Sóley loksins fastráðin hjá Louis Vuitton

Sóley Jóhannsdóttir er fastráðin hjá Louis Vuitton.
Sóley Jóhannsdóttir er fastráðin hjá Louis Vuitton. Ljósmynd/Luna Picoli-Truffaut

Íslenski fatahönnuðurinn Sóley Jóhannsdóttir landaði á dögunum starfi hjá franska tískuhúsinu Louis Vuitton. Það kostaði hana blóð, svita og tár að komast á þann stað sem hún er á í dag. 

Sóley er búsett í háborg tískunnar, sjálfri París. Þar hefur hún búið í fjögur ár og segir að tíminn í borginni hafi liðið allt of hratt. Í miðborg Parísar er hún með skrifstofu á efstu hæð, í einni af þessum gömlu, virðulegu byggingum, sem eru þrungnar af sögu. Skrifstofan er á Pont Neuf sem er í 15 mínútna göngufjarlægð frá Louvre-safninu. Út um gluggann blasir Eiffelturninn við.

Hvernig var leiðin að þessu draumastarfi?

„Hún var nokkuð snúin. Ég byrjaði að læra fatahönnun fyrir rúmum 10 árum en á því tímabili er ég búin að flytja fimm sinnum á milli landa, fara í starfsnám á fjórum stöðum og útskrifast úr þremur skólum en þetta tókst,“ segir hún og brosir.

Ljósmynd/Luna Picoli-Truffaut

Aðstoðarhönnuður hjá Paul Smith

Árið 2013 kláraði Sóley fatahönnunarnám í Danmörku og fór í framhaldi af því í starfsnám hjá íslenska fatamerkinu JÖR. Á þeim tíma var hún einnig að vinna í ferilmöppunni sinni til þess að komast í frekara nám erlendis.

„Haustið 2014 flutti ég síðan til Englands og hóf BA-nám á fatahönnunarbraut University of Brighton. Eftir útskriftina fékk ég vinnu sem aðstoðarhönnuður hjá Paul Smith. Það var mjög gaman enda þekkti ég liðið mitt vel því ég hafði verið í starfsnámi hjá þeim á meðan á BA-náminu stóð.

2018 byrjaði ég svo í meistaranámi í Institut Français de la Mode í París. Skólinn er vel tengdur inn í franska tískubransann og mér leist bara almennt vel á hann. Við vorum 10 saman í bekk og námið sjálft var mjög krefjandi en það tók bara níu mánuði. Eftir að ég kláraði þurfti ég að fara í starfsnám til að fá að útskrifast. Ég verð nú að viðurkenna að á þeim tímapunkti fannst mér ég eiginlega orðin of gömul fyrir starfsnám en ég lét mig nú hafa það. Ég byrjaði að vinna hjá Isabel Marant í september 2019. Tískubransinn fraus síðan algjörlega þegar kórónuveiran skall á. Það voru til dæmis bara tveir vinir sem höfðu fengið atvinnutilboð sem fatahönnuðir á þessum tíma en þau voru snarlega dregin til baka.

Þá var í rauninni ekkert annað í boði en að reyna að koma sér í annað starfsnám því það voru einu stöðurnar sem einhver hreyfing var á. Ég gerði það og fór þá til tískuhúss sem er vel þekkt í París og heitir Lemaire. Þegar ég var svo að klára þar þá var hringt í mig frá Louis Vuitton og ég beðin um að koma í viðtal. Þau vantaði þá aðstoðarhönnuð og buðu mér þriggja mánaða samning, sem ég þáði. Samningurinn var svo framlengdur og þarna er ég enn þá eftir rúmlega eitt og hálft ár í starfi. Það var ekki fyrr en í lok ágúst að ég fékk fastráðningu hjá Louis Vuitton og er núna titluð fatahönnuður,“ segir Sóley.

Ljósmynd/Luna Picoli-Truffaut

Unnið langt fram á kvöld

Oft er sagt að fólk komist ekkert úr sporunum nema vinna frítt fyrst um sinn og vinna svo allan sólarhringinn. Hvernig er þín upplifun af því?

„Já, það er svolítið svoleiðis. Á einum tímapunkti, þegar ég var að læra í Brighton, kom blaðamaður frá Dazed and Confused og hélt fyrirlestur. Hún sagði að líklega myndu þrír úr bekknum mínum af 45 manna bekk fá vinnu sem fatahönnuðir. Hún eiginlega mælti með því að við fyndum okkur eitthvað annað að gera,“ segir Sóley og hlær og segir að þetta hafi ekki verið mjög uppbyggjandi erindi.

„Þannig að það er mikil samkeppni í þessum bransa og mjög margt fólk tilbúið að vinna fítt. Eins og ég er búin að nefna hérna nokkrum sinnum þá er ég búin að fara í margs konar starfsnám þar sem ég fékk annað hvort ekkert borgað fyrir eða mjög lítið. Ég hefði í rauninni aldrei getað þetta nema út af því að mamma og pabbi studdu svo vel við bakið á mér og hjálpuðu mér,“ segir Sóley og segir að vinnudagarnir geti verið mjög langir.

„Vinnumenningin er vissulega misjöfn eftir fyrirtækjum en Frakkar vinna almennt lengi fram eftir,“ segir hún.

Sóley dreymir um Boy Bag handtösku frá Chanel.
Sóley dreymir um Boy Bag handtösku frá Chanel.

Hvernig upplifir þú tískuheiminn núna?

„Skemmtilegan en á sama tíma nett klikkaðan,“ segir hún.

Þessa dagana er Sóley að hanna dömulínu sem kölluð er Prét-a-Porter, sem gæti útlagst tilbúið til að klæðast. Í hennar hópi er einn yfirhönnuður sem stýrir deildinni.

„Svo erum við þrír hönnuðir, einn aðstoðarhönnuður og ein stelpa sem sér um skipulagið,“ segir Sóley.

Burberry-kápa stendur alltaf fyrir sínu.
Burberry-kápa stendur alltaf fyrir sínu.

Mátun tvisvar í viku

Hvernig er venjulegur dagur í vinnunni?

„Dagarnir eru ótrúlega fjölbreyttir sem er algjör snilld. Hefðin hjá okkur er að vera með mátun tvisvar í viku. Þá mætir yfirmaðurinn frá saumastofunni ásamt framleiðsluteyminu og saman einbeitum við okkur að því að betrumbæta sniðin og flíkurnar.

Annars er ég mikið í svokallaðri rannsóknarvinnu og svo teikna ég líka mikið og hanna. Með meiri ábyrgð fer svo meiri tími í að íhuga efnaval og finna út úr því hvernig flíkin á að líta út þegar hún fer í sölu. Við þurfum að ákveða öll smáatriði, til dæmis hvaða fóður er best að nota hverju sinni, hnappa, rennilása og fleira. Þetta getur oft reynst svolítið snúið.“

Hefur þú óþrjótandi hugmyndir þegar kemur að tísku?

„Mér finnst allavega mjög gaman að dýfa mér í rannsóknarvinnu, heimsækja vintage-búðir og skoða gömul tískublöð.“

Hver er þín uppáhaldsverslun sem selur vintage föt?

„Uppahalds vintage búðin mín er pínulítil. Hún er í 18 hverfi og heitir Numeru Deux.

Svo er Cinemachine oft skemmtileg. Annars versla ég vintage á netinu. Annaðhvort á Vestiaire Collective eða á Vinted.co.uk,“ segir hún.

Útsýnið af skrifstofunni er dýrðlegt.
Útsýnið af skrifstofunni er dýrðlegt.

Hvernig er þinn fatastíll?

„Ég er með frekar mínímalískan fatastíl en finnst gaman að blanda saman vintage og meira klassísku.“

Getur þú lýst fataskápnum þínum?

„Það er svolítið fusion í gangi. Þegar ég er heima á Íslandi er ég vanalega í ullarpeysunni og Levi's 501 en svo reyni ég að vera aðeins meiri skvísa á skrifstofunni í París. Síðasta flíkin sem ég keypti mér var vintage-rykfrakki frá Burberry en á undan því keypti ég mér röndótta Stussy-úlpu í XL til að hafa hana svona stóra og góða,“ segir Sóley.

Hvað finnst þér alltaf flottast þegar kemur að klæðaburði og fatavali?

„Að vera maður sjálfur, þannig líður manni alltaf best.“

Finnst þér kórónuveiran hafa breytt tískuheiminum?

„Já og nei. Sem hönnuður þarf ég að vera með á nótunum í því sem er í gangi í samfélaginu og reyna að spá fram í tímann. Í kórónuveirunni fóru mörg tískuhús að búa til svaka flottar náttfatalínur en eftir samkomubann er nú meiri stemning að klæða sig upp og gera sig fínan. Þetta er á stöðugri hreyfingu. Annars er tískuiðnaðurinn, því miður, mjög mengandi iðnaður! Mér finnst veiran ekki hafa breytt miklu en undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning. Eins og með margt annað tengt þessu umræðuefni þá gerast breytingarnar allt of hægt.“

Luna Picoli-Truffaut

Hvað myndir þú segja að væri mest í tísku akkúrat núna?

„Tíundi áratugurinn. Mér finnst Bella Hadid til dæmis klæða sig ótrúlega fallega þessa dagana.“

Vantar eitthvað í fataskápinn þinn?

„Já, mig langar ótrúlega í góðan mokkajakka fyrir veturinn.“

Ef peningar væru ekki fyrirstaða, hvað myndir þú kaupa þér?

„Chanel Boy Bag handtösku.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda