hanna Sparislaufuna í formi hálsmens. Hún er lík nælunni en alls ekki eins. Við vildum líka gera hana úr veglegri málmi, við smíðuðum hana úr silfri og þræddum svo rúbínstein í endann á henni með gullvír. Menið er því veglegur skartgripur sem hægt er að bera áfram, ekki bara á meðan á átakinu sendur. Allur septembermánuður hefur farið í að smíða Sparislaufuna á verkstæði okkar og við erum því orðin ofboðslega spennt að afhjúpa hana og sjá viðbrögðin, við erum í það minnsta mjög sátt við útkomuna á báðum gripum,“ segir Helga.

Orri Finnbogason og Helga hönnuðu slaufuna í ár.
Orri Finnbogason og Helga hönnuðu slaufuna í ár.

Er sjálf með BRCA-genið

Verkefnið stendur Helgu nærri en móðir hennar greindist með krabbamein árið 2019 og hefur Helga staðið þétt við bakið á henni í gegnum þá baráttu. Sjálf er hún í auknu eftirliti vegna stökkbreytingar á BCRA-geninu, en það eykur líkur á krabbameini. 

„Þetta stendur manni ansi nærri. Ég hef sem betur fer ekki orðið veik, enn þá allavega. Þetta er manni mjög hugleikið,“ segir Helga. 

Einn af hverjum þremur Íslendingum má búast við að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Með hækkandi aldri þjóðarinnar fer krabbameinstilvikum mjög fjölgandi og búist er við að krabbameinstilfellum fjölgi um 40% fram til ársins 2035. Dánartíðni fer sem betur fer lækkandi þrátt fyrir aukið nýgengi. Fjölgun krabbameina og lifenda fylgir aukin þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.

Árlega greinast um 870 konur með krabbamein og 300 konur deyja að meðaltali úr krabbameinum. 

„Þetta er því miður orðið mjög algengt. Það er eins og það séu ekki lengur til fjölskyldur sem þekkja ekki krabbamein. Það er alltaf einhver sem hefur greinst með krabbamein í kringum okkur öll, það er alls staðar. Bleika slaufan er ótrúlega stórt og flott verkefni og það hefur tekist að safna háum upphæðum. Þannig þetta skiptir virkilega miklu máli og það er heiður að fá að taka þátt í því,“ segir Helga.

Átakið hefst formlega með sérstakri opnunarhátíð á fimmtudaginn, 29. september, í Háskólabíói. Sala hefst 30. september. Bleika slaufan kostar 2.900 krónur og er seld á bleikaslaufan.is, í vefverslun Krabbameinsfélagsins og hjá fjölmörgum söluaðilum um land allt. Að vanda verður Sparislaufa Bleiku slaufunnar til sölu í takmörkuðu upplagi.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál