„Á ég að gerast TikTok-stjarna?“

TikTok-stjarnan Álfgrímur Aðalsteinsson í uppáhaldspeysunni sinni, en hún er eftir …
TikTok-stjarnan Álfgrímur Aðalsteinsson í uppáhaldspeysunni sinni, en hún er eftir vinkonu hans, Klöru sem er að læra fatahönnun. Árni Sæberg

Álfgrímur Aðalsteinsson, betur þekktur sem samfélagsmiðlastjarnan Elfgrime, er fyrsta árs nemi á sviðshöfundarbraut Listaháskóla Íslands. Hann hefur mikinn áhuga á tísku og er duglegur að deila flottum tískumyndum og myndböndum á samfélagsmiðlum sínum, en hann hefur notið mikilla vinsælda bæði á TikTok og Instagram. 

Álfgrímur byrjaði á TikTok þegar forritið hét Musical.ly. „Það var náttúrulega byltingarkenndur miðill á sínum tíma fyrir þær sakir að maður gat sett tónlist yfir myndböndin sín. Ég hafði mikið gaman af þessu en það var einhvern daginn sem eitt myndbandanna sem ég hafði gert fékk ágætlega mörg áhorf,“ segir Álfgrímur.

„Í kjölfarið var ég með lýðræðislega kosningu fyrir fylgjendur mína á Instagram þar sem ég spurði einfaldlega: „Á ég að gerast TikTok-stjarna?“ og 90% kusu „Já“ svo úr varð sem varð,“ bætir Álfgrímur við. 

Við fengum að skyggnast inn í fataskáp Álfgríms sem sagði okkur frá fatastíl sínum.

Hefur þú alltaf haft áhuga á tísku?

„Já, klárlega! Ég skar mig frá öðrum börnum að því leyti hversu mikla athygli ég veitti fötum og fallegum hlutum í umhverfi mínu. Ég átti það til að hlaupa upp að ókunnugu fólki og hrósa því fyrir klæðaburð þeirra og útlit. Gott dæmi um þetta er þegar ég var fimm ára gamall niður í bæ með foreldrum mínum og var allt í einu komin upp í fangið á heldur skuggalegri konu, en það var til þess að dást að maskaranum sem hún notaði. Hann var blár.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Ögrandi. Ég sæki mikinn innblástur í aldamótatískuna í bland við 90's og stundum 80's. Þessa dagana er rokkstjarnan svolítið yfirvofandi en stíllinn minn tekur stöðugum breytingum.“

„Sólgleraugun keypti ég á Depop, toppinn fann ég í Mango …
„Sólgleraugun keypti ég á Depop, toppinn fann ég í Mango í París og gallabuxurnar eru frá merkinu EYTYS.“ Árni Sæberg

Hvernig fatnaði fellur þú oftast fyrir?

„Það fer mjög mikið eftir því hvað er að veita mér innblástur þá stundina, hvað ég er að sjá á netinu og í hvaða heimi hugur minn er. Það getur verið allt frá hekluðum ömmubol að demantaskreyttum g-streng en þegar öllu er á botninn hvolft fell ég oftast fyrir einhverju óvenjulegu eða einstöku.“

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Langflesta daga er ég í gallabuxum og hettupeysu.“

„Græna hettupeysan er frá Desigual, en ég keypti hana í …
„Græna hettupeysan er frá Desigual, en ég keypti hana í Barcelona á Spáni í sumar.“ Árni Sæberg

En þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Fínt er afstætt hugtak. Ég á til dæmis ekki venjuleg jakkaföt. Ég forðast það samt að klæðast einhverju víðu eins og hettupeysu þegar ég fer eitthvað fínt.“

Hvað er að finna í fataskápnum þínum?

„Ég á afskaplega mikið af gallabuxum og síðustu ár hef ég verið með brjálað æði fyrir þröngum síðerma bolum. Á tímabili átti ég held ég 30 þannig boli en þeim fer smám saman fækkandi og núna á ég bara 10.“

Bestu fatakaupin?

„Vá, erfið spurning! Í augnablikinu held ég mest upp á nýjustu flíkina mína en það er peysa sem ég bað Klöru vinkonu mína sem er að læra fatahönnun að búa til fyrir mig.“

Hvað er á óskalistanum fyrir haustið eða veturinn?

„Fleiri peysur. Langar ofboðslega í eina fjólubláa prjónapeysu frá Diesel. Einnig er ég með augun opin fyrir kuldaskóm, nógu flottum kuldaskóm.“

Uppáhaldsmerki?

„Núna er ég með æði fyrir Desigual en líka öllum unglinga tískumerkjum eins og gamla íslenska merkinu CHILD, True Religion, Stüssy og Carhartt.“

Hver verslar þú oftast?

„Ég versla mikið á Depop sem er virkilega sniðugur miðill á netinu, en hann er eins og bland.is nema með notuðum fötum hvaðanæva að úr heiminum. Svo er ég duglegur að kíkja í búðir hér í Reykjavík eins og Verzlanahöllina og Hringekjuna þar sem fólk selur notuð föt, en ég reyni að kaupa sem allra minnst af nýjum flíkum.“

Uppáhaldslitir?

„Í sumar hef ég verið mjög skotinn í grænum. Uppáhaldslitirnir mínir hafa samt mjög lengi verið bleikur, rauður og fjólublár. Svo klæðist ég oft svörtu sem er náttúrulega ekki litur.“

„Úlpuna keypti ég síðasta vetur í versluninni Nebraska á Barónsstíg. …
„Úlpuna keypti ég síðasta vetur í versluninni Nebraska á Barónsstíg. Hún er frá merkinu Racer Worldwide.“ Árni Sæberg

Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndir þú kaupa þér?

„Það er hryllilega margt vintage frá Jean Paul Gaultier sem mig dauðlangar í en kýs þess í stað að halda fast um budduna. Svo ég tali nú ekki um baráttu hennar við fatamerkið Balenciaga en í sumar lék ég hana grátt og keypti mér skópar frá þeim.“

Hver finnst þér vera best klæddi einstaklingurinn í dag?

„Ég.“

Hver heldur þú að sé lykillinn að baki velgengni þinnar á samfélagsmiðlum?

„Samfélagsmiðlar snúast fyrst og fremst um að vera virkur á þeim, það er það sem miðillinn vill. Ég náttúrulega get ekki hætt að pósta vitleysunni endalausu á alnetið og þar af leiðandi eru margir sem hafa séð mig þar, en svo reyni ég að taka mig ekki of alvarlega inn á TikTok og er bara að hafa gaman þar.“

Álfgrímur fellur oftast fyrir fatnaði sem er einstakur og óvenjulegur.
Álfgrímur fellur oftast fyrir fatnaði sem er einstakur og óvenjulegur. Árni Sæberg

Hvað er framundan hjá þér?

„Það er heilmikill lestur framundan hjá mér þar sem ég var að byrja á sviðshöfundarbraut í Listaháskólanum. Tækifæri sem ég er mjög þakklátur fyrir.“

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál